Marsmaraþonið var í dag. Veðrið var fallegt þegar horft var út um gluggann í morgun, glæsilegt gluggaveður. Það var mallaður hefðbundinn morgunmatur, hafragrautur með viðbættum speltflögum, hunangi, rúsínum, skyri, omega 3 - 6 - 9 olíu og kanel. Blanda sem bregst ekki. Síðan var tekinn góður slurkur af Formúlu 1 Herbalife hristing. Eftir að hafa gert klárt skokkaði ég niður í Elliðaárdal þar sem hlaupið hófst. Jóatjald hafði verið sett upp og Jói var mættur með allskonar viðurgjörning en myndarskapur hans hefur sett nýja vídd í hlaup sem þessi. Þáttakendur í 3ja og 6 tíma hlaupinu sl. haust minnast þess enn með þökk í hjarta þegar aðkoma hans með tjaldi og gottgörelse gerði í raun mögulegt að framkvæma hlaupið þar sem veðrið var eins og andskotinn þann ágæta dag.
Stefán Örn kom hlaupurum af stað með skoti úr góðri haglabyssu. Þar sem rásmarkið liggur tiltölulega langt frá mannabyggð er vonandi að það hafi ekki raskað svefnró morgunsvæfra en maður veit aldrei hvað getur gerst á síðustu og verstu tímum. Í upphafi voru miklar heitstrenginar hjá mönnum um að fara hægt, taka það rólega og gefinn upp ákveðinn tími sem menn ætluðu að stilla sig inn á. Þessi góðu áform héldu langleiðina vestur á Ægissíðu en svo fór að togna úr hópnum. Bjarti morguninn reyndist einnig búa yfir nokkrum strekking og þar sem hitinn var rétt um frostmark þá var eiginlega aldrei hlýtt. Við snúninginn vestur á Ægissíðu slitum við Svanur okkur frá annars góðum hóp og lulluðum áfram á okkar takti. Mér leið afskaplega vel í hlaupinu og hef sjaldan farið í gegnum maraþon eins átakalítið og afslappað sem nú. Ég minntist haustmaraþonsins þegar ég þrælaðist í gegnum hálft þon orkulaus og sporþungur og hundaðist svo heim við svo búið fúll og svekktur. Nú var annað uppi á tengingnum. Tóm ánægja. Við lukum hálfu þoni á þokkalegum tíma sem var allt í lagi miðað við að við ætluðum ekki að fara hratt eða taka innan úr okkur. Vindbelgingurinn var alltaf annað slagið í fangið á hlaupurunum þannig að það var sjaldan sem var verulega þægilegt að hlaupa vegna hans. Við lulluðum þannig áfram í rólegheitum. Þegar fór að nálgast Ægissíðusnúninginn aftur fórum við að sjá að það var farið að hægja á flestum þeirra sem höfðu verið á undan okkur. Vindurinn tók greinilega innan úr mönnum. Við fórum þó ekkert að sperra okkur en héldum okkar jafna hraða. Við drykkjarstöðina á Nauthól á bakaleiðinni tókum við fram úr einum ungum manni sem hafði farið nokkur sporléttur út og héldum við að hann hefði verið í 3ja sæti fram til þessa. Víð tókum því síðasta legginn af nokkurri ákveðni, brutum vindinn fyrir hvorn annan, börðum okkur áfram með frýjunarorðum svo við yrðum ekki hlaupnir uppi og héldum þannig góðum dampi til loka.
Þegar í mark var komið kom í ljós að við höfðum náð 2. og 3ja sæti. Það var krydd paa kakan á annars mjög skemmtilegt og átakalítið hlaup. Tíminn var rétt rúmar 3.38 sem við vorum mjög ánægðir með miðað við að það hafði ekkert verið gert til að búa sig sérstaklega undir hlaupið annað en að æfa undir álagi og hlaupa langt um páskana. Menn gleyma því gjarna í hlaupasamhengi að Svanur Bragason er kominn nokkur ár á sjötugsaldur og vinnur erfiðisvinnu þar á ofan. Hann hleypur iðulega til og frá vinnu sem er um klukkutímaleið hvor leggur. Þannig æfir hann sig oft á virkum dögum. Hann skýtur gjarna sér yngri mönnum ref fyrir rass í hlaupum og svo var í þetta skipti. Hann er magnaður og næsta markmið hjá honum er að fara 100 km hlaup í vor.
Ég man varla eftir hlaupi þar sem ég hef farið eins létt í gegum maraþon, mjúkur og fínn allt hlaupið í gegn. Það hefði verið gaman að takast á við vegalengdina í stuttbuxum í 15 stiga hita og logni þegar við vorum svona brattir við frostmark og í vindbelging.
Í Jóatjaldi var glaumur og gleði, heitt kakó og rjómavöfflur voru serveraðar og síðan var boðið upp á fromage í eftirrétt. Þvílíkir höfðingjar sem þar voru á ferð.
Að lokum voru verðlaun afhent og fjöldi útdráttarverðlauna dreginn út. Lengi vel leit út fyrir Glennurnar ætluðu að taka þau öll (eða þannig) en svo fór að flott ostakarfa lent í höndum undirritaðs sem lokapunktur á fínan dag. Takk fyrir mig.
laugardagur, mars 29, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Til hamingju með þetta! Glæsilegur árangur við þessar aðstæður! Fór sjálfur 18 km í morgun og miðaði hægt móti norðanáttinni. Hefði alls ekki verið brattur í heilu þoni í svona strekkingi og kulda!
Já glæsilegt hlaup Gunnlaugur, til hamingju og gaman að heyra hvað þetta hefur rúllað létt:-)
Einn spurning, fékkstu þér rjómavöfflur?:-)
Fékk mér bæði rjómavöfflur og kók. Afturvirk sukkjöfnun.
Skrifa ummæli