mánudagur, mars 17, 2008

Tveir alþingismenn skrifuðu í Fréttablaðið á helginni um þær breytingar sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu með miklum flutningi erlends fólks hingað til lands á liðnum árum. Mér fannst hvorugur þeirra skrifa um kjarna málsins. Það er svo auðvelt að fara út í einhverja vitleysu sem er svo óralangt frá kjarna málsins eins og að fara að tyggja það upp að maður þekki þrjá eða fjóra einstaklinga sem séu af erlendu bergi brotnir og það sé allt ágætis fólk. Vitaskuld hefur erlent fólk flust hingað til lands í nokkrum hópum gegnum árin og margir sest hér að og orðið fyrirmyndar þjóðfélagsþegnar. Það er svo sjálfsagt að það þarf ekki að taka það fram. Það má telja upp þýsku konurnar sem komu hingað eftir seinna stríð, ungverjana sem fluttu hingað eftir uppreisnina í Ungverjalandi 1956, færeyingana sem stunduðu sjómennsku hér á árunum milli sextíu og sjötíu, stelpurnar frá Ástralíu og Nýja Sjálandi sem unnu fiskvinnu hér á árunum í kringum 1980, flóttamennina frá Víetnam og Balkanlöndunum og síðan Pólverjana sem hafa unnið í fiskvinnslu víða um land á undanförnum áratug eða svo. Þetta er bara allt annar hlutur en það sem hefur gerst á liðnum tveimur til þremur árum en á þeim tíma hefur hlutdeild fólks af erlendu bergi brotinn vaxið úr ca 2% upp í yfir 7% af íbúafjöldanum. Á örskömmum tíma hefur hlutdeild fólks af erlendu bergi brotinn þróast upp í að að vera með því hæsta í Evrópu. Það er eðlilegt að það vakni nokkrar spurningar í þessu sambandi eins og t.d. hvort þetta sé æskileg þróun, hefði verið hægt að stýra henni öðruvísi og gera hana einfaldari og léttari fyrir alla aðila.

Umræða um þessi mál er erfið og sérstaklega vegna þess að sjálfskipaður hópur þeirra sem telja sig vita allt sem varðar þessi mál betur en aðrir er tilbúinn að hrópa rasistar, rasistar ef einhver vogar sér að efast um að þetta sé æskilegasta þróunin. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess en að mínu viti er lágmarkskrafa að menn fái leyfi til að spyrja spurninga sem varða þessar breytingar og að þeim sé svarað æsingalaust. Nú er hlutfall erlends fólks um 7% af íbúum landsins. Maður getur ekki annað sen spurt sig hvort þetta hlutfall sé hámarkið eða mun það hækka í 17%, 27% 57% eða 107% á næstu árum. Hver er framtíðarsýn stjórnvalda? Er hægt að stjórna þessum málum og vilja stjórnvöld nota þau stjórntæki sem eru til, ef þau eru þá til? Hvað vilja menn að þessar breytingar gerist á löngum tíma.

Það þykir kannski absúrd og dæmi um öfga að fara að ýja að því að fólk af íslensku bergi brotið getir lent í minnihluta hérlendis en ég vil bara minna á að núverandi háskólarektor á Bifröst hefur lýst þeirri skoðun sinni í kennslubók að markmið stjórnvalda ætti að vera að íbúar hér yrðu um 3 milljónir. Þetta er engin útópía hjá einhverjum vitleysing heldur skoðun áhrifamikils einstaklings í samfélaginu. Fleiri eru á sömu skoðun það ég veit. Maður spyr sig hvaða áhrif þetta hefði á samfélagið? Hvað á þetta fólk að gera? Hvaða þjóðtunga yrði töluð? Hvað ef hingað flyttust 2.5 milljónir Kínverja svo dæmi sé tekið? Nú hef ég ekkert á móti Kínverjum í hóflegu magni sem einstaklingum en ég er ekki viss um að ég yrði hrifinn af því ef þeir yrðu hér í yfirgnæfandi meirihluta. Það er kannski nauðsynlegt að hugsa málið út frá svona dæmum til að átta sig á því að stjórnvöld geta ekki komið sér undan því að svara grundvallarspurningum í þessu sambandi. Á hvaða leið erum við og hvert viljum við fara?

