Hef lítið hlaupið síðustu daga vegna ýmissa hluta en tók góðan hring í dag út í Nauthólsvík og fór slaufuna upp með Öskjuhlíðinni. Hlýtt og vorkeimur.
Mér finnst umræðan um einkaþotuflug á NATÓ fund vera hálfbarnaleg og dálítið týpisk. Ég geri ekki ráð fyrir að ráðherrar segji:"Yess, nú skulum við leigja þotu". Það lyktar af popúlisma að gera hávaða út af þessu og reyna að skora pólitískar keilur út af svona máli.
Mér finnast á hinn bóginn ákvarðanir ríkisstjórnarinnar er varða stimpilgjöld vera afspyrnuvitlaus. Stimpilgjald er arfur frá þeim tíma þegar viðskipti og lántaka voru álitin ákveðin forréttindi og því skyldu slík forréttindi nýtt sem skattstofn. Lánamarkaðurinn hefur gjörbreyst síðan þá. Maður getur fengið lán út um allar koppagrundir án þess að borga stimpilgjald en ef fólk ætlar að kaupa sér íbúð (sem er ein af grunnþörfum hverrar fjölskyldu) þá er það skattlagt. Skattlagning er allt í lagi en forsendur skattlagningar er að hún sé réttlát og allir standi jafnt gagnvart henni. Nú er farið að gera upp á milli fólks. Af hverju á að skattleggja fólk sem þarf að kaupa sér aðra íbúð, kannski að minnka við sig þegar börnin eru farin að heiman? Maður hélt að þingmenn ríkisstjórnarinnar myndu sýna af sér þann manndóm að fella niður þennan heimskulega og rangláta skatt en það var nú eitthvað annað. Nú verður sett upp eittvað flókið og ógagnsætt kerfi í kringum þetta sem flækir meir en bætir. Á sínum tíma var lagður sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það var gert vegna þess að stjórnmálamenn töldu að þar færi að öllum líkindum fram gróðabrall og kannski svindl og því skyldi það skattlagt. Sú atvinnustarfsemi sem þar fór fram var minna metin en þar sem höndlað var með kjöt eða fisk. Hverjum myndi detta svona lagað í hug í dag?
Ég fór í kvöld upp í Vagnhöfða þar sem Íslenskir fjallaleiðsögumenn voru með ferðakynningu. Það var mættur góður hópur af fólki enda spennandi frásagnir á döfinni. Ég gat ekki verið til enda en meðan ég var þarna var farið yfir ferð til Angmassalik á Austur Grænlandi og síðan til Nepal. Ég sé hvað við fengum mikið fyrir lítið í fyrra í ferð okkar til Angmassalik þegar við fórum í ATC keppnina miðað við ferðina sem ÍF býður upp á og er hún vafalaust mjög góð. Við vorum lengur, sáum miklu meira, upplifðum miklu, mmiklu meira og okkar ferð var ódýrari. Því er óhætt að mæla með því að taka þátt í ATC keppninni ef menn eru tilbúnir að takast á við dálítið púl í bland við ógleymanlega upplifun. Nepal ferðin er náttúrulega mögnuð. Hún tekur einar þrjár vikur svo það er dálítið dæmi og kostar náttúrulega slatta. Það er gengið úr 800 m. hæð upp í 5.400 m. hæð á 11 dögum.
48 klst keppnin í Brno í Tékklandi var haldin um siðustu helgi. Hún er haldin innandyra svo veðrið truflar ekki. Kurosis hinn gríski sigraði og hljóp rúma 400 km á 48 klst. Það þótti undarlega lítið því yfirleitt keppir hann ekki nema að vera í góðu formi. Það sem fáir vissu fyrr en á reyndi var að hann hafði samið um að fá að hlaupa í einn sólarhring í viðbót og hljóp hann því alls í 72 klst. Þá kom í ljós úr hverju hann var gerður því á 3ja og síðasta sólarhringnum hljóp hann rúma 300 km og lauk því alls rúmum 700 km á þremur sólarhringum og setti heimsmet!! Þetta er almennilegt.
fimmtudagur, apríl 03, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já hann Kurosis er svo fáránlegur að það er ekki hægt að finna nógu sterk lýsingarorð um hann!
ÁJ
Skrifa ummæli