miðvikudagur, apríl 30, 2008
Ég hitti Soffíu Gísladóttur frá Húsavík í gær. Soffía er dóttir læknishjónanna Gísla og Katrínar sem bjuggu lengsst af á Húsavík en fluttu síðan austur í Kelduhverfi fyrir ca 10 árum. Katrín var kosin oddviti Keldunesshrepps eftir að þau fluttu austur áður en hreppurinn sameinaðist öðrum sveitarfélögum í Norðurþing. Katrín var einn af frumkvöðlunum fyrir Jökulsárhlaupinu sem er að sögn þeirra sem hafa hlaupið það eitt af bestu og skemmtilegustu hlaupum landsins. Jökulsárgljúfrið er náttúrulega eitt að mestu náttúruperlum sem finnast hérlendis. Katrín hringdi í mig haustið 2005 og var að velta fyrir sér enn stærri landvinningum á vettvangi hlaupanna. Nú var það Hamfarahlaup sem er frá upptökum Jökulsár á fjöllum norður í Ásbyrgi. Við ræddum ýmislegt sem skiptir máli í þessu sambandi því það er ekki einfalt að standa fyrir slíkum viðburði. Þetta viðfangsefni hefur síðan gerjast á góðum stað en er ekki gleymt. Katrín afhenti dóttur sinni síðan fánann í þessum efnum fyrir skömmu þannig að nú er Soffía á fullu að brjóta heilann með góðu fólki um að hrinda þessu mikla verkefni í framkvæmd. Hún segist vera með nokkra öfluga bakhjarla en í mörg horn er að líta við að framkvæmda svona verkefni. Hamfarahlaupið yrði 206 kílómetra langt. Það væri hlaupið fyrir austan Jökulsána norður að brúnni við Grímsstaði en þá væri farið vestur yfir og síðan sem leið liggur til Ásbyrgis. Hugmyndin er að skipta hlaupinu niður á þrjá daga, 70 km leggur þrjá daga í röð. Gist væri í tjöldum á leiðinni. Enda þótt ýmsir gætu farið leiðina alla í einum rykk þá er framkvæmdin miklu einfaldari með þessu lagi. Ég held að á þeim tíma síðan við Katrín ræddum saman um þessa hugmynd þá hafi margt breyst í þessum efnum. Þeim hefur fjölgað hérlendis sem eru tilbúnir í svona verkefni. Ég er ekki í vafa um að það er hægt að halda svona hlaup þegar á næsta ári. Fjöldinn verður eitthvað takmarkaður til að byrja með en svo mun hann vaxa. Það sýnir t.d. þátttakan í 100 km hlaupinu í júní. Í fyrsta 100 m hlaupinu sem hafdið var á Norðurlöndum í hitteðfyrra voru 5 þátttakendur. Hlaup af þessari kategoríu er hægt að markaðssetja út fyrir landssteinana. Ég held að það sé rétt fyrir áhugasama að fara að byggja sig upp fyrir svona viðburð. Það hittist skemmtilega á að á sama tíma og svona hugmyndir eru að gerjast þá sér maður forsíðufrétt í Mogganum að Laugavegurinn sé fullur. Ég rétt slapp inn fyrir því ég sá á blogginu hennar Öggu um að hann væri að fyllast. Það sem talið var einungis á færi sérstakra ofurmenna fyrir um 10 árum er nú orðin almenningsíþrótt. Það er ekki spurning um að Hamfarahlaupið verður hlaupið fyrr en síðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sounds like a plan!
Skrifa ummæli