Í dag voru tvíburarnir hérna á móti okkur fermdar. Það er búin að vera mikil tilhlökkun og spekúlasjónir undanfarið enda eðlilegur hluti í aðdraganda svona merkisdaga. Svaf út í morgun því það var ekki tími til að fara út að hlaupa fyrir ferminguna. Í kirkjunni gekk allt eins og átti að vera, séra Pálmi talaði vel til krakkanna eins og hans er von og vísa og þau stóðu sig vel. Í veislunni í dag var sýnt myndband þar sem klippt voru saman brot frá liðnum árum þar sem sást hvernig fermingarbörnin höfðu stækkað og þroskast. Fór út seinnipartinn og tók tvöfaldan Poweratehring.
Á fundi í 100 km félaginu í vikunni var ákveðið að halda 100 km hlaup í vor. Það verður fyrsta hlaup sinnar tegundar hérlendis. Hlaupinn verður 10 km hringur í Fossvoginum og yfir undir Bryggjuhverfið við Gullinbrúna. Tímamörk verða 15 klst sem er nokkuð eðlilegt miðað við hæðarmismun. Einfalt og þægilegt. Aðeins ein drykkjarstöð sem verður staðsett nokkurn veginn í miðjunni. Það eru nokkrir búnir að melda sig og vonandi að fleirum vaxi ásmegin. Þetta er eðlilegur hluti af þróuninni því æ meiri fjöldi er að verða í stakk búinn til að takast á við þetta. Að hlaupa Laugaveginn þótti vera ofurmannleg raun fyrir 10 - 12 árum en núna er það ósköp hversdagslegt að skokka hann. Sex tíma hlaupið hefur einnig lokkað nýja hlaupara til átaka við lengri vegalengdir. Þetta er allt á réttri leið. Ég veit ekki hvort ég geti tekið þátt í þessu hlaupi því ég tek þátt í 24 tíma hlaupi á Borgtundarhólmi hálfum mánuði áður. Kemur í ljós.
Fékk nýlega DVD disk frá Spartathlon hlaupinu í Grikklandi í haust. Þar er bæði saga hlaupsins rakin og talað við John Loden, frumkvöðul hlaupsins, en einnig er sýnt vel frá hlaupinu í haust. Geri ráð fyrir að sýna diskinn á aðalfundi UMFR36 í lok mánaðarins.
sunnudagur, mars 09, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli