Manni leist hreint ekki á blikuna í morgun og fram eftir degi. Krónan í frjálsu falli og gengi fyrirtækja í Kauphöllinni féll og féll. Tölur sem voru vel yfir 10% gengislækkun voru ekki óalgegnar. Seinnipart dagsins réttu bæði krónan og kauphallargengið heldur við, sem betur fer. Það er nefnilega ekki útilokað að krónan missi allt traust og falli í frjálsu falli. Það hefur gerst í stærri ríkjum. Ég man eftir því þegar ég kom til Sovétríkjanna haustið 1991 að þá voru 30 rúblur á móti einum dollar. Þegar ég kom þangað ári síðar voru 300 rúblur á móti einum dollar.Þegar ég flutti til Rússlands haustið 1995 þá voru 5500 rúblur á móti einum dollar. Hvað myndi gerast hér ef dollarinn færi í 150 kall og evran í 250 kall? Verðbólgan yrði mæld í tugum prósenta, atvinnuleysi myndi stóraukast, fjöldagjaldþrot yrði meðal fyrirtækja og einstaklinga. Fjármálastofnanir myndu verða fyrir verulegum skakkaföllum. Niðurstaðan yrði ekki flóknari. Mér finnast hinar svokölluðu greiningardeildir vera á hálum ís þegar þær eru farnar að hafa það á orði að verðbólgan fari kannski yfir 10%. Ágæt þumalfingur regla er að 40% gengislækkunar krónunnar renni mjög fljótt út í verðlagið. Gengi krónunnar hefur fallið um milli 40 og 50% frá því í ágúst. Því má maður búast við því að verðbólgan verði á milli 10 og 20%. Hvoru megin hryggjar hún verður fer mikið eftir því hvort kjarasamningar fara úr böndunum eða ekki. Ef laun verða hækkuð í takt við verðbólguna byrjar gamli hrunadansinn á nýjan leik með víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Ef ekki þá tekur skemmri tíma að vinna bug á verðbólgunni en í öllu falli er framundan veruleg kaupmáttarrýrnum. Það er vissulega búið að vera fyrirsjáanlegt um nokkuð langa hríð því kaupmáttaraukning undanfarinna ára hefur verið borin uppi af umsvifum sem hafa verið fjármögnuð með lántökum en ekki verðmætaaukningu landsframleiðslunnar sem neinu nemur. Þetta er nú bara svona.
Sumir blaðamenn láta ekki að sér hæða. Ég greip í DV út í búð í gær. Þar var viðtal við einn dópistann á Hrauninu sem hafði fengið tremma þegar flassbakkið byrjaði eftir að dópið var tekið af honumi. Hann heyrði raddir og sá sýnir. Það fyrsta sem hann gerði var (líklega) að hringja í DV og rekja raunir sínar fyrir blaðamanninum. Blaðamaðurinn sá alvöru málsins og hringdi í fangelsismálastjóra og ég veit ekki hverja til að fara yfir vandræði mannsins. Ég bara skil ekki svona. Halda blaðamenn að fangelsisyfirvöld hafi ekkert annað að gera en að svara sífelldum hringingum blaðamanna út af einhverju svona rugli? Eru glæponarnir á Hauninu með blaðamenn sem sína persónulega fjölmiðlafulltrúa og lobbyista? Maður fer að halda það.
Formaður múhameðstrúarfélagsins hérlendis sýnidi sitt rétta andlit þegar hann mætti í sjónvarpið í gærkvöldi og átaldi einhverja teiknaða mynd sem birtist með grein í blaði Illuga Jökulssonar. Þegar hann og hans nótar eru ekki sammála öðrum þá heimta þeir ritskoðun. Hann verður bara vesgú og spís að taka mið af þeim lögum og reglum sem unnið er eftir hérlendis ef hann vill búa hér. Það gildir ritfrelsi í landinu, einnig hvað varðar myndir sem birtast með grein sem skrifuð er um Múhameð. Flóknara er það nú ekki. Ég veit ekki til þess að forsvarsmenn þeirra landa þar sem hin kalda hönd trúarofstækisins hvílir yfir samfélaginu eins og mara leiði hugann að því hvort réttlætiskennd íbúa annarra lands sé særð þegar þeir heimta að farið sé eftir þeirra lögum þegar gestir koma til landsins.
Ég sá heimslistann yfir árangur á árinu 2007 í ultrahlaupum á www.ultrarunning.com/ultra/2007. Þar er birtur árangur þeirra sem hafa náð yfir ákveðið lágmark í hinum ýmsu hlaupum. Við erum tvö á listanum héðan af skerinu. Elín Reed er nr. 101 á sex tíma listanum og ég er nr. 251 á 24 tíma listanum. Til að komast á 100 km lista karla þarf að hlaupa undir 9 klst, Til að komast á karla listann í sex tíma hlaupa þarf að hlaupa meir en 75 km o.s.frv.
miðvikudagur, mars 19, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Nú, í versta falli (þeas ef krónan verður verðlaus) þá lætur maður sér nægja að keppa hérlendis (stórgróska í hlaupunum framundan), kaupir íslenskt, tekur slátur á haustin og fær sér kannski geit eða rollu í garðinn til búdrýginda. Fátt er svo með öllu illt...
:)
Bibba
Skrifa ummæli