Fór út í Nauthól í kvöld og tók Öskjuhlíðarhringinn. Fínt hlaup með miklum norðurljósum.
Landsþing var haldið hjá sveitarfélögunum í dag. Það er alltaf gaman að hitta fólk héðan og þaðan af landinu og fá fréttir. Gaman að heyra að það er ýmislegt að gerast jákvætt þótt ekki fari alltaf mikið fyrir því í fréttum. Súðvíkingar hafa verið að byggja upp hjá sér sjóstangaveiði fyrir erlenda viðskiptavini á undanförnum árum. Flestir koma þeir frá Þýskalandi. Í ár lítur út fyrir að það komi um 3.000 manns í þessum erindum til þessa litla þorps á Vestfjörðum. Þeir dreifast á sex mánuð ársins se, lengir ferðamannatímann verulega. Í tenglsum við þetta verkefni hefur síðan þróast margháttuð aukageta svo sem skoðunarferðir og verslun og viðskipti af ýmsum toga. Þetta er stórmál fyrir Vestfirðina og getur haft mikil áhrif á ýmsa vegu. Í mínu gamla heimaþorpi, Raufarhöfn, er farið að örla á því að notkunarmöguleikar finnist fyrir verksmiðjuhús SR mjöl sem hafa staðið auð og tóm um nokkurra ára skeið. Sú skemmtilega hugmynd um heimskautagerðið hefur vafið upp á sig og er farin að skjóta vaxtarsprotum. Fleira er á döfinni sem getur byggt upp nýja atvinnu en hún er eins og flestir vita, forsenda fyrir því að fólk geti búið á þessum stöðum því það er margt fólk sem vill búa þarna bara að það hafi eitthvað að gera.
Ég er ekki sannfærður um ágæti mótmæla vörubílstjóranna. Olíuverðið er einungis lítill hluti af óánægju þeirra. Reglur Evrópusambandsins um hvíldartíma er annar hluti. Það má vel vera að stjórnvöld hafi sofið á verðinum um að sækja um undanþágu þegar þessar reglur voru í mótun. Það er rétt af þeim að knýja á um að þeim verði breytt en ég get ekki stutt það að sektir vegna brota á þessum reglum verði felldar niður. Enda þótt manni finnist einhverjar reglur vera vitlausar þá verða menn að fara eftir þeim þar til þeim verður breytt. Síðan ber á það að líta að þungir flutnignabílar slíta vegunum alveg svakalega. Ætli einn fulllestaður þungur flutningabíll hafi ekki áþekk áhrif á slit vega eins og 20.000 fólksbílar. Það er nokkuð á hreinu að flutningabílarnir greiða langt í frá þann kostnað við vegakerfið sem hlýst af þeirri gríðarlegu þungaflutningaumferð sem er á vegum landsins. Ef olían hækkar og flutingskostnaður eykst þá fer að verða hagkvæmt að taka upp strandsiglingar á nýjan leik. Varan er þá lengur að berast út á land en við minni kostnað. Veislan er því miður búin.
Ég heyri víða að menn eru ekki trúaðir á að kreppan standi einungis yfir í þrjár vikur. Það verður dálítið innpútt í samfélagið í sumar vegna ferðamanna en í haust mun kólna fyrir alvöru. Bankarnir eru hættir að geta lánað. Þeir geta ekki einu sinni lánað stöndugum og góðum fyrirtækjum því þeir fá ekki lánsfé á meðan skuldatryggingarálagið er nálægt 1000 punktum. Fólk getur ekki forðað íslenskum krónum yfir í gjaldeyri sem neinu nemur því hann er ekki til í nema í takmörkuðu umfangi. Húsnæðismarkaður er að stöðvast og sérstaklega hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð því þeir bíða allir eftir því að stimpilgjald falli niður. Ég skil ekki enn þá hugsun sem býr að baki þessari vitlausu ákvörðun. Hún stenst örugglega ekki jafnræðisreglu. Auðvitað á að fella niður stimpilgjaldið. Sveitarfélögin munu finna fyrir þessu þegar hægir á uppbyggingu í nýjum hverfum. Fyrirtækin sem hafa verið að byggja íbúðir lenda í vandræðum þegar kauopendur vantar og lánsfé er af skornum skammti. Það er því afar mikilvægt að stjórnvöld leiti allra leiða sem færar eru til að tryggja stöðu bankanna þannig að starfsemi þeirra geti farið að rúlla eðlilega. Ef það gerist ekki á næstu vikum er samfélagið í vondum málum.
laugardagur, apríl 05, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli