föstudagur, júlí 13, 2007

Það var Kanóæfing í Nauthólsvíkinni í gær. Ásgeir Ironman mættur og ekki seinna vænna en að fara yfir róðrartökin með honum. Hann var brattur og til alls reiðubúinn. Þetta er allt að skýrast. Förum með hjólin í frakt í síðasta lagi á mánudaginn. Reyni að koma mínu í dag. Það er víst svo lítið fraktrými með vélunum til Grænlands að það þarf að mjatla þessu smá saman.

Við keppum á Grænlandi undir nafni Intersport. Það verður að segjast að það er á nippunni að fyrirtækið sé þess virði að keppa undir nafni þess. Áhugaleysið hjá þeim er frekar áberandi. Það eina sem Intersport gerir er að sleppa því að græða á okkur á þeim vörum sem við kaupum hjá þeim vegna keppninnar. Stórfyrirtæki Daníels Smára í Ármúlanum aðstoðar okkur hins vegar með merkingar en við fáum fyrir náð og miskunn fengið starfsmannaboli hjá fyrirtækingu uppi á Höfða. Trausti hafði beðið þá sérstaklega um útvega Salomon utanvegaskó því þeir voru ekki til á lager eins og í fyrra. Það átti að bjarga skónum en svo gekk ekkert upp og þeir komu ekki. Það var alltaf eitthvað í veginum fyrir að það gengi upp. Trausti fékk skóna hins vegar með hraðsendingu frá New York í fyrrakvöld. Mér heyrist stemmingin vera þannig að samningi við fyrirtækið verði sagt upp með laglegu bréfi þegar heim verður komið. Ég held að þeir geti þá sent lið sjálfir og komist þannig í raun um hvað þetta snýst um.

Fékk bréf frá Spartathlon í gær. Er nr. 183. Nú blasir alvaran við. Þetta er sjö daga prógram frá 26. sept. til 2. okt. Keppnin er 28. - 29. sept.

Er fréttastofa Stöðvar 2 komin að fótum fram og berst nú um í fjörbrotum. Að hlaupa upp til handa og fóta og storma upp á eitthvað hótel af því það hafði frést að rússnesk kona væri gestkomandi á hótelinu sem seldi eitthvað annað en sódavatn. "Það er komin mella í bæinn, við verðum að skoða hana og sýna hana í fréttunum." Þvílík útnesjamennska. Litlu betri var fréttin um konuna sem sá fyrir sér og dóttur sinni með því að dansa á súlustað. So what þótt konan dansaði þarna. Vonandi hefur hún góðar tekjur fyrir sig og sína. Hefði það verið minna fréttnæmt ef hún hefði eytt öllu kaupinu í rugl og vitleysu.

Tók 16 km létta æfingu í gærkvöldi. Nú er það Laugavegurinn á morgun.

Engin ummæli: