fimmtudagur, janúar 15, 2009

Það var frekar vont að hlaupa í morgun, hált og varasamt. Annars hefur veturinn verið býsna góður. Það er ekki hægt að kvarta yfir honum, yfirleitt bæði veðurgóður og snjóléttur. Ég reyni að halda þessu róli með um 100 km áviku út mánuðinn og svo fer ég að herða heldur á því. Ég sá á heimasíðu Geirs Fryklund, norsk félaga míns frá Grikklandi, að hann ætlar bæði að hlaupa 48 klst í Brno í Tékkóslóvakíu í marslok og síðan ætlar hann til Grikklands aftur. Mér líst ekki alveg á að hlaupa í Brno því það er hlaupið innandyra á steingólfi að hluta. Ég held að það sé betra að stika stígana í Borgundarhólmi því þar er stígurinn mjúkur að helmingi til. Það eina sem er ótryggt í Borgundarhólmi er veðrið. Öll árin sem ég hef hlaupið þar hefur farið að rigna daginn eftir hlaupið og stundum mjög mikið.

Laugavegurinn er bara fullur, 300 manns og nokkrir tugir á biðlista. Þetta er flott. Það var eins gott að maður hrökk til í síðustu viku. Sumir voru að velta fyrir sér hvort ætti að lengja hlaupið með því að halda áfram yfir Fimmvörðuháls. Ég held að það sé ekki skynsamlegt og reyndar beinlínis hættulegt. Það er ekkert vit í að ætla þreyttu fólki að fara yfir hálsinn í öllum veðrum og jafnvel niðaþoku. Það væri nær að snúa við og fara til baka upp í Landmannalaugar aftur. Það eru ekki nema svona 15 tímar max eða 110 km. Það er ekkert mál að útfæra það.

Engin ummæli: