sunnudagur, apríl 13, 2008

Fór út upp úr kl. 8.00 í morgun og tók 30 km út á nes. Snjór í upphafi og leiðinda veður en batnaði þegar á leið. Margir á ferðinni.

London Maraþon var í dag. Þar féllu góðir tímar. Birgir kláraði á 2.38 sem er best tími íslendings í fleiri ár. Jóhann kláraði á um 2.47 sem er fínn tími. Sibba og Huld hlupu á 3.12 og Huld bætti sinn besta árangur. Mér fannst tíminn sem þær náðu í Boston í fyrra vera betri þar sem brautin þar er miklu erfiðari en brautin í London. Veðrið var einnig fínt í London. Ríkissjónvarpið tók eitt skref í þróunarbrautinni þegar það skýrði frá tímum íslendinganna í hlaupinu en lét ekki nægja að skýra einungis frá hverjir voru fyrstir yfir heildinga eins og hefur verið plagsiður hér. Sibba varð nr. 2 í flokki kvenna yfir 50 ár sem er frábær árangur en Birgir var meðal fremstu manna yfir heildina.

Ég hlustaði á Silfur Egils í dag. Datt í hug að þar yrði eitthvað bitastætt að finna. Það brást ekki. Viðtal Egils við Þorvald Gylfason var ógnvekjandi. Þorvaldur lýsti því vel hvað gæti gerst ef stjórnvöld þyrfti að grípa inn í atburðarásina og bjarga bönkunum, flaggskipum íslensku útrásarinnar. Ef málin þróast þannig að ríkisstjórnin mun lenda í þeirri stöðu að þurfa að skattleggja almenning til að draga flaggskip útrásarinnar, bankana, á þurrt land þá er það náttúrulega alveg svakalegur hlutur. Maður rétt vonar að til þess þurfi ekki að koma en það er náttúrulega dæmi um hvað staðan er alvarleg að það skuli yfir höfuð vera farið að tala um að þessi möguleiki geti átt sér stað. Í upphafi tíunda áratugarins var mikil bankakrísa í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Það endaði með því að bankarnir voru meir og minna þjóðnýttir. Munurinn er bara sá að ríkissjóðir þessara landa eru svo miklu stærri en efnahagur bankanna en hérlendis. Íslenska ríkis er bara smárekstur miðað við efnahag bankanna. Ef að það þarf að þjóðnýta bankana til að leiðrétta mistök fyrri ára hvað á þá að gera við þann auð sem ákveðnir einstaklingar hafa skapað sér persónulega þann tíma sem bankarnir hafa verið í prívat eigu. Þorvaldur Gylfason er að fara að birta grein sem heitir "Ísland varð Rússland". það segir eiginlega allt sem segja þarf um hvernig hann metur ástandið.

Þegar ég er að hlaupa á sunnudagsmorgnum þá hlusta ég yfirleitt á Útvarp Sögu. Mér líkar æ betur að hlusta á spall um daginn og veginn heldur en að heyra eitthvað forðusnakk. Spall þeirra félaganna Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar milli kl. 10.00 og 12.00 á sunnudögum er oft á tíðum stórskemmtilegt. Þeir groddast saman, eru dálítið óskammfeilnir og hlægja svo eins og púkar ef þeir verða sammála um eitthvað skammarstrikið. Þeir hafa ekki mikið álti á yfirstjórn Seðlabankans. Það kemur í ljós hvort þeir hafa rétt fyrir sér. Mat Guðmundar er að spá Seðlabankans muni rætast ef ekkert verður að gert. Krónan sé ónút og stefnan vitlaus. Almenningur borgar brúsann. Svo eru ráðamenn bara í ferðalögum.

Mæli með því að þeir sem áhuga hafa á þessum málum hlusti á Silfur Egils þegar það verður endurtekið í kvöld eða á netinu (www.ruv.is).

Engin ummæli: