Vegna tímaskorts í gær tók ég bara 3 km í Laugum. Hitaði upp í tæpan km og tók síðan meiri hraða. Kláraði 3 km á rétt rúmum 12 mín. Ætla að gera betur næst og hita þá upp í ca 1 km áður en 3ja km spretturinn byrjar. Tók svo 10 km í dag. Náði að fara undir 41 mín. Hef náð meiri hraða í hvert sinn sem ég hef tekið þessa vegalengd að undanförnu. Ætla að hita upp áður en ég byrja næst. ´Sub 40 fer að nálgast. Líklega þarf maður að setja á 1% halla til að ná meiri átökum.
Maður veit bara ekki hvernig þetta lið sem er á Hrauninu lítur á sig og sína vera þarna. Er þetta bara hressingarhæli þar sem menn ráða sér að eigin vild eða er þetta staður sem er notaður til að geyma hættulega glæpamenn menn þar sem nauðsyn bar til að fjarlægja þá úr þjóðfélaginu almennum borgurum til verndar. Blaðamenn opinbera síðan einfeldni sína eða þessa algeru kranablaðamennsku sem tröllríður fjölmiðlum í dag með því að taka þetta rugl upp og hampa því á síðum blaða og í þjóðarsálum útvarpsins. Þegar birtar eru fréttir um að bálreiðir fangar hafa í hyggju að kæra forstöðumann fangelsins vegna brots á meðalhófsreglu og hann er einnig sakaður um að hóprefsingu hafi verið beitt vegna dópleitar þá veit maður ekki lengur hvað snýr upp og hvað snýr niður. Hver var glæpurinn? Jú, það var farið í alla klefa á ákveðnum gangi og leitað kerfisbundið að dópi vegna rökstudds gruns um að slíka vöru væri þar að finna. Þar sem þeir sem gistu í klefunum ætluðu að fara að taka á sig náðir þá urðu þeir mjög reiðir út í forstöðumanninn þegar ró þeirra var raskað. Hvað heldur þetta lið að það sé? Gestir á fimm stjörnu hóteli sem geta hengt "Do not disturb" á snerilinn eftir kl. 22.00 á kvöldin. Fínt hjá Margréti að taka ekki með neinum silkihönskum á þeim málum þar sem nauðsyn ber til.
Það var fínn pistillinn sem Ómar skrifaði vegna þess að einhverjir bjánar höfðu krassað á danska sendiráðið og hengdu upp fánadruslur. Íslandssaga Jónasar frá Hriflu fól í sér ákveðna skoðun á dönum sem nýlenduþjóð og hvernig þeir hafi komið fram við íslandinga fyrr á öldum. Ég held að það sé rétt hjá Ómari að fyrst íslendingar misstu sjálfstæðið þá hafi þeir ekki getað fengið betri herra en dani. Bretar meðhöndluðu íra eins og hunda meðan þeir ríktu yfir Írlandi og menn geta séð hvað var að gerast í Norður Írlandi fram á síðustu ár.
miðvikudagur, mars 05, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli