Flottur árangur hjá Sigmundi frá Selfossi í Frankfurt Ironman þríþrautinni um síðustu helgi. Hann lauk keppni á 10 klst 47 mín sem gaf honum 7. sæti í sínum aldursflokki. Sigmundur er ári yngri en ég svo hann er svo sem ekkert unglamb lengur frekar en ýmsir aðrir!! Því má ekki gleyma að heilsan hjá Sigmundi var á tímabili ekki til að létta undir með honum þannig að árangur hans er enn meiri þegar það er haft í huga. Sigmundur er gríðarlegur keppnismaður og agaður í æfingum. Það skilar sér þegar á hólminn er komið. Það verður síðan gaman að sjá hvaða tímar líta dagsins ljós síðar í sumar þegar Steinn, Trausti, Elli og fleiri góðir menn koma í mark eftir að hafa lokið Ironman síðar í sumar. Þetta verður Ironman sumarið mikla.
Laugavegurinn á laugardaginn. Maður vonar fyrst og fremst að veðrið verði sæmilegt. Ég hef æft þokkalega að undanförnu en tek Laugaveginn fyrst og fremst sem langa æfingu. Það miðast allt við að vera í hámarksformi seinni hluta september. Því verður maður að halda aftur af sér með að æfa á fullu fyrir einstök hlaup eins og Laugaveginn heldur að fella þau inn í langtímaplanið. Laugavegurinn er alltaf skemmtilegur og aldrei eins. Þáttttakendafjöldinn í ár er magnaður, um 250 manns.
Maður er alveg pissed yfir fréttunum sem maður fékk í gær um að Marina fótboltakona í HK/Víking hefði ekki fengið framlengingu á 30 daga landvistarleyfi og var því rekin úr landi í morgun. Hún er búin að spila hér í tæpan mánuð en er þegar búin að stimpla sig inn sem ein allra besta fótboltakonan í deildinni. Vægi hennar fyrir HK/Víking var því mikið. Nú er ekkert við þvi að segja ef þetta væri eitthvað einstakt tilfelli í innflutningi leikmanna sem ekki hefði verið gert áður en það er nú eitthvað annað. Það spila einhverjir tugir eða jafnvel hátt í hundrað erlendir fótboltamenn í meistaraflokkum karla og kvenna hérlendis. Þeir koma frá Norður og Suður Ameríku, meginlandi Evrópu, Afríku og öðrum Norðurlandanna. Innan og utan Schengensvæðisins. Hjá meistaraflokki Breiðabliks í karlaflokki eru fimm erlendir leikmenn, hjá meistaraflokki Aftureldingar í kvennaflokki eru fjórir leikemnn frá Bandaríkjunum svo einhver dæmi séu nefnd. Leikmenn eru pantaðir frá Bandaríkjunum í körfuboltanum eins og dót úr IKEA lista. Maður hefur aldrei heyrt talað um einhver vandkvæði fyrir félögin að fá landvistarleyfi fyrir þessa leikmenn. Síðan kemur einhver skrattinn uppá í þessu tilfelli sem er óútskýranlegur. Ef forsvarsmenn HK/Víkings hafa staðið skakkt að einhverju leyti að umssóknarferlinu þá hvílir upplýsinga- og leiðbeiningaskylda á Útlendingastofnun eins og öðrum opinberum stofnunum. Það skal enginn segja mér að túristar geti ekki verið lengur á landinu en í 30 daga, jafnvel þótt þeir séu frá Serbíu.
fimmtudagur, júlí 10, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli