fimmtudagur, apríl 24, 2008

Er að mestu búinn að ná mér eftir magaskotið um síðustu helgi. Merkilegt hvað það tekur langan tíma að ná upp fullri orku eftir að hafa borðað lítið sem ekkert í rúman sólarhring. Fer út á morgnana og í hádeginu. Það verður að nægja þessa dagana.

Það gekk dálítið á í Norðlingaholtinu í gær. Það var kominn tími til að lögregluyfirvöld tækju í taumana og léttu þennan bandittahóp ekki valsa óáreitta um með uppákomur af því tagi sem maður hefur séð að undanförnu. Einkennilegast fannst mér þó að lögreglan skyldi hleypa þeim út að Bessastöðum þegar forsetinn var með gest í opinberri heimsókn. Nú er ég ekki sérstakur aðdáandi Abbasar Palestínuforseta en sama er. Það virðist ekki vera ljóst lengur hverju trukkabílstjórarnir eru að mótmæla. Er þetta klúbbur sem kjaftar hver upp í annan að allt sem veldur þeim erfiðleikum sé ríkisstjórninni að kenna eins og skein út úr orðum forsprakkans í Kastljósinu í gærkvöldi. Það var varla hægt að ná heilli brú í það sem hann var að segja. Svo fullyrða þessir menn að þjóðin standi á bak við þá. Alla vega ekki ég.

Það var fínt að sjónvarpið sýndi frá Olísstöðinni í gær. Þá þurfti engan til frásagnar um hvað gerðist, Lögreglan var búin að beita fortölum og öllum tiltækum ráðum um að rýma svæðið en allt kom fyrir ekki. Þá var ekki um neitt annað að ræða en að ná kontrol yfir ástandinui. Sjá menn standa þarna æpandi og öskrandi fúkyrðum og svívirðingum yfir lögregluna og hótandi þeim með spraybrúsum og WD 40 brúsum. Ég hef trú á að WD 40 geti valdið nokkuð meiri skaða en piparúði ef menn fá hann í augun.

Eins og vanalega ef lögreglan gerir eitthvað þá byrjar umræðan um fastista, lögregluríki og svo framvegis. Ég held að fólk ætti að kynna sér hvað fasismi er og hvað lögregluríki er áður en menn fara að æpa svona upp í vindinn. Eitt af því sem var athyglisvert í umfjöllun Moggans um síðustu helgi um innflytjendur var hve þeim kom á óvart hvað lítil virðing er borin fyrir lögreglunni hérlendis. Það er náttúrulega vegna góðmennsku lögreglunnar og umburðarlyndis hennar gagnvart allskonar vitleysingum. Þegar ég bjó í Rússlandi fyrir rúmum 10 árum síðan man ég einu sinni eftir því að það hafði safnast saman hópur fólks á frídegi (Victoryday eða einhvers álíka) og það var einhver ólga í hópnum. Allavega kom lögreglan á vettvang. Hópurnn tvístraðist á auga lifandi bragði því það hafi greinilega enginn áhuga á að lenda í návígi við lögregluna. Það datt engum í hug að standa æpandi fyrir framan hana um hvað hún væri miklir fokking hálfvitar og þroskaheftir aumingjar.

Það er athyglisvert að sjá skeytasendingarnar sem Björn dómsmálaráðherra fær. Það er náttúrulega ýmsir sem eru ekki í lagi. Hann birtir svona Greatest hits á síðu sinni www.bjorn.is.

Strákafíflin sem mættu í gær á Olísstöðina og höfðu dubbað sig upp í austurþýska herforingjafrakka og límt á þá hakakrossa ættu að skammast sín. Mér er sama hvort um eða að ræða nasisma eða kommúnisma, hvorutveggja er runnið af þeim meiði að við ættum að þakka pent fyrir það hérlendis að hafa ekki þurft að lifa oki þess eins og margir nágrannar okkar hafa þurft að þola um lengri eða skemmri tíma.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

word ! sammála þér

Nafnlaus sagði...

