laugardagur, apríl 12, 2008

Fór út kl. 7.00 í morgun og tók hefðbundna slóð, Poweratehringinn og síðan út fyrir golfvöllinn á Nesinu og lykkju í Nauthólsvíkinni. Hitti Bigga Sveins við brúna og við urðum samferða út á nes og til baka. 40 kúlur lágu þegar heim var komið. Það var heldur kalt í morgun og mótvindur nokkur. Maður var orðinn eins og saltstólpi að utan þegar heim var komi þannig að gallinn fór allur í þvott. Fjórða helgin í röð þegar tekin eru maraþonvegalengd eða annað álíka. Þrjátíu km bíða á morgun.

Áður en lagt er í svona túr þá tek ég góðan Herbalife hristing. Það fyrsta sem ég geri þegar heim er komið er að taka annan eins slurk sem samanstendur af Formúlu 1 og Formúlu 3. Recoveríið gengur miklu betur eftir að ég fór að nota það í tengslum við langar æfingar og það má segja að eftir ca tvo tíma þá veit maður ekki af því að álagið fyrr um morguninn hafi verið eitthvað annað en venjulegur druslugangur. Ég held að það sé á hreinu að með markvissu mataræði og áherslu á skipulega næringu þá geti maður staðið undir miklu meira æfingaálagi en ella. Hér áður var maður eins og spítukall langt fram á dag eftir svona langar æfingar og nauðsynlegt var að taka hvíldarviku einu sinni í mánuði.

Það hefur margt verið að gerast í vikunni. Ég held að vörubílstjórarnir verði að fara að gá að sér. Það er nefnilega ekki víst að þeir verði ástmögur þjóðarinnar miklu lengur eftir að maður sá í fréttum í gær hvernig þeir haga sér í umferðinni. Svona umferðardólgar eiga ekkert gott skilið. Ég veit ekki hvað maður myndi gera ef maður lenti í umferðarteppu af þeirra völdum og þeir myndu reyna að stöðva mann með ólöglegum aðgerðum. Lenti í frekar óskemmtilegri reynslu í gærkvöldi í viðskiptum við trukkabílstjóra. Foreldrar og börn úr Ármanni og Fjölni voru að leggja teppaflísar á gólfið í frjálsíþróttahöllina í Laugardalnum eins og oft áður. Allt í einu fór maður að finna megnan olíuþef inni í höllinni. Þegar betur var að gáð var flutningatrukkur í dyrunum og var að losa ýmsar vörur. Ekillinn hafði ekki haft fyrir því að slökkva á bílnum þannig að hann dældi útblæstrinum beint inn í salinn svo pestin var orðin megn. Þegar var farið að tala við kallinn og hann beðinn að drepa á bílnum þá reif hann bara kjaft. Allir venjulegir menn hefðu stokkið til hið snarasta og slökkt á bílnum þegar þeir áttuðu sig á aðstæðum en ekki þessi bjálfi. Eftir að það hafði verið talað við kallinn á ómengaðri íslensku þá gaf hann sig og drap á trukknum, því ella hefðum við orðið að leggja niður vinnu og forða okkur út á meðan hann tæmdi bílinn. Ég hélt að olían væri orðin svo dýr að það væri ekki verið að láta trukkana ganga í óþarfa.

Utanríkisráðherra skaust til USA og ræddi við starfssystur sína - í hálftíma -!!. Það var farið um langan veg fyrir lítið. Ég veit alveg hvað hálftími er langur og hvað hægt er að ræða á þeim tíma, það er ekki sérstaklega mikið, hvað þá þegar samtalið byrjar á myndatöku. bandaríkjamenn byrjuðu samræðurnar með dæmigerðu útspili eins og gert er við við þann sem maður bera enga virðingu fyrir en vill kanski hafa heldur góðan. "Ísland er besti vinur Bandaríkjanna". Það er kannski rétt að spyrja sig í upphafi að því hvort sá status sé yfir höfuð sérstakur heiður. Í öðru lagi væri þá hægt að grafast fyrir um það hví "Best friend" hafi ekki sama status í vegabréfaáritunum til USA eins og önnur 70 - 80 ríki sem eru að sögn Condólísu Rice ekki eins góðir vinir Bandaríkjanna eins og litla Ísland.
Undir rest virðist umræðuefnið hafa verið orðið þrotið því þá er farið að sögn blaðanna að tala um hvort kvenkyns utanríkisráðherrar eigi að halda betur saman í hinum stóra vonda karlaheimi. Jæja men. Er þetta nú orðið mál málanna? Á sama tíma og þessi uppbyggilega umræða fór fram í USA þá birtir Seðlabankinn mjög svarta spá.Sannkallaða Harmageddon. Miðað við að allt væri á eðlilegum nótum þá væri ríkisstjórnin vera kölluð til neyðarfundar þar sem setið væri dag og nótt með færustu sérfræðingum sem tiltækir væri þannig að útkoman væri aðgerðaáætlun stjórnvalda til að bregðast við þeirri framtíðarsýn sem Seðlabankinn setur fram til að lágmarka það áfall sem samfélagið verður annars fyrir. Það er ekki gert. Stjórnvöld eru bara róleg og eru hér og þar í heiminum að fjalla um önnur mikilvægari mál s.s. hvernig kvenkynsutanríkisráðherrar geti styrkt stöðu sína í karlaheiminum. Taka menn kannski ekkert mark á Seðlabankanum? Það er ekki síður alvarlegt? Ég veit bara ekki hvað maður á að halda. Mín trú er að það kólni illilega með haustinu að óbreyttu. Kem kannski nánar inn á það síðar.

Engin ummæli: