fimmtudagur, september 07, 2006

Ég hef verið að glugga í Draumalandið eftir Andra Snæ. Bókin grípur mig ekki neinum heljartökum en það er ágætt að renna yfir hana á ýmsan hátt. Hún er svona spjall um eitt og annað og komið inn á margt. Hann kemur meðal annars inn á hvaða áhrif það hefði haft ef það hefði verið sett niður fullt af herstöðvum hérlendis eftir seinna stríð eins og bandaríkjamenn vildu en stjórnmálamenn íslenskir höfnuðu. Líklega er hann þarna með skírskotun til hvaða áhrif það hefði ef álverum fjölgar verulega hérlendis. Nú er það svo að það er aldrei hollt að hafa atvinnuvegi mjög einsleitna, til dæmis var það erfitt fyrir íslendinga á ýmsan hátt að byggja afkomu sína svo mikið á fiski gegnum áratugina. Þjóðarbúið var svo viðkvæmt fyrir sveiflum og áhrif markaða fyrir fisk höfðu mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf. Á hinn bóginn verður á það að líta að íslenskt samfélag í dag á fátt sameiginlegt með samfélaginu eins og það var upp úr seinna stríði. Samfélagið í dag er svo miklu miklu öflugara, þjóðin betur menntuð, meðvitaðri og efnaðri. Því verða áhrif utanaðkomandi afla allt önnur í dag en fyrir sextíu árum síðan.

Andra verður dálítið tíðrætt um hvað hugmyndir hans hafa runni honum úr greipum vegna þess að aðrir hafa líka fengið samskonar hugmyndir og hann en fylgt þeim eftir. Bókáferðumheiminn og myrkuð borg. Skemmtilegar hugmyndir en það þýðir ekki að segja ef og hefði. "Ég var vitlaus þá" sagði kallinn.

Andri Snær kemur inn á þá þróun sem vél- og tæknivæðing hefur haft í samfélaginu. Ég gat ekki annað en skilið sem svo að honum fyndist tæknivæðing í landbúnaði hafa haft í för með sér afturför sem hefði staðið yfir allt frá því fyrsti traktorinn kom (eða voru það Eylandsljáirnir). Afturförin birtist fyrst og fremst í því að fólki fækkar til sveita. Þarna er ég alfarið ósammála honum. Það vill svo til að ég þekki þá tíð að handaflið var næstum því eini aflgjafinn í búskapinn. Lítill 10 hestafla traktor létti störfin þó á ýmsan hátt. Áratugina og árhundruðin þar áður voru ekki einu sinni til litlir Farmalar Cub heldur einungis handaflið og hestar. Sveitirnar voru þá fullar af fólki sem þurfti til að geta brauðfætt sig og lifað af. Lífið snerist fyrst og fremst um að lifa af. Botnlaust strit dag út og dag inn árið um kring. Óöryggið var ætíð mikið um að það tækist að afla nægjanlegra heyja því það var sá grundvöllur sem allt snerist um. Síðan komu vélarnar blessunarlega til að létta fólki störfin og gera allt öruggara. Það hafði vitaskuld í för með sér að fólki fækkaði til sveita, það þurfti ekki eins marga og áður til að framleiða sama magn af matvælum. Vélvæðingin í sjávarútvegnum gerði það að verkum að þéttbýlismyndun hófst. Þá fyrst varð til grundvöllur að aukinni og síðar almennri velmegun í landinu. Það er ósköp auðvelt að vera í einhverri rómantík að það hafi allt verið svo gaman og gott til sveita hér áður þegar fullt var af fólki á hverjum bæ. Það er einfaldlega útópía einhverra sem hafa ekki samband við þann raunveruleika sem var í landinu áður. Ef það er sá útgangspunktur sem nútíma umræða um náttúruvernd og þjóðfélagsmál á að byggja á þá er ég ekki með í því geimi.

Ég held lestrinum áfram eftir því sem tíminn leyfir. Það er alltaf gaman að lesa texta sem getur verið umdeilanlegur.

Engin ummæli: