fimmtudagur, janúar 22, 2009

Það væri hægt að segja ýmislegt um það sem gerðist í gærkvöldi og nótt niður í miðbæ. Þarna gerðist það sem maður var hræddur við að gerðist. Tiltölulega friðsöm mótmæli breyttust í að drukkinn og dópaður skríll réðst með grjótkasti og annarsskonar ofbeldi á lögregluna sem hefur það hlutverk í samfélaginu að halda uppi lögum og reglu. Ég var með fulltrúa á staðnum þannig að ég er með frásagnir af atburðunum frá fyrstu hendi. Maður getur ekki annað en dáðst að því fólki sem gekk á milli grjótkastaranna og lögreglunnar til að verja hana fyrir meiðslum. Sem betur fer voru nógu margir þeirra sem voru þarna á staðnum með sansinn í lagi. Vitaskuld hafði lögreglan síðan engin ráð önnur en að ná undirtökunum og hreinsa svæðið. Þegar gerð er tilraun til að kveikja í þinghúsinu er mál að linni. Eins þegar skríllinn er farinn að beina grjótkastinu að fótum lögreglunnar vegna þess að þar eru þeir óvarðir. Maður vonar bara að myndir af þeim hafi náðst á öryggismyndavélar og aðrar myndavélar svo eftirmálar fari í eðlilegan farveg.

Það kom ljósmyndari í Kastljós í gærkvöldi og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hafði verið tekinn höndum og kortið í myndavélinni hreinsað vegna þess eins að hann hafði verið við tiltölulega saklausa iðju að sínu mati, að taka myndir af lögreglunni. Eins hefur lögreglan verið sökuð um að beina piparúðanum að ljósmyndurum. Þetta hefur komið ýmsum í opna skjöldi og menn talið sig órétti beitta. Saklausir menn sem gæti hafa verið ég sem fóru í bæinn í þeim eina tilgangi að ná áhugaverðum myndum af sjaldséðum atburðum. En komið hefur í ljós að málið er miklu alvarlegra en svo. Þessar aðgerðir lögreglunnar byggja á ákveðnum forsendum. Byrjað er að dreifa myndum af lögreglumönnum á netinu og upplýsingum um heimili þeirra og fjölskylduhagi. Síðan er hvatt til þess að heimilisfriði þeirra verði raskað að nóttu sem degi. Börnin eru tekin sérstaklega fyrir. Þetta kemur mér ekki að öllu leyti á óvart. Ég sá í sænsku blöðunum fyrir nokkrum árum umræðu um kennslubók fyrir fasistahreyfingar. Ég held meir að segja að ég hafi minnst á hana hér á blogginu. Bókin á uppruna sinn í Bandaríkjunum en hefur síðan vitaskuld drefist um allan heim. Nú er hún aðgengileg á netinu eins og allt annað. Í henni er fasistahópum kennt hvernig eigi að brjóta samfélagið niður og gera það viðkvæmara og auðunnara. Meðal annars er kennt sérstaklega hvernig eigi að veikja löggæslu og dómarastéttina. Það er fyrst og fremst gert með því að ógna fjölskyldum þeirra. Glæpamennirnir láta þá vita að þeir þekki fjölskylduhagi þeirra út í ystu æsar. Þeir geti þannig gert það sem þeir vilji gagnvart fjölskyldunni ef dómur eða lögregluaðgerð verður glæpamönnunum mótdræg. Vitaskuld kemur þetta til Íslands eins og allt annað. Þess vegna skulu áhugaljósmyndarar átta sig á að það er ekki sjálfsagður hlutur að þeir geti verið að þvælast við tærnar á lögreglunni endalaust, myndandi allt og alla þegar hún stendur í slagsmálum. Lögreglan veit ekki hverjir úr hópi ljósmyndaranna er þarna í annarlegeum tilgangi. Því telur hún öryggara að meisa þá alla. Þannig er þetta nú bara. Bardagi við lögregluna er ekkert gamanmál.

Engin ummæli: