Tók 30 km hlaup fjórða morguninn í röð. Gerði smá tilraun nú um páskana að fara fjóra daga í röð í frekar erfiða langa æfingu. Hér áður var maður stirður fram eftir degi eftir lengri hlaup en nú finnur maður varla fyrir þessu. Áður en lagt er í hann fær maður sér hafragraut með hunangi og rúsinum ásamt góðum hristing af Herbalife og strax þegar komið er í hús er Formúla 1 og Formúla 3 hrist saman og drukkin. Áður en maður fer í sturtu. Þetta gerir það að verkum maður finnur ekki fyrir meira æfingarálagi og getur þar af leiðandi þolað mun meira álag. Það var ekkert erfiðara að hlaupa síðasta morgninn heldur en þann fyrsta. Þetta er spennandi.
Þegar maður er að hlaupa langt þá hlustar maður gjarna á útvarpið. Ég hlusta ekki oft á útvarp Sögu en gerði það nokkuð undanfarna morgna því snakkið á hinum stöðvunum er ekki alltaf svo uppbyggilegt að maður megi ekki við því að hlusta á eitthvað nýtt. Arnþrúður Karlsdóttir jós úr skálum reiði sinnar í gærmorgun yfir nýföllnum dómi (ef dóm skyldi kalla) yfir Litháunum sem réðust nýlega á lögregluna og krafðist aðgerða. Það er þekkt í nágrannalöndum okkar að glæpaklíkur beina spjótum sínum iðulega að fjölskyldum dómara og lögreglumanna sem fara með mál glæpamannanna. Þannig koma þeir að þeirri hlið þeirra einstaklinga sem eiga að gæta laga og réttar þar sem þeir eru berskjaldaðir. Það þarf ekki meira en að senda bréf í pósti þar sem stendur t.d.: "Ég sé að dóttir þín gengur í xxxskóla. Vona að ekkert komi fyrir hana" Þannig eru viðkomandi dómari eða lögreglumaður látinn vita að glæpamennirnir viti í hvaða skóla börn viðkomandi embætismanna ganga og gefið er í skyn að það geti eitthvað hent þau. Ef farið er að beita svona aðferðum hérlendis er eins gott að það komi upp á yfirborðið. Alla vega er dómurinn yfir Litháunum sem réðust á lögregluna gjörsamlega óskiljanlegur. Dómarinn sagði að það hefði ekki verið hægt að sanna eitt eða neitt hver barði hvern og tók þar með ekkert mark á vitnisburði lögreglunnar. Einstaklingar voru dæmdir í allt að 16 ára fangelsi í Geirfinns- og Guðmundarmálunum enda þótt engin lík væru til staðar, ekki var hægt að sanna eitt né neitt um hver gerði hvað og vitnisburður allur út og suður enda fenginn fram með þvingunum og aðferðum sem mætti jafna við pyntingar. Það er ekki sama Jón og séra Jón.
Á Útvarpi Sögu sitja þeir Sigurður G. Tómasson og Guðmundur Ólafsson gjarna og spjalla. Þeir eru skemmtilegir og koma víða við. Guðmundur upplýsti m.a. að lagið Those were the days með Mary Hopkins væri upprunalega rússneskt, bæði lag og ljóð. Textinn hefði verið þýddur á ensku og lagið poppað upp og síðan sló það í gegn. Guðmundur sagði einnig ágæta sögu um Sjúkanov, forsetaframbjóðenda í Úkraníu. Hann hefði verið á kosningaferðalagi og gist á hóteli einu ónefndu. Þegar hann kemur upp á herbergið þá kveikir hann á sjónvarpinu og það hittist svo á að upp kemur klámrás. Það er ekki að orðlengja það að Sjúkanov límist við skjáinn honum alveg á óvart og horfir drykklanga stund á það sem fyrir augu ber. Segir svo ekki af hóteldvöl hans fyrr en hann er að tékka sig út þá bíður firna hár reikningur í lobbyinu fyrir sjónvarpsáhorf sem kom Sjúkanov algerlega í opna sköldu. Óvandaðir andstæðingar hans komu málinu í blöðin til að reyna að leiða hneisu og álitshnekki yfir frambjóðendann. Það mistókst algerlega því fylgi hans jókst mikið meðal almennings vegna þessa því fólk mat það svo að það væri heilmikill kraftur eftir í kallinum fyrst hann sat svo lengi við og horfði á klám í sjónvarpinu. Þetta er kannski aðferð sem mætti reyna hérlendis.
Svo heyrði ég mikla eldmessu í Útvarpi Sögu um óvandaðan kaupahéðinn íslenskan sem fullyrt var að væri búinn að svíkja fleiri hundruð milljónir út úr venjulegu fólki á síðustu 15 árum. Hann var nafngreindur svo annað tveggja er víst að sá sem flutti eldmessuna fær á sig svakalagt meinyrðamál eða að kaupahéðinn þessi fær á sig kærur fyrir fjársvik eins og hótað var í messunni. Það sem hefur kannski tekið steininn úr var að sá meinti svikahrappur er farinn að fara inn á elliheimilin og hafa fé út úr grandalausum ellilífeyrisþegum með loforðum um mikla ávöxtun sem hefur víst aldrei komið. Fróðlegt verður að fylgjast með þessu máli.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig ráðandi aðilar í viðskiptalífinu og innan ríkisstjórnarinnar hafa notað páskana. Menn fengu andrúm til að skipuleggja sig yfir páskana og snúa vörn í sókn og nú er að sjá hvernig það hefur verið notað. Spennandi dagur á morgun.
mánudagur, mars 24, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli