laugardagur, janúar 03, 2009

Eitt af áramótaheitunum er að fara heilt maraþon á hverri helgi ef nokkur möguleiki er á því. Með því er farið í fótspor Neils frá fyrra ári en hann lék sér að þessu eins og að drekka vatn. Ég ætlaði út um 6.30 í morgun en þá rigndi heil ósköp svo ég hallaði mér aðeins aftur. Fór af stað 7.30 og hitti Jóa, Stebba og Sigurjón við brúna yfir Kringlumýrarbraut. Við fórum hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg og svo til austurs og að brúnni aftur. Jói og Kristín buðu í morgunkaffi svo ég hélt til baka og fór í sturtu áður en sest var að morgunkaffinu. Samtals gerði dagurinn 28 km. Geri atlögu að áramótaheitinu á morgun.

Það er alltaf pirrandi að heyra af fólki sem er hundóánægt yfir því að einhverjir aðrir en það sjálft borgi ekki reikningana fyrir það. Nú eru einhverjir Skagamenn hundfúlir yfir því að þurfa að borga 60 þúsund kall fyrir níu mánaða strætókort ofan af Skaga í bæinn. Það er náttúrulega auðvitað svo að ef þú átt tvo valkosti eða fleiri þá velur þú þann sem kemur best út fyrir þig. Ef strætóinn er of dýr þá fara menn með bíl. Ef strætó kostar minna og passat vel á velja menn hann. Skoðum þetta aðeins nánar. Ef maður vinnur í bænum en býr uppi á Skaga þá fer maður cirka 180 sinnum í bæinn á 9 mánuðum (20 vinnudagar í mánuði að jafnaði). Það gera 180 ferðir á 9 mánaða tímabili. Það gerir 333 krónur á dag fyrir báðar leiðir.
Ofan af Skaga í bæinn eru ca 100 km báðar leiðir. Ef maður er á bíl sem eyðir 10 l á 100 km þarf maður að borga um 1.400 kr í bensín fyrir túrinn. Maður getur áætlað annan kostnað við rekstur bílsins að jafnaði svona annað eins (tryggingar, dekk, viðhald, smurningur). Það gerir 2.800 í daglegan rekstur. Ef bíllinn kostar 1.0 milljón og er afskrifaður á 10 árum þá er það um 500 kall á ferð (gróft reiknað). Ég veit ekki alveg hvað kostar í göngin en það er kannski 250 kall aðra leiðina með árskorti. Það er þá 500 kall á dag. Samtals kostar það því ca 3.800 krónur fyrir hverja ferð að sækja vinnu ofan af Skaga á meðal einkabíl. Það er því ekki minna en 10 sinnum ódýrara að sækja vinnu til Reykjavíkur ofan af Skaga með strætó heldur en að keyra sjálfur miðað við það gjald sem Strætó innheimtir. Þetta er vitaskuld grófur útreikningur en gefur þó til kynna hvaða stærðir eru hér á ferðinni. Engu að síður er verið að tuða og sviðra yfir því að aðrir skattgreiðendur borgi ekki enn meira af strætókostnaðinum.

Mér fannst kominn tími til að íslendingar áttuðu sig á því að það kostar meir að keyra langa leið heldur en það kostar að keyra stutta leið. Þessari staðreynd hafa útlendingar fyrir löngu áttað sig á en þetta virðist vera nokkuð ný sannindi hérlendis. Meir að segja virðist það vefjast svolítið fyrir einhverjum ennþá. Að lokum má minna á að íbúðarhúsnæði er nokkuð ódýrara uppi á Skaga heldur en í bænum svo þar er ótalinn ávinningur sem eykur hag viðkomandi enn meir.

Mótmæli eru mjög eðlileg og nauðsynleg í því ástandi sem ríkir í samfélaginu i dag. Þau geta þróast í allar áttir og báðir aðilar þurfa að vera viðbúnir hinu versta. Það er bara þannig. Mér finnst hins vegar vera fyrir neðan allar hellur að setja átta ára gamalt barn upp á ræðupall og láta það fara þar með einhverja þulu. Svona gerir fullorðið fólk sem kallar sig ábyrgt bara ekki.

Engin ummæli: