miðvikudagur, júlí 30, 2008

Ég keyrði vestur á Rauðasand á föstudaginn. Var kominn heim um hálfellefu um kvöldið. Það var ekki til setunnar boðið því ýmislegt var á döfinni. Ég setti dótið sem ég var með inn í húsið og gerði mig kláran og lagði af stað gangandi á miðnætti. Ferðinni var heitið yfir Sandsheiði sem er gamla gönguleiðin milli Rauðasands og Barðastrandar. Ég hafði einu sinni gengið þessa leið áður en það var í janúar 1967. Þá var ég í skóla í Stykkishólmi og fór gangandi með pabba inn á Strönd til að ná í Flóabátinn. Það spáði vætu þegar leið á nóttina svo ég vildi vera kominn inneftir áður en færi að dropa. Leiðin er vörðuð og auðveld yfirferðar enda þótt dálítið væri farið að skyggja yfir hánóttina. Sandsheiði er 15 km milli bæja og hækkun upp í um 500 metra hæð. Ég var kominn inn að Holti á Barðaströnd eftir 3 klukkutíma og þá var farið að rigna. Ég breiddi því úr Bivac pokanum við vegkantinn, skellti svefnpokanum inn í hann, skreið ofan í og breiddi yfir haus. Það var dálítið skrítin en fín tilfinning að liggja þarna í poka og heyra í rigningunni úti fyrir. Ég var kominn á fætur upp úr kl. átta og þá var farið að létta til. Ég gekk síðustu kílómetrana út að Siglunesi og beið þar eftir rútunni með gönguhópnum sme ætlaði að ganga frá Siglunesi að Melanesi. Þá er gengið um Sigluness- og Skorarhlíðar sem þykja bæði torfærar og illskeyttar. Ég hafði aldrei gengið um Siglunesshlíðar en var þokkalega vel kunnugur Skorarhlíðum.
Veðrið var eins og best var á kosið, sólskin og hlýtt. Alls lögðu ellefu manns af stað, einn eldri maður uppalinn á Rauðasandi ætlaði aðeins að fara hluta leiðarinnar og snúa svo við. Eyjólfur frá Lambavatni var fararstjóri. Hann er einn örfárra sem þekkir þessa leið alla mjög vel. Rauðsendingar þekktu Skorarhlíðar og Barðstrendingar þekktu Sigluneshlíðar. Einungis tveir menn þekktu Hlíðarnar allar hér áður. Það voru Bragi á Melanesi og Gummi á Siglunesi, nú báðir látnir. Af núlifandi mönnum þekkja Ástþór á Melanesi og Eyvi á Lambavatni Hliðarnar öllum betur. Athylgi vakti við upphaf ferðar að einn mætti þarna illa búinn til fótanna og ætlaði að ganga fyrir Hlíðarnar á venjulegum götuskóm. Hann lét fortölur og varnaðarorð sér í léttu rúmi liggja og svaraði köpuryrðum þegar látið var að því liggja að honum ætti eftir að reynast gangan erfið. Fyrstu tveir kílómetrarnir eru gengnir eftir grónum bökkum en síðan verður að príla upp í hlíðina og síðan er gengið næstu tuttugu kílómetrana í snarbröttum hlíðum og grófu fjörugrjóti. Eftir um tveggja klukkutíma göngu þá sneri sá við sem það ætlaði að gera. Lagt var að götuskóamanninum að snúa einnig við en hann tók slíkum uppástungum ekki vel. Haldið var áfram prílinu út Hlíðarnar. Eftir töluverða stund stoppaði meginhópurinn töluverða stund eða í góðan hálftíma en ég hafði gengið nokkuð á undan með öðrum manni og biðum við eftir þeim þegar við sáum að þeir héldu ekki áfram. Þegar þeir komu um síðir þá sögðu þeir ekki sínar farir sléttar. Götuskóamaðurinn hafði fengið aðkenningu af hjartatruflunum og treysti sér ekki lengra. Það varð því að ráði að hringt var í umsjónarmann björgunarbátsins í björgunarsveitinni Bræðrabandið til að sækja kallinn þar sem veður var gott og hægt að lenda víðast hvar. Ef báturinn hefði ekki getað lent hefði þurft að kalla til þyrlu. Þarna hefði sem sagt getað komið upp stóralvarleg staða með mann í hjartakasti inn á miðjum Siglunesshlíðum þar sem er varla til lófastór láréttur blettur. Hvað á að gera í svona tilfellum þegar menn æða af stað, hlusta ekki á eitt eða neitt og allir vita nema viðkomandi að þeir séu ófærir um að komast gönguna á enda? Staða fararstjóra er ekki auðveld í slíkum tilfellum.
