laugardagur, janúar 17, 2009

Fór út rúmlega 6.30 í morgun. Fínt veður, hægviðri og hitinn um frostmark. Ég fór Powerade hringinn og síðan út Fossvoginn. Hitti Jóa við brúna en aðrir voru fjarstaddir. Við vorum hefðbundinn hring vestur úr og síðan inn í Laugar. Þaðan inn í Elliðaárdal og síðan út í Nauthólsvík. Þar snerum við við og héldum heim. Færið var fínt, það hafði snjóað ofan í hálkuna svo svellið var hraunað. Kom heim langt gengið í 11. Alls voru 42 km skildir eftir svo laugardagsmarkmiðið er komið í hús þessa helgina. Margt fólk á hlaupum þegar leið á morguninn.

Fréttir af því að bílar sem teknir eru af fólki vegna þess að það getur ekki borgað af áhvílskuldum séu seldir einhverjum og einhverjum fyrir slikk eru ekki beint skemmtilegar. Málum er hagað þannig að bíleigandinn fyrrverandi fær lítið upp í skuldina og situr eftir í súpunni. Vitaskuld hafa ýmsir hagað sér gáleysislega við að skuldsetja sig upp í rjáfur við að kupa bíl á erlendum lánum. Það réttlætir það ekki að þeir séu allt að því rændir með því að bílarnir eru seldir fyrir slikk svo skuldin stendur að mestu eftir en bíllinn farinn. Í ástandi eins og ríkir í dag sem er mjög langt frá því að vera normalt þyrfti einhver að gæta hagsmuna þess fólks sem missir tökin á atburðarásinni svo það sé ekki rúið inn að skyrtunni umfram það sem eðlilegt má teljast. Það er óþarfi að gefa óprúttnu liði algerlega lausan tíminn því það þrífst oft best í svona ástandi.

Egill Ólafsson, forsvarsmaður þrýstihóps um byggingu tónlistarhúss, ritar lærða grein í Moggann í morgun. Hann er að tína til rök sem eiga að hvetja borg og ríki til að drífa í að ljúka bygginu skrýmslisins sem stendur óklárað niður á hafnarbakka eins og minnisvarði um allt sem var svo mikið 2007. Hann barmar sér mikið yfir aðstöðunni ´fyrir Simfóníuhljómsveitina í Háskólabíói og segir meðal annars að ef hljómsveitin komist í almennilegt húsnæðí muni tónleikum og áhorfendum fjölga og erlendir snillingar muni ekki lengur snúa við í dyrunum þegar þeir sjá og heyra aðstöðuna. Í greininni kemur fram að tónleikahúsið í Birmingham á Englandi sé álíka að stærð og umfangi eins og húsið fyrirhugaða við hafnarbakkann. ég gogglaði Birmingham og þar kemur fram að í Birmingham búa 2.3 milljónir mannaeða rúmlega 7 sinnum fleir en á landinu öllu. Á höfuðborgarvæðinu búa um 180 þúsund manns. Birmingham er því um 12 sinnum fjölmennari en höfuðborgarsvæðið. Þetta kemur ekki fram í grein Egils en segir betur en margt hvað þessi tónlistarhússbygging var frá upphafi til enda alveg kolþreifandi geggjuð. Svo er ég alveg viss um að utan um tónlistarhúsið í Birmingham er ekki glerhjúpur eins og fyrirhugað er hér. Hann einn kemur til með að kosta fleiri milljarða. Hvernig ætli hann líti út í norðanskælingnum þegar sjórokið mattar glerið? Hvernig ætli sé að þrífa ósköpin? Það er orðin nýlunda ef byggt er hús á Íslandi sem heldur vatni og vindum. Með hliðsjón af því er hæpið að tryggt sé að það leki hvergi með samskeytum. Þetta er allt á sömu bókina lært.


Skörin er svolítið farin að færast upp á bekkinn þegar mótmælendur eru farnir að mótmæla hverjir öðrum.

Engin ummæli: