miðvikudagur, júlí 11, 2007

Vatnsglasið sem umræða um ýmis mál hérlendis hringsólar í er oft skelfilega lítið. Jafnréttisumræðan er eitt dæmi um þetta. Hún er oft keyrð áfram út frá þröngu sjónarhorni sjálfskipaðra sérfræðinga sem horfa til hafs af lágri bæjarstétt og sjá þar af leiðandi ekki langt frá sér. Nú síðast var í morgun umfjöllun í blöðum um að karlar tækju fæðingarorlof í bútum en ekki samfellt. Þetta er slæmt í hugum margra. Þetta getur leitt til að kynbundinn launamunur vaxi að mati einhverra "sérfræðinga". Fram kom í umræðunni að það ætti jafnvel að afnema möguleika karla á að taka fæðingarorlof í nokkrum hlutum. Kastljós sjónvarpsins var undirlagt af þessu. Þar kom fram sú skoðun að það ætti að lengja fæðingarorlofið þannig að barnið færi beint á leikskóla þegar því lyki. Stofnanavæðingarhugsunin virðist allsráðandi. Skyldi það ekki geta verið að einhverjir foreldrar vilji haga málum þannig að þeir verði heima með börn sín að meira eða minna leyti. Á það að vera sjálfgefinn hlutur að börn séu á stofnun allt að 8 klst á dag frá eins og hálfs til tveggja ára gömul?

Ég fékk nýlega í hendurnar norrænt blað þar sem jafnréttisumræðan var tekin út frá öðru sjónarhorni. Þar var varpað fram spurningunni "Hver er norræni karlmaðurinn og á hvaða leið er hann"? Í grein um þetta viðfangsefni voru raktar nokkrar sláandi staðreyndir sem fjalla um stöðu stráka og ungra manna í Noregi. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

1. Flestir sem flokkast undir "dropouts" í skólum eru strákar.
2. Langt um fleiri strákar en stelpur eru greindir með ADHD (þarf að skoða betur hvað þetta er nákvæmlega).
3. Strákar koma miklu ver út hvað varðar lestrarkunnáttu í PISA rannsóknum en stelpur. Árið 2003 voru helmingi hærra hlutfall stráka með lestrarhæfi 0 - 1 af 5 mögulegum eb stelpur. Með einkunina 0 voru þrisvar sinnum fleiri strákar en stelpur.
4. Sé leikfimi undanskilin þá eru strákar yfirleitt lægri í einkunn en stelpur þegar þeir klára grunnskóla.
5. Atvinnuleysi er meira meðal ungra karla en ungra kvenna.
6. Mun hærra hlutfall karla en kvenna þarf á félagslegri aðstoð að halda.
7. Eini þjóðfélagshópurinn sem er almennt óhamingjusamur eru einhleypir og fráskildir karlar.
8. Einungis þriðji hluti af þeim sem stunda nám á framhaldsskólastigi eru karlmenn.
9. Æ fleiri börn alast upp án mikilla tengsla við föðurinn eða aðra karla. Karlar eru einungis að mjög litlu leyti ráðnir til starfa í leikskólum. Í grunnskólum er hlutfall kvenna miklu hærra en karla.

Þessi þróun er ekki einvörðungu bundin við Noreg. Sama þróun á sér stað á öðrum norðurlandanna. Í USA og Afríku verður umræðan æ háværari um að þróunin þessara mála efnum sé varasöm.

Hvenær skyldi Jafnréttisráð og kynjafræðastofnun HÍ taka þetta efni til umræðu?

Fékk viðbót á Grænlandsbúnaðinn hjá Vilborgu í dag. Fór síðan upp í Intersport að kaupa smáhluti. þetta er allt að koma.

Maður heyrir oft miður góðar sögur af iðnaðarmönnum. Það er lofað að koma og lofað að koma og loks þegar einhver kemur þá þarf að fara og redda einhverju annarsstaðar og eftir situr húseigandinn og getur sig hvergi hrært því hann þorir ekki að styggja iðnaðarmanninn sem hann var svo heppinn að ná taki á. Svo kemur reikningurinn og hann er kannski ekki alltaf í samræmi við umfang verksins.

Það fór að leka hjá mér öryggisloki á heitavatninu í fyrradag. Það var ekkert annað að gera en að skrúfa fyrir og vona það besta í baráttunni um að fá pípara. Maður frá OR kom daginn eftir og sagði okkur hvað væri að. Ég rifjaði upp að fyrir þremur árum fengum við pípara sem setti upp bretti vegna heita pottsins. Hann vann vel og rösklega, engir skreppitúrar og reikningurinn var sanngjarn. Símanúmerið var týnt og nafn fyrirtækisins gleymt. Ég fann engu að síður þriggja ára gamlan reikning frá þeim í möppu. Hringdi í gær og náði sambandi. Viðbrögðin voru mjög góð. "Við reddum þessu eins fljótt og við getum. Hringdu í fyrramálið." Ég hringdi í morgun. "Við komum fyrir hádegi." Kl. 10.30 var hringt og ég fór heim. Maðurinn mættur. Málinu reddað á skömmum tíma. Ekkert mál. Þetta er almennilegt. Fyrirtækið heitir Verklagnir ehf pípulagningarþjónusta. Mæli með þeim.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Allgerlega sammála þér eins og vana lega, þegar þú talar um jafnréttis mál:-) ADHD þýðir að ég held athyglisbrestur og ofvirkni...