Báturinn kom innan tíðar, tók kallinn og kom honum undir læknishendur á Patreksfirði. Við héldum svo áfram, príluðum út hlíðarnar, niður þræðing ofan í fjöruna, fikruðum okkur fyrir sleipa og þaragróna Stálhleinina sem kemur upp úr á fjöru en er annars ófær. Við skoðuðum surtarbrandsnámuna í Stálvíkinni og hittum síðan gamlan kunningja á Völlunum þar litlu utar sem var þar í gönguferð í góða veðrinu. Unnið var að námurekstri í Stálvíkinni á árunum 1915 - 1917. Það getur enginn áttað sig á þeim aðstæðum sem unnið var þarna við nema að koma á staðinn. Alls voru þarna um 50 manns og unnið var á vöktum. Sagt var að gufuvélin sem knúði borinn hefði fengið bestu kolin, ráðskonan þau næstbestu og það lélegasta var flutt á markað og selt enda fór fyrirtækið á hausinn. Úr Stálvíkinni var gengið út Skorarhlíðar en þar eru hinar illræmdu Geirlaugarskriður. Sagan segir að Geirlaug, húsfreyja í Skor, hafi hrapað þar niður fyrir kletta þegar hún fylgdist með manni sínum sem gat ekki lent í Skor og reyndi að róa inn með Hlíðunum. Skriðurnar eru taldar hættulegar sökum þess að kindagatan liggur svo nálægt klettabrúninni og síðan er nokkurra tuga metra flug í fjöru. Skriðurnar eru svo brattar að sagt var að maður gæti stutt hendi við hlíðina þegar maður stæði í götunni. Heldur er það orðum aukið en sama er, manni líður alltaf heldur betur þegar þær eru að baki. Áður en komið var út í Skor var sigið niður úr hjallaþroti en þar hafði verið komið fyrir kaðli. Það er ný upplifun fyrir marga að síga í vað. Við komum við í Skor og héldun síðan út skriðurnar út að Sjöundá. Þar fór Gísli Már alfræðingur yfir harmsöguna sem gerðist þar árið 1802 og margir þekkja úr Svartfugli Gunnars Gunnarssonar. Það er talið að Bjarni frá Sjöundá hafi farið leiðina sem við höfðum að baki þegar hann strauk úr varðhaldi frá sýslumanninum í Haga á Barðaströnd og hélt út á Rauðasand. Við komum svo að Melanesi um miðnætti eða eftir þrettán klukkutíma göngu. Þar var náð í göngufólkið á bíl en ég hélt áfram, gekk heim og lokaði þannig hringnum. Ég var kominn heim um kl. eitt eftir miðnætti. Þá voru liðnir 25 tímar frá því ég lagði upp kvöldið áður. Þetta var mjög fínn sólarhringur og mögnuð upplifun. Ég held að ég geti fullyrt það að gangan fyrir Hlíðarnar er erfiðasta dagleið sem ég hef farið í svona gönguferðum og hún er ekki fyrir nema fullharnað göngufólk. Það er erfitt að ganga klukkutímum saman í bröttum hlíðum í eggjagrjóti. Lofthrætt fólk ætti heldur ekki að hætta sér í þessa göngu því það reynir nokkru sinnum á hæfileikann að geta haldið lofthræðslunni frá sér þegar sér fram af háum hömrum. Einnig þarf fólk að vera vel hraust svo ekki komi til þess að þurfi að bjarga fólki á miðri leið sem gefst upp einhverra hluta vegna. Það getur verið mjög erfitt og skapað ómælda erfiðleika. Þessi gönguleið stendur hinsvegar undir nafni sem Áskorunin.

Ég vann í húsinu heima fram undir miðnætti á sunnudaginn. Á mánudaginn gekk ég inn að Sjöundá og í Skor með hóp af fólki sem ég hafði sammælst við. Sumum fannst fullhart að fara hlíðina inn að Skor enda þótt vönum mönnum finnist það vera eins og stofugólfið heima hjá sér. Ég fór svo út á Látrabjarg og niður í Keflavík á þriðjudaginn í hreint óskaplega góðu veðri. Þar dundaði ég mér við að taka myndir fram eftir degi en hélt svo á stað suður. Bíllinn bilaði í Patreksfirðinum en ég var svo heppinn að Borgar á Skeri var heima. Hann dró mig út á Patró og hjálpaði mér við að gera við eftir að við fundum hvað var að. Gat hafði komið á olíuleiðsluna sem flytur olíuna úr tanknum inn á vélina og dró því vélin loft inn jöfnum höndum sem olíu. Borgar var snöggur að bjarga málunum svo ég gat haldið af stað. Það var þvílík heppni að bíllinn gaf sig við túnfótinn á Skeri en ekki úti í Keflavík eða á Klettshálsi þar sem tugir kílómetra eru til næstu manna. Svona er maður stundum heppinn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svona færslur ætti nú bara að banna! Ég varð hreinlega lofthrædd að lesa þetta. En mikið hefur þetta verið frábær ferð þrátt fyrir þann illa skóaða.
JóhannaH