sunnudagur, apríl 27, 2008

Það var flott kvöld í Víkinni í gærkvöldi. Úrslitaleikur milli Víkings og ÍR um hvort liðið kæmist upp í efstu deild í handbolta. Fyrir nokkrum árum vóg það salt í Víkingi hvort meistaraflokkur karla yrði lagður niður eða ekki. Sem nauðvörn var meistaraflokkurinn sameinaður Fjölni í nokkurn tíma. Síðustu tvö árin hefur síðan verið spilað undir merkjum Vikings. Fyrir atbeina manna með ákveðið markmið þá tókst að koma í veg fyrir að handboltinn koðnaði alveg niður og nú stóð liðið á þröskuldi efstu deildar. Það var mikil stemming í Víkinni, um 1000 manns voru mættir, flestir úr Víkingshverfinu en ÍRingar fjölmenntu einnig til stuðnings sínu liði. Þetta var hörkuleikur, sannkallaður derby leikur. Fram í seinni hálfleik mátti ekki á milli sjá hvorir næðu undirtökunum en þar kom að Víkingar sigu fram úr og slepptu ekki takinu á leiknum eftir það. Fögnuðurinn var mikill í leikslok þegar sigur var í höfn. Þetta var í sjálfu sér meira en leikur um þann sóma að komast upp í efstu deild. Hann var ekki síður spurning um hvort liðið yrði í ströggli áfram. Bestu strákarnir vilja spila í efstu deildinni þar sem athyglin er meiri og möguleikarnir meiri. Því er alltaf hætta á að þeir bestu yfirgefi liðið sem kemst ekki upp. Því lá meira undir en bara sóminn í gær. Maður getur ekki annað en fundið til með ÍR að þurfa að berjast í þessari erfiðu stöðu áfram. Þeir hafa átt gríðarlega góð lið á undanförnum og misst frá sér fjölda manns í önnur lið og í atvinnumennsku. Vonandi koma þar upp öflugir strákar sem hefja liðið upp meðal þeirra bestu á nýjan leik. Handboltinn á Íslandi þarf á öllum liðum að halda til að halda stöðu sinni hér innanlands svo og á alþjóðavettvangi. En það er enginn annars bróðir í leik eins og var háður í Víkinni í gærkvöldi á meðan hann stóð yfir.

Fór út kl. 6.00 í morgun og kláraði 22 km. Flott veður og engin þörf á að sofa inni í svona vorveðri. Alli múrari kom um kl. 9.00 og þá þurfti ég að vera kominn heim aftur. Hann lauk við flísarnar í dag og kemur á morgun til að ljúka fúgunni. Tók síðan 20 km í kvöld í fínu vorveðri en svolítið köldu.

Það hafa ýmis Lúkasarguðspjöll verið lesin að undanförnu vegna trukkamanna. Þau virðast rísa til hæstu hæða með reglulegu milibili. Maður fær innsýn í mismunandi hugskot og ótrúlegt hugarfar með því að skyggnast svolítið um á þessum vettvangi. Einn sagði að það mætti svo sem kalla það ókurteisi að berja lögreglu í andlitið en alvarlegra fannst honum að varla vera. Annar spurði hvort lögregluþjónninn sem fékk steininn í andlitið hefði ekki verið búinn að hafa sig mikið í frammi. Það var eins og honum fyndist það réttlæta steinkast í hausinn á honum. Vitaskuld eru þetta undantekningar en sýnir þó hvaða hugrenningar eru á kreiki.

Hugtakið "maður að meiri" virðist mönnum afskaplega hugleikið þegar einhver uppsker eins og til er sáð. Hjá öllum fjölmiðlum sem vilja láta taka mark á sér er það alger dauðasynd að búa til frétt eða feika frétt ef það útskýrir málið betur. Enginn fjölmiðill sem er vandur að virðingu sinni vill láta bendla sig við slíkt. Samtalið sem fór í loftið um hvort ætti að fá einhverja til að kasta eggjum á meðan stöðin væri læv var ekki sagt í neinu gríni eða hálfkæringi. Það heyrir hver maður sem á hlýðir. Maður gekk undir manns hönd að segja að fréttamaðurinn væri svo mikill grínisti að hann hefði bara ekki getað hamið sig í öllu þessu gríni sem átti sér stað þarna á Olísplaninu. Ætli konan sem stóð með smábarn í fanginu í miðri þvögnni hafi verið álíka mikill grínisti þannig að hún hafi bara ekki getað slitið sig burt frá ölli gríninu, fyrr en allt var komið í óefni, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir.

Sigurður Líndal skrifar góða grein um princippin í þessari uppákomu í Fréttablaðinu í morgun. Málið er mjög einfalt. Ef lögreglan hefur gefið fólki fyrirmæli á vettvangi og það hlýðir ekki þrátt fyrir ítrekaðar og endurteknar beiðnir þá grípur lögreglan til þeirra aðgerða sem duga til að fyrirmælum hennar sé hlýtt. Þetta er ekki flóknara. Þótt ýmsir virðast ná betri nætursvefni við að ausa undirritaðan og aðra svívirðingum fyrir að hafa þessa skoðun þá breytir það ekki staðreyndum. Þeir sem ekki skilja þetta geta engum öðrum um kennt en sjálfum sér.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll frændi, ég er löngu hætt að hafa samúð með þessum "mótmælendum" þeir eru löngu búnir að vekja athygli á þessu máli en eru nú komnir langt út fyrir allt velsæmi. Sýna ekki gott fordæmi þar sem þeir óhlýðnast lögreglunni. Svo verð ég nú bara að segja eins og málið horfir við mér að þeir hljóta eiga haug af peningum úr því þeir hafa efni á að vinna ekki heldur "rúnta" um á fokdýrum bílum og baða sig í ljósi fjölmiðla, eitthvað kostar svona vinnutap. Þeir virðast upplifa sig sem píslarvotta og auk þess virðast þeir hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum. Verð líka að segja að hegðun þeirra hefur skaðað ímynd þeirra og trúverðuleika. Góðir hlutir gerast hægt og því hefði fyrstu mótmæli þeirra getað komið að gagni og sjálfsagt gert það, hrædd um að samúð almennings hafi snúist þeim í óhag.
Bestu kveðjur,
Sólveig frænka.

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt sumar Sólveig og gaman að heyra frá þér.
G