sunnudagur, september 24, 2006

Hitti vini Gullu í morgun og tók ca 15 km. Smá strengir sátu í lærunum síðan í gær, kannski fyrst og fremst vegna þess að ég var berleggjaður. Berlínarhlaupið var í dag. Þar hljóp góður hópur fólks og náðu margir góðum tíma. Ég sé að félagi Sigurjón hefur ekki alveg náð því sem hann stefndi að, enda þótt það sé frábært fyrir fimmtugan mann að hlaupa undir 3 klst. Hann var stíflaður af kvefi um síðustu helgi og það hefur líklega setið í honum. Synd því hann var til alls líklegur.

Um daginn var framinn gjörningur á Þingvöllum. Átján klæðastrangar voru veiddur upp úr Drekkingarhyl í minningu þeirra kvenna sem drekkt var það á árunum 1602 - 1748. Hver strangi táknaði eina konu sem drekkt var en alls voru þær átján sem hlutu þau bitru örlög. Ekki var minnst á að aðrir hefðu hlotið dauðadóma á Þingvöllum á þessum tíma í sambandi við gjörninginn. Sem kunnugt er skipuðu karlar helstu valdaembætti á þessum tíma. Í tengslum við þennan gjörning og ekki síður í fyrri umræðu um þessi mál hefur verið látið í það skína að konur hafi verið sérstök fórnarlömb valdníðslu og djöfulskapar yfirstéttar og kirkju á þessu árabili. Þessi söguskoðun er mjög gróf sögufölsun.

Ég fór á Þingvöll í dag í góða veðrinu að taka myndir. Meðal annars stoppaði ég við Drekkingarhyl. Á upplýsingaskilti þar eru skráð nöfn 17 kvenna af þeim 18 sem drekkt var í hylnum. Á skiltinu kemur einnig fram að samtals hafi 72 dauðadómum verið fullnægt á Þingvöllum á árunum 1602 - 1750. Átján konum var drekkt en fimmtíu og fjórir karlar voru líflátnir þar að undangengum dauðadómi. Þrjátíu voru hálshöggnir, fimmtán voru hengdir og níu voru brenndir. Ég geri ráð fyrir að kynjahlutföllin í landinu á þessum tíma hafi verið svona fiftí fiftí eins og þau eru yfirleitt en það eru þrisvar sinnum fleiri karlar en konur sem voru líflátnir á Þingvöllum meðan Alþingi sat þar. Því liggur fyrir að karlar voru miklu meiri fórnarlömd grimmdar yfirstéttarinnar en konur á þessum tíma. Það er yfirleitt talað um Drekkingarhyl sem helsta aftökustaðinn á Þingvöllum en þar eru einnig örnefnin Gálgaklettur, Höggstokkseyri, Kaghólmi (kaghýða) og Brennugjá. Þessir aftökustaðir voru notaðir miklu oftar en Drekkingarhylur. Ég get svona rétt ímyndað mér hvaða stóryrðum talskona Feministafélagsins myndi gadda út úr sér ef Læonsklúbburinn Kiddi myndi á táknrænan hátt standa fyrir minningarathöfn um þá karla sem voru líflátnir á Þingvöllum en myndi ekki minnast einu orði á þær konur sem hlutu sömu örlög.

Mér finnst óþolandi að feminiskir bókstafstrúarmenn komist upp með að halda að þjóðinni röngum upplýsingum og afflytja sagnfræðina eða í besta falli halda fram hálfsannleik en hann er eins og kunnugt er oftast nær óhrekjandi lygi. Fjölmiðlarnir eru náttúrulega svo máttlausir að þeir gleypa allt svona hrátt sem tuggið er ofan í þá.

Talandi um fjölmiðla. Þegar ég hlustaði á fjögur fréttirnar í dag gat ég ekki varist því að hugsa hvort ríkisútvarpið væri orðin áróðursstöð fyrir þá sem eru á móti Kárahnjúkavirkjun. Einhver prestur ræddi virkjunarframkvæmdirnar þar í predikun sinni í dag og var þeim andvígur. Ræðan var bæði endursögð ítarlega í fréttatímanum og birt hljóðritun úr ræðu prestsins. Hvurslags er þetta eiginlega? Ég hef ekki heyrt að það sé vitnað í ræður presta um hverja helgi þótt þeir fjalli um eitt og annað í stólræðum sínum. Er þetta fréttastofa eða er þetta áróðursmaskína? Mér væri alveg sama ef þetta væri Útvarp Saga eða einhver önnur einkarekin stöð en þegar ég er píndur til að greiða kostnaðinn við RÚV, þá verður maður að gera lágmarkskröfur um hlutleysi fréttaflutnings frá stöðinni. Það er ekki frétt enda þótt einhver prestur ræði þjóðfélagsmál í predikun sinni eða hafi skoðun á einhverjum hlutum. Það væri hins vegar frétt ef Kirkjuþing bannfærði Kárahjúkaframkvæmdina í heild sinni. Myndi fréttastofan gera þeirri predikun jafngóð skil þar sem Kárahjúkavirkjun væri lýst sem mikilvægu framfaraskrefi og jákvæðri framkvæmd eins og hún gerði í dag. Ég held ekkert um það sem ég veit og ég veit með vissu að það myndu hún aldrei gera.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

eitt sem ég hef nú verið að velta fyrir mér Gunnlaugur. Hvenær átta kynhreinir íslenskir Austfirðingar sig á þessari alsælu virkjunar og álvers?

Það var halli á búferlaflutningum á síðasta ári og líka á fyrstu 6. mánuðum þessa árs!

Nafnlaus sagði...

sorry gleymdi að undirrita þetta:

Halli Haraldar

Nafnlaus sagði...

Konurnar sem var drekkt í Drekkingarhyl voru dæmdar fyrir að eiga börn utan hjónabands. Kynjaður glæpur þar sem einungis er hægt að sanna hann á konurnar sem bera jú börnin undir belti og fæða þau. Auk þess má leiða að því líkur að kynferðisofbeldi hafi í einhverjum tilvikum verið orsök. Þær voru því dæmdar fyrir glæpi sem framdir voru á þeim.