Ef svör eru ekki til staðar við þessum spurningum þá verður þetta eins og í sögunni um Lísu í Undralandi þegar hún hitti köttinn við gatnamótin. Hvaða leið á ég að velja spurði Lísa köttinn. Það fer eftir því hvert þú ert að fara sagði kötturinn. Það hef ég ekki hugmynd um sagði Lísa. Þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur sagði kötturinn. Það þýðir ekkert að slá umræðuna út af borðinu með því að segja: Ég þekki þrjá eða fjóra einstaklinga sem hafa flust hingað erlendis frá og það er allt ágætis fólk. Það er hreinn barnaskapur og mjög óábyrgt að tala á þennan hátt og halda að þar með sé umræðunni lokið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Auðvitað verð ég að kommenta á þetta.

Vantar ekki gildisdóminn inn í umfjöllunina hjá þér?

Svo við tökum öfgadæmið: Er óæskilegt að nýbúar séu í meirihluta á Íslandi? Og ef svo er; hvers vegna?

Sjálfur hef ég ekki myndað mér skoðun; en hvaða vitrænu rök mæla gegn því? Hagfræðirökin eru ábyggilega öll meðmælt annars konar samsetningu landsmanna. Svo má líka finna menningarleg rök með því líka.

Eins og staðan er í dag, þá megum við fyllilega við fleiri innflytjendum að mínu mati. En þó þurfum við að efla sérþjónustu í skólakefinu til að forðast (arfgenga) stéttskiftingu.

En eins og þú segir, þá er erfitt að ræða þetta mál af viti. Svívirðingarnar ganga á víxl: Þjóðnýðingur og landráðamaður - Rasisti og moldarkofasósíalisti...

Grímur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir kommentið Grímur.

Ég held að þessi umræða eigi við um allar þjóðir og þá hlýtur fyrsta spurningin að vera, "Hvað gerir ákveðinn hóp fólks að þjóð?" Það eru ýmsir hlutir að mínu mati. Sagan og tungan eru þar efstir á blaði. Það er yfirleitt kjölfestan í því að mynda þjóðir. Þetta eru huglægir hlutir en þó praktiskir. Ákveðinn hópur fólks á ýmislegt sameiginlegt sem ekki verður rifið upp með rótum. Þó ýmsir postular hafi talið að þjóðríkið sé dautt þá er það náttúrulega hin mesta firra eins og margt annað sem kemur frá besservisserum allra landa. Þessi umræða brennur vissulega heitar á litlum þjóðum en stórum því þær eru viðkvæmari. Því eigum við alveg sérstaklega að takast á við hana. Hvað myndi gerast ef það fólk sem myndar þjóðina lenti í minnihluta í því landi sem það byggir? Ég held að fólk hafi gott af því að hugsa þá hugsun til enda, æsingalaust. Líka fjölmenningarvitarnir. Það er fásinna að halda að þeir sem fyrir væru (íslendingarnir í okkar tilviki) myndu um óráðna framtíð skipa einhversskonar yfirstétt sem réði öllu vegna þess að þeir kynnu hið opinbera tungumál og þeir réðu í stjórnkerfinu. Þetta myndi vera svona fyrst í stað en það yrði ekki lengi. Hvað svo? Mér finnst það vera skylda stjórnmálamanna en einnig almennings að ræða opinskátt hvaða leið við viljum fara í þessum efnum. Hver eru markmiðin? Hver er framtíðarsýnin? Það er óábyrgt að tala út og suður í þessum efnum á meðan allt er á flugaferð stefnulaust og markmiðslaust. Er það markmiðið a koma þjóðinni yfir eina milljón sem fyrst? Kannski yfirdrifun viðmiðun en gott og vel, ef það er markmiðið hvaða áhrif mun að hafa? Gott til að hugsa um yfir páskana.

Nafnlaus sagði...

Áður en ég byrja; þá er ég að fílósofera um þetta, ekki gera lítið úr einu né neinu...

