föstudagur, júlí 18, 2008

Tíminn síðan á helgi hefur verið nýttur til annarra hluta en hlaupa. Svona gerist stundum. Góðu dagarnir voru notaðir til að klára að mála húsið sem tókst ekki í fyrra sumar. Í vor var farið í að múra eina hliðina sem hafði verið gert með handarbakinu þegar húsið var byggt fyrir sextán árum. Nú getur maður sem sagt verið sæmilega sáttur með stöðuna og farið að snúa sér að öðru.

Það var magnað hjá Benedikt Hjartarsyni að klára Ermarsundið. Þetta er eitt af þeim markmiðum sem sjósundsmenn horfa til sem hina endanlegu þrekraun, hið endanlega lokapróf. Ánægjulegt að íslendingar eigi nú sinn fulltrúa í þeim hópi sem hefur klárað sundið. Það sýnir mönnum að það er allt hægt. Athyglisvert að hann sagðist hafa verið að gefast upp á miðri leið en skipstjórinn rekið hann áfram og sá vissi greinilega hvað hann söng. Grænlendingar segja að þegar maður er búinn að vera svo lengi á leiðinni að maður hnígur niður vegna þreytu þá sé maður búinn að fara svona helming þeirrar leiðar sem maður getur áorkað.

Ég sá að gamall félagi minn og næstum því jafnaldri hljóp Laugaveginn á laugardaginn. Ég hafði gegnum árin ekki sett hann í samband við langhlaup enda hafa menn misjöfn áhugamál. Mér var hins vegar sagt í gær að fyrir ekki mörgum árum hefði uppgötvast í honum krabbamein sem var komið á það stig að það var allt að því orðið dagaspursmál hvort næðist að bjarga honum. Það tókst sem betur fer og nú hefur hann sömu lífslíkur eins og hann hafði áður en óvætturinn fór að gera um sig í honum. Við þessa reynslu og allt að því lífgjöf á ögurstundu hefur hann skipt um lífsstíl og forgangsröð á ýmsan hátt. Á helginni lá Laugavegurinn á góðum tíma. Glæsilegt.

Seinna í dag verður haldið inn á hálendið í nokkra daga því veðurútlit er heldur gott fram yfir helgi. Gönguferðir, fjallaskálar, tjaldvist og snudd um ókunnar slóðir í góðra félaga hóp. Það er tilhlökkunarefni.

Engin ummæli: