Aðalfundur UMFR36 var haldinn í gærkvöldi. Það var vel mætt og hvert sæti skipað afreksmönnum. Litla hugmyndin sem kviknaði í sturtunni í Laugardalslauginni á sínum tíma er orðin að einu öflugasta ultrafélagi á landinu. Félagsskapurinn er það sem mestu máli skiptir því það styður hver annan, menn læra hver af öðrum og reynsla eins hvetur annan til frekari afreka. Þannig á þetta að vera. Í fyrra hlupu félagsmenn í UMFR36 34 maraþon og tóku þátt í 34 ultrakeppnum. Með ultrakeppni reiknast öll keppnishlaup sem eru maraþon og lengri og einnig fjölþrautir eins og Ironman og ATC keppnin á Grænlandi svo dæmi séu nefnd. Síðan runnu félagsmenn fjölmörg skemmri skeið s.s. 10 km, hálfmaraþon og 3ja tíma hlaup. Formleg afrekaskrá félagsins ár hvert miðast hins vegar við maraþonkeppni eða annað og meira. Þrátt fyrir þessa miklu virkni félaganna þá hefur IBR ekki séð sér fært að veita félaginu inngöngu og lítur þar af leiðandi ekki á maraþonhlaup eða ultramaraþon sem íþrótt. Það er ekki hægt að líta á það öðrum augum. Á það ber að líta að fæstir ef nokkur úr öðrum íþróttafélögum sem eru skráð í ÍBR myndu einu sinni láta sér detta í hug að skrá sig í keppni í ýmsum þeirra þeirra greina sem félagsmenn í UMFR36 takast á við með sóma, hvað þá að ljúka keppni.
Fundurinn tók ákvörðun um að heiðra minningu Jóns H. Sigurðssonar frá Úthlíð með því að skíra sex tíma hlaupið eftir honum og heitir það héðan í frá Jónshlaup. Jón var mikill afreksmaður í hlaupum sem ungur maður og stóð gjarna á efsta palli að hlaupi loknu. Þegar hann var 32 ára gamall slasaðist hann illa þegar heybaggastæða hrundi á hann og hryggbraut hann. Hann þurfti þá að skapa sér nýja tilveru, hóf skólagöngu, lauk háskólagráðu og starfaði sem kennari til æfiloka. Hann var þannig bundinn hjólastólnum seinni 32 ár æfinnar. Þrátt fyrir slysið og fötlunina þá var hann t.d. árum saman virkur þátttakandi í Reykjavíkurmaraþoninu. Þaðan muna flestir félagsmenn í UMFR36 eftir Jóni. Hann fór oft tíu kílómetra á hjólastólnum og alla vega þrisvar fór hann hálft maraþon. Jón er gott dæmi um mann sem gafst aldrei upp heldur efldist við hverja raun. Það er því vel við hæfi að UMFR36 heiðri minningu hans á þennan hátt.
Ritari félagsins lýsti kjöri félagsmanna á hlaupara ársins. Hann er valinn úr röðum félagsmanna með kosningu á tölvupósti eða á kjörfundi áður en aðalfundur er settur. Undirritaður varð fyrir valinu í þetta skipti og er það mikill heiður því eins og áður segir er mannvalið mikið innan félagsins.
Neil Kapoor, hinn mikli afreksmaður frá Bretlandi, lýsti hlaupaferli sínum og framtíðarplönum. Hann fór sérstaklega yfir þátttöku sína í Badwater og hvernig hann hagar undirbúningi sínum undir hinn tífalda Ironman sem hann ætlar að takast á við í haust. Þar fyrir utan eru nokkur skemmri hlaup á dagskránni s.s. eitt upp á 100 mílur. Maraþon tekur varla að minnast á. Saga Neils er mjög merkileg en hann skipti um lífsstíl fyrir um 8 árum. Fram að þeim tíma reykti hann og drakk og var allt of þungur. Hann hélt að hann myndi drepast þegar hann hljóp í fyrsta sinn kringum blokkina sem hann bjó í. Nú er hann með mestu afreksmönnum heims í ultrahlaupum. Maður sem hefur bæði klárað Badwater og Spartathlon er enginn venjulegur maður. Hann ætlaði að fara í Western States í sumar en komst ekki inn. Hann var spurður spjörunum úr enda ekki á hverjum degi sem áhugamenn um afrekshlaup komast í kallfæri við annan eins náunga. Neil hefur sett ný viðmið við æfingar hérlendis í vetur sem er gott því allt er relativt í þessum efnum.
Að lokum horfðum við á DVD disk frá Spartathlon sl. haust. Okkur Neil brá þar báðum fyrir og var gaman að rifja upp stemmingar frá hlaupinu. Það fór fiðringur um marga við að horfa á myndina og ég er viss um að ýmsir hafa sett nýjan kross í framtíðarplön sín þegar heim var komið. Þangað skal ég. Kim Rasmussen, hinn mikli danski hlaupari, sagði það vera stærstu stund lífs sín í sambandi við hlaupin að snerta styttu Leonidasar á torginu í Spörtu við hlaupalok. Þarf að sannreyna hvort það sé rétt.
Þetta var fínn fundur. Reyndar minnti Jói á í fundarlok að stjórnarkjör hefði ekki verið í dagskránni. Það verður bara að muna eftir því næst, árin líða svo fljótt nú á tímum að það skiptir litlu máli þótt stjórnarkjör detti út í eitt og eitt skipti!!
Fór á aðalfund Seðlabanka Íslands í dag. Það var heldur dempaðri stemming þar en á fundi ungmennafélagsins í gær. Salurinn var troðfullur. Heyrði á leiðinni út að það væri ills viti þegar aðalfundur Seðlabankans væri vel sóttur. Best væri að hann væri fámennur og sem fæstir sæju ástæðu til að sækja hann. Þetta er alveg öfugt á við ungmennafélagsfundi. Davíð boðaði kuldatíð framundan.
Eftir fundinn fór ég niður í Ráðhús en þar var opnuð ljósmyndasýning hjá Fókusklúbbnum kl. 18.00. Það slæddust tvær myndir frá mér þar með. Ég var ekki alveg ánægður með þær en það er gaman að vera með í svona uppsetningu og maður lærir alltaf eitthvað á því. Þemað er "Fyrir og eftir". Opnunin var vel sótt og er ljóst að það er margt fólk sem hefur gaman af þvi að virða svona myndir fyrir sér. Hinum megin í salnum var verið að setja upp málverkasýningu. Ég gekk þar yfir til að skoða verkin og heilsaði Friðriki Pálssyni, sem var eini maðurinn sem ég þekkti þar. Hann upplýsti mig um að myndirnar væru verk Ólafar heitinnar Pétursdóttur dómstjóra, eiginkonu hans. Hún slasaðist illa við byltu fyrir tveimur árum og lést nýlega. Hún málaði mikið fyrir slysið og eftir það þá málaði hún með munninum þegar handanna naut ekki lengur við. Hélt penslinum í munninum og málaði. Þetta er svo ótrúlegt að það er fáu til við að jafna. Sumum hlutum er ekki hægt að lýsa. Það er einfaldast fyrir alla sem áhuga hafa á að virða verkin fyrir sér að fara niður í Ráðhús og sjá þetta með eigin augum. Sýningin stendur yfir helgina.
Marsmaraþonið er á morgun. Verður vafalaust skemmtilegt. Það spáir vel.
föstudagur, mars 28, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli