miðvikudagur, mars 12, 2008

Fór í gær í jarðarför Lillu frá Kvígindisdal. Þeim fækkar óðum gömlu sveitungunum sem voru einni kynslóð eldri en sú sem ég tilheyri. Jarðarförin var fjölmenn og þar hittust eins og gengur margir kunningjar sem eiga ekki leið saman upp á hvern dag. Presturinn kom í ræðunni inn á þær breytingar sem voru í sveitinni á hennar æfiferli. Mikill uppgangur og framfarir framan af en síðan fólksfækkun og hnignun. Það er alltaf dapurt að sjá þróunina eins og hún er víða í hinum dreifðu byggðum. Á hinn bóginn er erfitt að sporna við þessari þróun sem er hluti af öðru og meira.

Það var einkennilegt að sjá um daginn að Arnaldur Indriðason er í hugum fólks besti íslenski rithöfundurinn. Arnaldur skrifar bækur sem eru góðar aflestrar en bækurnar hans les maður ekki oft. Hann skrifar eftir þekktri formúlu sem hefur m.a. verið notuð í Svíþjóð með góðum árangri. Sjövall og Wahlö skrifuðu t.d. 10 bækur sem eru ritaðar eftir þessari formúlu. Brunabíllinn sem hvarf, Maðurinn á þakinu, Polis Polis potatismos og fleiri. Þar er lögreglumaðurinn fráskilinn, býr í einhverri blokkaríbúð, á við vandamál að stríða í einkalífinu en tekst að leysa ýmsar gátur, oft fyrir tilviljun. Ég las þessar bækur allar á sínum tíma til að æfa mig í sænskunni. Eftir að hafa lesið nokkrar þeirra sá maður munstrið glögglega sem þær byggðust á. Eina bókin sem Arnaldur hefur skrifað í þessari seríu sem er svolítið öðruvísi er Grafarþögn. Hún er ágæt og dálítið sérstök. Hamborgarar eru vinsæll skyndibitamatur sem ekki er veislumatur. Hamborgarar eru misgóðir. Arnaldur býr til góða hamborgara.

Ég sá í morgun að forstjóri Skýrr segir að það sé ekki neinn launamunur innan fyrirtækisins. Reglulega sé farið yfir hvort einhverjir starfsmenn hafi hækkað umfram aðra sem vinna sambærileg störf. Ef svo er þá eru allir hækkaðir upp í laun þess sem efstur er. Það er fínt að þurfa ekki að gera neitt í að krefjast launahækkana heldur bíða bara eftir því að einhver gangi í málið og þá gerist allt sjálfkrafa fyrir hina. Líklega er best að setja mestu frekjuna í málið.

Utanríkisráðherra segir að eina ráðið til að fjölga kvensendiherrum var að sækja þá út fyrir utanríkisþjónustuna. Það má meir en vel vera að það sé rétt en meginspurningunni var ekki svarað: Var ástæða til að fjölga sendiherrum?

Það fjölgar alltaf þeim sem hafa skráð sig til þátttöku í 100 km hlaupinu. Þeir eru komnir vel yfir 10 eða mun fleiri en ég átti von á. Þetta er flott. Kannski verður einnig boðið upp á 50 km hlaup.

Nýlega var sett norskt met í 48 tíma hlaupi á hlaupabretti. Valdimar Andersson hljóp 277 km á 48 tímum en gamla metið var 264 km. Hann var orðinn dálítið lúinn og skakkur þegar þessi raun var yfirstaðin en kínversk kona gerði hann eins og nýjan á 15 mínútum með nálastunguaðferðinni. Daginn eftir leið honum miklu betur en honum hefur gert eftir 6tíma haup hingað til. Þökk sé nálastungunni. Brettið bilaði eftir 36 tíma svo það var eins gott að hann hafði gert kröfu um að hafa annað til vara. Það er kominn tími til að við förum að líta á þessa hluti hérlendis.

Engin ummæli: