föstudagur, júlí 06, 2007

Fór út snemma í morgun og tók 8 km. Var síðan heima við að klára fyrri umferðina á húsið. Geri ráð fyrir að fara vestur á Rauðasand um helgina til að mála húsið heima. Veðurspáin sýnist vera þokkaleg. María keppti í undankeppni í hástökki á landsmóti UMFÍ í dag. Hún stökk inn í úrslitin þótt ung sé. Það er fyrst og fremst innistæða í reynslubankanum sem situr eftir með því að taka þátt í mótum sem þessum þar sem flestir eru eldri en hún. Það er alltaf sérstök stemminig á landsmótum UMFÍ. Ég hef nokkrum sinnum verið á þeim sem áhorfandi en ekki sem keppandi. Þarna hittist fólk héðan og þaðan af landinu sem kemur til að rifja upp góðar minningar frá fyrri árum og hvetja þá sem eru að keppa. Þó held ég að það verði ekki sama stemmingin að halda landsmót inní á miðju höfuðborgarsvæðinu enda þótt ég efi ekki að Kópavogur gerir allt sem mögulegt er til að þetta verði glæsileg hátíð. Veðurspáin er góð.

Hjólaði upp á Esju í kvöld, gekk upp, hljóp niður og hjólaði svo heim. Nú náði ég markinu, var tæpa þrjá tíma í túrnum. Hitti Pétur Helga og Erlend þegar ég var að leggja af stað upp. Þeir voru brattir og ætla Laugaveginn eins og margir fleiri. Heyrði í dag að það væru komnar um 110 skráningar í hlaupið.

Ég var heppinn á leiðinni heim. Þegar ég kom að brúnni yfir ána rétt fyrir ofan Mosfellsbæ ætlaði ég að beygja yfir götuna til eiga greiðari leið yfir á hjólastíginn. Ég tók ekki eftir því að það var svolítill kantur utan í götunni. Þegar ég kom á nokkurri ferð utan í hann flaug ég einfaldlega á hausinn og fleytti kerlingar eftir götunni. Mér til happs var farið að rigna svo gatan var hál og því meiddi ég mig ekkert, fékk eitt smá skafsár á olnbogann og annað á lærið en annars sá ekkert á mér. Sem betur fer voru bílar ekki alveg á næstu grösum. Ég var bálreiður út í sjálfan mig fyrir að láta annað eins gerast. Það væri eftir öðru ef maður myndi eyðilegga plönin með einhverjum svona aulahætti. Ekkert skemmdist nema sólgleraugun flugu eitthvað út í loftið og eru þar enn. Enda áttu þau líka að vera heima.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll frændi,
Góða ferð vestur í fegurstu sveit landsins - Paradís á jörð ;-).
Verður ekki lengi ef þú bregður undir þig betri fætinum.....heheheh
Kv.
Sólveig.