mánudagur, september 11, 2006

Skráningar í sex tíma hlaupið eru að koma inn. Það er kannski ekki neinn gríðarlegur fjöldi en það verður keppni um fyrsta sæti bæði í karla og kennaflokki. Fólk er aðeins að átta sig á því að það er ekki nema einu sinni sem hlaupið er í fyrsta sinn. Það er alltaf gaman að vera þátttakandi í að ryðja braut og skapa sögu. Þetta er komið til með að vera. Ég er sannfærður um það. Þegar tíminn líður færa menn sig svo enn upp á skaftið. Gísli ritari nær í verðlaunin á föstudag. Hann hefur goodwill hjá verslunini með fjöldann þar til. Það lítur ekki allt of vel út með þátttöku aðalritarans en svona er þetta. Sex nýliðar eru komnir í 100 K félagið í ár. Ef fjölgunin verður á næstu árum eins og í ár þá þarf heilan samkomusal undir félagsfundi fyrr en varir.

Sé í sjónvarpinu að það er verið að gera lögreglunni ágæt skil, sýna vinnuaðstæður hennar o.s.frv. Það er ágætt og nauðsynlegt. Ég veit ekki hvort verið er að gera yfirbót vegna hins heimskulega fréttaflutnings að austan í allt sumar en ég held að ritstjórnarstefna Rúv hvað þetta varðar þurfi endurskoðunar við. Það er ekki von að það sé borin virðing fyrir þeim sem eiga að gæta laga og réttar þegar síbyljan dynur á fólki um hvað þeir séu ómögulegir.

Þegar ég var að alast upp þá fóru tvennskonar embættismenn um héröð og gættu að hvort allt væri í lagi. Prestar húsvitjuðu og fylgdust með því hvort almennilega væri hlúð að börnum og þeim kennt að lesa. Síðan fóru ásetningsmenn um og kíktu í útihús og hlöður og skoðuðu hvort næg hey væru til og vel væri farið með skepnurnar. Langt er síðan hætt var að líta til með börnum á skipulegan hátt eins og áður var gert. Nú er ekki lengur húsvitjað heldur á að vera til kerfi sem tekur á hlutunum ef eitthvað fer úrskeiðis. Á hinn bóginn er enn farið um sveitir landsins tvisvar á vetri, hey skoðuð og tekið á skepnum. Mikið kerfi er enn við lýði í kringum ásetning búfjár. Ég var á fundi um daginn þar sem þessi mál bar á góma og spurði hve mörg mál kæmu upp árlega þar sem ástæða væri til að gera athugasemd við meðferð búfjár og hey skorti. Það eru svona ca tuttugu dæmi á ári var mér sagt af fróðum mönnum. Sá hins vegar í gær í Fréttablaðinu að það eru á annað þúsund tilfelli sem koma upp árlega þar sem ástæða er til að hafa afskipti af meðferð og ástandi barna hérlendis.

Nú á að útrýma mink á Snæfellsnesi og ef vel gengur jafnvel í Eyjafirði einnig. Ég hélt að minkurinn hefði lappir og ferðaðist um landið eins og honum hentar. Ég er ekki alveg að kaupa það þegar sérfræðingarnir ætla sér að útrýma honum af landinu. Það þarf eitthvað til svo að það gangi eftir.

Engin ummæli: