miðvikudagur, september 06, 2006

Undirbúningur fyrir sextímahlaupið stendur sem hæst. Stebbi hringdi í gær og á hans vígstöðvum er allt í fullum gangi. Við mælum brautina líklega um helgina. Jói er að gera húfurnar klárar en hver keppandi fær húfu félagsins UMFR36. Gísli Ásgeirs er nýkominn heimfrá Marmaris og ætlar að ganga í verðlaunamál.

Sendi út eftirfarandi tilkynningu í dag:

Sex tíma hlaup.

Sex tíma hlaup verður haldið laugardaginn 16. september n.k. Hlaupið hefst kl. 10.00 og því lýkur kl. 16.00. Verður það í fyrsta sinn sem hlaup af þessari tegund verður haldið hérlendis en þau njóta sívaxandi vinsælda í nálægum löndum. Fyrirkomulagi hlaupsins verður þannig háttað að þátttakendur hlaupa ákveðna braut í sex tíma samfleytt og sigrar sá keppandi sem hleypur lengsta vegalengd á tilskyldum tíma. Hlaupið verður á hringbrautinni við Nauthólsvík sem liggur frá veitingahúsinu meðfram flugvellinum inn að Loftleiðahótelinu og síðan til baka niður með Öskjuhlíðinni. Hlaup af þessari tegund hafa þann kost að nálægð keppenda er mjög mikil í hlaupinu og eins ljúka allir hlaupinu á sama tíma. Á drykkjarstöð sem verður við göngustíginn rétt við veitingahúsið í Nauthólsvík verður boðið upp á orkudrykk og banana en aðra næringu verða keppendur að annast um sjálfir. Tjald verður á staðnum þar sem keppendur geta geymt fatnað, vistir og annað sem þurfa þykir.
Þáttökugjald er 2.000 krónur og greiðist það við rásmark áður en hlaup er ræst um morguninn þann 16. Keppnisnúmer verða einnig afhent á staðnum.

Þátttaka tilkynnist til Gunnlaugs Júlíussonar í síma 864 - 4886 eða með tölvupósti á netfangið gunnlaugur@samband.is. Tilkynnig um þátttöku þarf að hafa borist í síðasta lagi sunnudagskvöldið 10. september.

Engin ummæli: