föstudagur, janúar 23, 2009

Það voru mikil tíðindi og ill sem voru birt í dag. Það er alltaf mikil frétt að forsætisráðherra landsins skuli þurfa að stíga til hliðar vegna veikinda. Að það skuli gerast við aðstæður eins og ríkja í þjóðfélaginu um þessar mundir gerir það enn dramatískara. Það er hins vegar mjög skiljanleg ákvörðun hjá Geir Haarde að hann skuli draga sig í hlé við þessar aðstæður. Góð heilsa er eitt það dýrmætasta sem hver maður á. Þegar hún lætur undan þá er eðlilegt að menn beini öllum sínum kröftum í þá baráttu að endurheimta hana. Stundum tekst það, stundum ekki. Honum fylgja bestu óskir og utanríkisráðherra sömuleiðis.

Vanhugsuð ummæli forsvarsmanns mótmælafundanna á Austurvelli dæma sig sjálf. Það velur enginn tímasetningu á veikindum sínum. Að kasta því fram að það sé eitthvað PR jippó er svo raunveruleikafirrt að það er varla að hægt sé að minnast á það. Það er hins vegar því miður svo að það er oft stutt á milli pólitískrar andstöðu og persónulegrar andúðar. Þegar svo er komið eiga menn að fara að vara sig. Við skulum ekki gleyma því að bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar voru myrt. Það gerðist í landi þar sem menn töldu einn af meginkostum þess vera að æðstu stjórnmálamenn gætu gengið óáreittir um meðal almennings. Svo reyndist ekki vera.

Ég fór í bíó í vikunni og sá myndina um Sólskinsdrenginn. Hún var mögnuð. Hún var sýnd í allstórum sal í Smáralindinni og hann var langt í það fullur. Ég veit ekkert um einhverfu og hvaða aðferðir eru taldar bestar og nútímalegastar. Það var hins vegar stórkostlegt að sjá hvernig var hægt að brjótast inn úr múrnum sem virðist umlykja þessa einstaklinga. Fullorðnir einstaklingar sem geta ekki sagt eitt einasta orð og hefðu fyrir nokkrum áratugum verið taldir algerir vanvitar geta tjáð sig hratt og örugglega með aðferðinni sem indverska konan, sem kemur fram í myndinni, hefur þróað upp. Skynjun þessara einstaklinga er allt önnur en okkar. Að sumu leyti miklu minni en að öðru leyti miklu meiri og sterkari.

Ég ætla ekki að rekja það sem ég sá frekar en mæli með þvi að fólk taki tíma í að sjá þessa mynd. Hún er okkur öllum hollt áhorf og því fólki til mikils sóma sem að henni stóðu.

Engin ummæli: