fimmtudagur, september 21, 2006

Sharon Broadwell (kona) sigraði í 100 mílna hlaupinu á Skáni um helgina á 25 klst og 40 mín. Afþeim sex sem byrjuðu kláruðu fjögur. Þau voru fjögur á álíka tíma eftir 66 km eða kringum 8 klst en síðan dró í sundur. Sharon var 4 klst á undan þeim sem kom síðast í mark innan þrjátíu klst. Það gekk á ýmsu eins og gengur í frumran. Meðal annars voru merkingar yfir nóttina ekki nógu góðar svo þáttakendur villtust eitthvað í myrkrinu þannig að Sharon hlaup í raun nokkrum kílómetrum lengra en þá 160,2 sem hlaupið er. Hún er öflugur hlaupari og hefur tekið stefnuna á Western States á næsta ári sem fimmti norðmaður og önnur norræna konan til að taka þátt í því. Vonandi gengur henni vel.

Höskuldur ætlar að takast á við 100 m hlaup í Kansas í október. Gaman verður að fylgjast með honum þar en hann hefur sýnt það að hann er fær í flestan sjó.

Ég er ekki sérstaklega hrifinn af jippóum. Það er oft gripið til slíkra aðgerða þegar mönnum þykir liggja mikið við en yfirleitt hefur áranginn orðið enginn í besta falli.

Ég minnist fjöldafundar á Akureyri þar sem fundarmenn lyftu rauðu spjaldi og sögðust gefa eiturlyfjum á Akureyri rauða spjaldið. Vissulega komust nokkrir í viðtöl í sjónarpinu vegna þess arna en annað kom ekki út úr þessu. Síðan hefur ekki heyrst minnst á rauða spjaldið en dópið grasserar á Akureyri sem aldrei fyrr sem og annarsstaðar.

Ég verð alltaf jafn pirraður þegar ég hugsa um verkefnið "Ísland án eiturlyfja árið 2000". Einhverjum sjálfhverjum og veruleikafirrtum aðilum datt í hug að setja á stað verkefni undir þessu heiti. Við verðum að hugsa nógu stórt var viðkvæðið þegar nafn verkefnisins var gagnrýnt sem óraunsætta. Ég held að það hafi verið settar samtals um 5 milljónir króna í verkefniðaf ríki og borg . Síðan linnti ekki hringingum til fyrirtækja og sveitarfélaga til að sarga út peninga í útgáfu bæklinga sem áttu að bjarga heiminum og "höfða sérstaklega til unga fólksins". Verkefnið hafði lítil sem engin áhrif enda ekki hægt að ætlast til þess með því fjármagni sem til staðar var. Ástandið í þessum málum er ekki betra eftir en það var áður. Maður veltir stundum fyrir sér vilja fjárveitingavaldsins til að leggja eitthvað af mörkum í þessa baráttu. Ég man eftir því á þessum tíma þá kom lögreglumaður frá Akureyri austur á Raufarhöfn með fræðslufund fyrir foreldra á vegum foreldrafélagsins. Hann sagði okkur frá því að hann fengi ekki fja´rveitingu til að halda leitarhund sem er langvirkasta tæki sem lögreglan getur haft í þessum málum. Þetta kom upp í hugann þegar ég sá viðtal við sýslumanninn í Árnessýslu nýlega og hann stóð í sama vanda, hafði engan hund enda þótt hann vantaði sárlega einn slíkan.

Nú hefur forsetinn lýst yfir stríði gegn eiturlyfjum í landinu. Hvað oft ætli menn lyfti rauða spjaldinu í því stríði og fari svo heim, ánægðir með vel unnið dagsverk?

Nú skrifa ýmsir sig í gríð og erg inn á netið og lofa því að fara varlegar í umferðinni en þeir hafa gert hingað til. Fjölmiðlar flytja fréttir af fjölda innskráninga með jöfnu millibili. Þetta var sett upp í kjölfar umræðu um ofsaakstur á vegum úti. Hvað ætli svona skráningardæmi á netið nái til þeirra sem eru vandamálið á þessu sviði. Hverju ætli það skili? Engu það ég trúi. Til að ná árangri í þessum málum þarf sem bráðaaðgerð aukið eftirlit með umferð á vegum og ákveðnari sektir og ökuleyfissviptingar. Sem langtímaaðgerð þarf að gera vegakerfið eins og hjá mönnum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þessu með Fíkniefnalaust Ísland. Það var reyndar árið 2002 sem það átti að verða fíkniefnalaust, en áramótapistill Vefþjóðviljans benti einmitt á það 31. des 2001, að Ísland "verði fíkniefnalaust núna fljótlega eftir miðnættið."

Þú segir: "Einhverjum sjálfhverjum og veruleikafirrtum aðilum datt í hug að setja á stað verkefni undir þessu heiti." ... nú er ég ekki viss, en hvaða flokkur setti þetta á kosningastefnuskrá árið 1999? Var það B-listinn?