þriðjudagur, júlí 08, 2008

Fór norður í Ófeigsfjörð á Ströndum á föstudaginn. Ófeigsfjarðarættin hittist þar um helgina eins og venja er á 5 ára fresti. Við vorum seint fyrir því maría var að keppa í bikarkeppni FRÍ og Jói var að koma frá Spáni eftir góða ferð á Granollers mótið þar sem Víkingsstrákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu elsta aldursflokkinn sem svarar til 2. flokks.

Það var búið að spá afar vel um helgina en á Holtavörðuheiðinni fór þokan að aukast og var niðdimm norður Strandirnar. Við gistum á Hólmavík. Rúmið var svo slæmt svo ég fékk í bakið sem er mjög óvanalegt. Morguninn eftir var veðrið fínt og við keyrðum norður í Ófeigsfjörð í blíðuveðri. Fól gerðis ér ýmislegt til dundurs um daginn og eftir kvöldmat, sem var sameiginlegur hjá flestum, var kveikt í brennu og sungið fram eftir nóttu í blíðviðrinu.
Dagin eftir var þoka niður í tjaldtoppa en þurrt. Við fórum í laugina á Krossnesi og síðan í innkaupaferð til Gjögurs þar sem við keyptum reyktan rauðmaga og harðfisk af eldhressum karli 78 ára gömlum. Um kvöldið gengum við um gamla húsið sem var byggt 1914. Það er þriggja hæða svo það var byggt bæði af góðum efnum og stórhug. Á þessum tíma var Ófeigfjörður ein af bestu hlunnindajörðum landsins og ábúendur þar ríkt fólk. Búið er að taka húsið í gegn, klæða það að utan, skipta um glugga og setja miðstöð í það þannig að nú er það albúið að hýsa ættina þegar hún á leið norður. Það er ekki lítils virði að hafa innhlaup í hús á þessum stað.
Við keyrðum suður í þoku á mánudaginn og sólin tók á móti okkur á Holtavörðuheiðinni. Vegna stirðleika í bakinu varð minna úr hreyfingu en ætlað var en ég hljóp þó eftir slóðanum frá Ófeigsfirði yfir að Eyri í Ingólfsfirði og síðan yfir fjallið til baka í rjómablíðu á laugardaginn.

Engin ummæli: