þriðjudagur, mars 25, 2008

Tók 40 mínútna Ívar í World Class í dag eftir vinnu. Fann ekki fyrir æfingaprógrammi páskanna í fótunum. Var á hraðanum 6.5 - 7.0 sem er það hraðasta sem ég hef gert til þessa. Ætla að ná a.m.k. 7.2 áður en vorið kemur. Þar til í vetur hafði ég aldrei farið yfir 6. Þetta er firna góð æfing fyrir brekkuhlaup s.s. Laugaveginn og þar af erfiðari þolraunir.

Ég er viss um að Herbalifið eykur getu manns til að takast á við erfiðari æfingar og gerir recoveríið (endurheimtuna) mun fljótari. Það er í sjálfu sér mjög lógískt. ef næringarbúskapurinn er í lagi er skrokkurinn einnig betur á sig kominn til að takast á við álag og einnig að jafna sig eftir það.

Á laugardaginn fór ég með pabba og mömmu upp að Hvanneyri í heimsókn til Hauks bróður og Ingu. Stærstur hluti stórfjölskyldunnar var kominn í páskaorlof svo það var glatt á hjalla í Grásteini. Þau fóru meðal annars með okkur í Ullarselið og á búvélasafnið. Það er alltaf gaman að kíkja þar við. Hvorutveggja er staðarprýði. Það er gaman að sjá gamla traktora komna í sparifötin og gengna í endurnýjum lífdaga eftir að Haukur og hans menn hafa farið um þá nærfærnum höndum. Þar er ekki kastað til höndunum heldur skal allt vera eins og þegar þeir komu úr kassanum. Í aflögðu refahúsi utar á staðnum stendur svo fjöldi véla og sem bíður þess að röðin komi að þeim. Haukur er afar fróður um traktorana og vélar yfirleitt og ég held að það sem hann veit ekki um vélar sé ekki þess vert að vita það.

Lengi vel hlustaði maður alltaf á rás tvö á morgnana á meðan morgunmaturinn avr tekinn til og blöðin lesin. Nú er hins vegar svo komið að ég bara get það ekki lengur, hún er svo leiðinleg. Kannski er maður að verða gamall en sama er ég skipti alltaf um rás á morgnana nú orðið ef rás 2 er á í morgunsárið. Lestur úr forystugreinum dagblaðanna á rás 1 er allt að því skemmtihlustun miðað við blaðrið. Því miður er búið að skera niður talað mál á rás 1 svo nú eru etýður og sónötur uppistaðan í dagskránni fram til 7.30. Það er vafalaust billlega sloppið fyrir RUV en það hrekur ma´nn þá bara yfir á Bylgjuna, nú eða á Útvarp Sögu. Þar hafa menn þó alla vega skoðanir enda þótt maður þurfi ekki að vera sammála þeim.

Það var athyglisvert viðtalið við Stefán Þórarinsson í Mogganum á páskunum. Hann gagnrýndi starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands af nokkrum þunga. Vafalaust ehfur hann töluvert til síns máls. Af hverju á forstöðustarf stofnunarinnar að vera frátekið fyrir afdankaða þingmenn og ráðherra sem eru svo eins og heimaríkir hundar ef á þá er andað? Maður er ekki búinn að gleyma látunum í núverandi forstöðumanni þegar fyrrverandi utanríkisráðherra íjaði að því að rétt væri að setja stofnunina beint undir utanríkisráðuneyti í stað þess að láta hana vera undir svokallaðri stjórn Alþingis sem allir vita að funkerar alls ekki sem skyldi. Það var ljóst að orð utanríkisráðherra um nauðsyn þess að breyta skipulaginu hittu fyrir veikan blett á forstöðumanninum og voru viðbrögðin eftir því. Ég kynntist fyrst umræðu um þróunarstarf þegar ég las kúrsa þess efnis á Ultuna í Svíþjóð hér í denn. Það var viðtekið viðhorf að þróunaraðstoð var oft ódýr leið þróaðra ríkja til að kaupa sér góða samvisku í þessum málum. Yfirleitt var reynt að láta þá peninga sem lagðir voru til þróunarstarfs ekki hverfa út úr hagkerfinu heldur fóru þeir til að kaupa tól og tæki af fyrirtækjum í viðkomandi löndum og stundum voru kaupin nokkuð úr takti við þarfir heimamanna. Sjónarmið Stefáns um að rétt sé að leggja aðaláhersluna á að auka sjálfsbjargarhæfni heimamanna til verðmætasköpunar er án efa rétt.

2 ummæli:

Steinn Jóhannsson sagði...

Tekur undir þetta með orkubúskapinn. Ég finn verulegan mun eftir að ég byrjaði að nota formúlu 1 og 3, einkum og sér í lagi þegar æfingar eru yfir 60 mín.

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra þetta Steinn. Þetta lyftir þér hærra upp og lengra fram!!
G