Það er gott að vita af fólki eins og þér, sem fyllist gleði og stolti þegar það sér barið á samborgurum sínum með kylfum og skildum fyrir það eitt að hrópa fúkyrði að lögreglu og yfirvöldum. Það er gott að vera í fílabeinsturni og horfa niður á misvitrann skrílinn...er það ekki? Og ég veit hvað Fasismi er og fólk almennt í hjarta sínu veit það líka þó svo ekki geti allir komið orðum að því. En svona bara fyrir þig, þá er "Fasimi heiti á alræðistefnu í stjórnmálum sem byggir á andstöðu við lýðræði og einstaklingsfrelsi"

"Sársuki er tímabundinn,
upplifunin eilíf" Spurning hvort að þetta eigi við piparúðann sem þú ert svo hrifinn af.

Kveðja
Bergur Hallgrímsson

Nafnlaus sagði...

Ég er svo innilega sammála þér Gunnlaugur. Mér finnst hegðun mótmælendanna til háborinnar skammar og skil ekki hvernig fólki datt þetta í hug.

Mér finnst margir vera mjög hrokafullir í garð lögreglunnar og laga í landinu þegar svona aðstæður koma upp.
Hverjir eru það svo sem koma fyrstir á vettvang þegar eitthvað amar að hjá þessum blessuðu einstaklingum sem kalla lögregluna fasista og hálfvita.... og þá er hægt að nota þá og njóta aðstoðar þeirra... og þá er hægt að fara að lögum.....
Þetta er fáránleg hentisemi og bjánaháttur....

......Svo segir Sturla að hann þekki ekki árásarmanninn.... hann veit þó allavega að hann er nýkominn úr aðgerð á fæti :/ .....

Hulda

Nafnlaus sagði...

Hulda, þú ert greindarskert, álíka og hann Gunnlaugur vinur þinn....Þið ættuð bæði að skammast ykkar fyrir að bera ekki meiri umhyggju fyrir náunga ykkar. En þar sem þið eruð sennilega hálaunafólk og með fínar gráður þá er ykkur alveg sama, svo lengi sem þið hafið það gott.

Kv
Bergur

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að jákvæðum og uppbyggilegum svörum líkt og hér hafa komið fram en slík ummæli dæma sig sjálf. Slík ummæli eru til marks um þann sem lætur slíkt frá sér og biturð viðkomandi einstaklings en ekki menntunarstig.

Þó að ég geti tekið undir sjónarmið vörubílstjóra og skilji þeirra afstöðu þá get ég ekki annað en fordæmt aðgerðir þeirra, sér í lagi á seinni stigum. Finnst sjálfsagt að lögreglan beiti afli sínu ef hún telur það nauðsynlegt við þær aðstæður sem þarna myndast. Þó fannst mér á köflum að hún hafi gengið fulllangt en þar sem ég var ekki á staðnum get ég ekki dæmt um slíkt.
Mitt mat er þó að hnefahöggið við Kirkjusand hafi ekki verið með vilja vörubílstjóra almennt og þess þá heldur steinkastið við Rauðavatn. Vil ekki ætla heilum þjóðfélagshópum að styðja slíka verknaði.
Hvað útskriftarnema úr Hafnarfirði varðar fannst mér þeir taka sig vel út þarna og í raun sýna hversu fáránlegur og tilgangslaus atburður þetta var og sýna í raun að almenningur er hættur að styðja aðgerðir þessara manna sem eru, að ég hygg, ekki að koma fram fyrir hönd atvinnubílstjóra almennt.

Með sumarkveðju,
Silli

Nafnlaus sagði...

Gunnlaugur (og aðrir), það má ekki misskilja mig sem svo að ég sé að mæla nokkru því bót að réttlætanlegt sé að berja mann og annann, hvorki vörufluttningabílstjóra né lögreglu, einn á einn eða fimm á einn, aðalatriðið er þetta: Þegar ráðamenn þessarar þjóðar eru farnir að beyta óeyrðalögreglu og sérsveitarmönnum gegn óbreyttum borgurum, (konum og börnum), þá er augljóslega eitthvað að,(minnir svolítið á þriðja ríkið) ekki rétt, og við verðum að fara að hugsa málin betur. Allavega held ég að það sé að fara að sjóða upp úr nú hjá þjóðinni.

2borgari