Það, að eitthvað sé til, leiðir ekki sjálfkrafa af sér að það hafi eitthvað gildi og vert sé að varðveita það. Er íslenskt þjóðerni þess virði að varðveita það? Og ef svo er, hvað gerir Íslending að Íslendingi? Er hálfnorski forsætisráðherrann okkar Íslendingur? En hálfspænski menningarfrömuðurinn eða handboltastjarnan sem fæddist í Eistlandi? Er hægt að vera bæði íslendingur og útlendingur? Er hægt að vera Íslendingur að hluta?

Könnun sem gerð var á innflytjendabörnum leiddi í ljós að innan við 40% þeirra barna sem eiga báða foreldra erlenda telja sig vera Íslendinga. Það finnst mér grafalvarlegt mál. Ef þjóðarhugtakið eins og við notum það, útilokar stóran hluta innflytjenda, þá hefur það alla burði til að vera stórhættulegt kúgunartæki og þarfnast endurskoðunar.

Af innflytjendafjölskyldum þekki ég fyrst of fremst til blandaðra fjölskyldna, en þar er allur gangur á því hvorum upprunanum er gert hærra undir höfði. Sum börn eru tvítyngd, önnur tala nær eingöngu annað málið og sum eru langt á eftir í málþroska í báðum málum.

Nú efast fæstir um að telja eigi Frakkland til þjóðríkja. Eitt af þeim mómentum sem mótuðu upplifun mína af heiminum var þegar ég heyrði sögu lesna í útvarp sem gutti. Sagan hét Minningar Jacques frænda eða eitthvað álíka og fjallaði um uppvaxtarár verðandi skútukalls. Kaflinn, sem hafði svona mikil áhrif á mig, fjallaði um fyrstu ár Jacques í skóla. Hann talaði ekkert nema bretönsku þegar hann hóf skólagöngu, en var refsað í hvert sinn sem hann opnaði munninn til að tala á því máli: Í Frakklandi átti að tala frönsku. Þegar gengið hafði á þessum barsmíðum í nokkur ár, braust út stríð á milli Þýskalands og Frakklands. Kennslukonan sagði nemendum sínum með grátstafinn í kverkunum af illvirkjum Þjóðverja. Þar bar hæst sú ósvinna að þeir ætluðu að neyða vesalings fólkið í Alsace til að tala þýsku…
Af þessu dró ég þá ályktun að þjóðerni væri hvorki klippt né skorið. Ég staðfestist svo í þeirri trú eftir því sem ég lærði meira um sögu Evrópu, …og seinna sögu þjóðarhugtaksins.

Flestar verðlaunaskáldsögur á Englandi eru skrifaðar af höfundum sem eiga ættir að rekja til innflytjenda. Þetta er rakið til ólgunnar sem myndast þegar menningarheimar mætast. Væri ekki til nokkurs að vinna að fá svona bylgju hér á landi? Þó það kosti einhverja árekstra? Væri ekki indælt að hafa aðgang að menningu sem á uppruna sinn annars staðar en í Engilsaxnesku, svo ég taki upp röksemdir úr menningarlífinu. Pólitíkin og viðskiptalífið velta síðan upp enn öðrum hliðum.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst fínt að fólk sé að fílósófera um hlutina án þess að segja að hinir eða þessir séu fífl eða asnar enda þótt skoðanir fari ekki alltaf saman. Það sem ég skrifaði byggðist á því að það væri ekki verið að ræða um einstakar persónur, góðar eða slæmar eftir atvikum heldur að skoða hlutina í stærra samhengi. Ég hef aldrei sagt að íslendingar séu betri eða verri en aðrir en fram hjá því verður ekki gengið að þjóðarkenndin situr djúpt í fólki ef undan er skildir tiltölulega fáir einstaklingar. Þetta á ekki einungis við um íslendinga heldur þekkir maður þetta mjög vel frá öðrum þjóðum. Fram hjá þessu verður ekki gengið. Þjóðir breytast og verða fyrir áhrifum utan að frá. Það er allt annar hlutur en að lenda í minnihluta í eigin landi. Sá möguleiki er ekki útópía heldur hafa einstakir aðilar sagt það vera stefnu sína. Ég kalla því eftir umræðu um þessi mál og hvaða stefnu stjórnvöld hafa í þeim. Það er betra fyrr en síðar að vita hert skal haldið í þem efnum.