Það var áhrifamikið að hlusta á konuna í kastljósi í gærkvöldi sem sagði frá eineltinu sem sonur hennar varð fyrir í barnaskóla. Það hafði slík áhrif á hann að hann komst aldrei frá því. Saga hans endaði síðan þannig að hann stytti sér aldur, 21 árs gamall. Hann er fæddur mitt á milli strákanna minna þannig að það er ekki erfitt að sjá sjálfan sig í sporum hennar. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig henni hefur liðið að standa fyrir utan skólalóðina og sjá strákangann utanveltu í skólasamfélaginu sem honum hafði hlakkað svo mikið til að taka þátt í. Þetta er ekki eina dæmið sem ég veit um að ungt fólk hefur stytt sér aldur og ástæða þess er meðal annars rakin til óþverralegs eineltis í skólagöngu þeirra. Foreldrar eru skyldugir til að senda börn sín í grunnskóla. Skólaskylda er hugsuð með jákvæðum formerkjum þannig að það fái öll börn að njóta menntunar. Hjá flestum þeirra er skólagangan ánægjulegur tími. En hjá einhevrjum hluta þeirra er hann hreint helvíti sem þau hafa sáralitla eða enga möguleika að losna út úr. Í stærri byggðarlögum er alltaf möguleiki að flytja barn á milli skóla ef aðstæður verða óviðráðanlegar en víða í þeim smærri er það ekki hægt.
Börn geta verið mjög grimm í garð annarra krakka. Oft er það gert í hugsunarleysi eða vegna þess að þeim líður illa sjálfum og fá útrás fyrir vanlíðanina með því að níðast á öðrum krökkum. Ég hef reynslu af því að það er hægt að bæta slíkt ástand verulega með markvissum aðgerðum kunnáttufólks. Öllum líður betur á eftir, bæði gerendum og þolendum.
Hitt er svo miklu verra þegar fullorðið fólk sem á að bera ábyrgð á börnunum, sem eru skyldug að mæta í skólann um 10 ára skeið hvort sem þau vilja eða vilja ekki, eru beinir eða óbeinir þátttakendur í eineltinu. Slíka hluti er aldrei hægt að fyrirgefa. Það getur gerst á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er afneitunaráráttan alltaf fyrir hendi. "Það er ekkert einelti í mínum skóla" Málið er afgreitt. Ég þekki til foreldra sem sögðu að það væri komið fram við sig eins og fólk sem ekkert vit hefði á einu eða neinu (lesist hálfvita) þegar það kvartaði yfir einelti innan grunnskólans. Það kemur að því að fólk gefst upp þegar aldrei er hlustað á umkvartanir þeirra. Barnið sem verður fyrir einelti er síðan orðinn sökudólgurinn vegna þess að það springur vegna sífellds áreitis, sem ber ekki alltaf mikið á. Síðan þekkir maður til tilvika þar sem kennarar leggja ákveðna nemendur í einelti. Maður hefur heyrt sögur úr skólum um að það hafi komið fyrir að það hafi liðið yfir nemendur þegar ákveðinn kennari tók þá upp að töflu. Vitaskuld eru þetta undantekningartilvik en þau eru til engu að síður.
Eineltisumræðan er sífelld og tekur aldrei enda. Opinská umræða verður vonandi til þess að færri einstaklingar komi brotnir út úr grunnskólanum.
Ég slæddist á diskamarkað í Laugardalshöllinni um leið og ég sótti töskuna mina til ÍTR á sunnudaginn. Þar keypti ég m.a. DVD mynd sem heitir Promise me this eftir Emil Kusturica. Kusturica hefur meðal annars gert myndina "Svartur köttur, hvítur köttur" sem var sýnd hér fyrir nokkrum árum og einhverja aðra sem fjallaði um stríðsrekstur í Balkanlöndunum og ég man ekki hvað heitir. Þessi gerist í Serbíu. Hún brást ekki vonum mínum. Ég veit ekki hvort allir hafa gaman af svona húmor en mér finnst frábært að sjá svona myndir eftir að vera kominn með upp í kok af hinum svokölluðu gamanmyndum sem framleiddar eru í Hollywood.
fimmtudagur, júlí 17, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll frændi,
Ég sá ekki Kastljósþáttinn þar sem ég var ekki nálægt sjónvarpi - en mun grafa hann upp. Þekki þetta mál frá eigin brjósti og sárast er að í þeim skóla þekktist ekki einelti af hálfu kennara og skólastjórans þrátt fyrir mörg tilfelli sem vitað var um á þeim tíma. Í dag er ég þakklát fyrir að hafa ekki misst mitt barn, hvorki yfir móðuna miklu eða í óreglu - til allrar Guðs lukku er hann heill í dag þessi góði drengur sem átti mjög auðvelt með nám. Ég lýsi frati og vanþóknun á skólakerfið og lýsi þau ábyrg í eineltismálum. Í tilfelli sonar míns vöknuðu ENGIN viðbrögð hjá einum né neinum í skólunum þrátt fyrir alls konar tilraunir af minni hálfu - það er EKKI skólastjórnendunum að þakka að hann er á lífi í dag. Það er til frábært verkfæri sem mér sýnist illa nýtt - það er Olweusaráætlunin. Því miður þarf öll svona umræða að hafa kostað mannslíf og í kjölfarið frábæran dugnað foreldra að vekja umræðuna, því miður gerist bara sjaldnast nokkuð í kjölfarið.
Bestu kveðjur,
Sólveig.
Skrifa ummæli