þriðjudagur, janúar 20, 2009

Ég sá á Bæjarins Besta í dag að Reykhólahreppur ætlar að halda Haustlitahlaup síðustu helgina í ágúst. Það er gaman að því að þessi litla hugmynd ætlar að verða að öðru og meira. Það er náttúrulega fyrst og fremst Ingólfi Sveinssyni að þakka sem dreif fólk vestur, hafði samband við hreppinn og var á allan hátt prímus mótor í helginni. Svona grjótpálar eru nauðsynlegir. Ef hann hefði ekki komið til skjalanna þá hefði ég farið vestur í kyrrþey og hlaupið þetta með annan strákinn með mér til að lóðsa bílnum. Við höfðum öll afar gaman því að kynnast strandlegjunni milli lundanna á annan hátt en að renna hana í bíl eins og maður er vanur. Það góða við svona hlaup er að það getur hver sem er útsett sitt hlaup á eigin forsendum. Án þess að ég ráði nokkru þar um þá er t.d. eitt dæmi um útfærslu að sá sem hleypur a.m.k. hálft maraþon hvorn dag fái brons viðurkenningu, sá sem hlaupi a.m.k. heilt maraþon hvorn dag fái silfur viðurkenningu og sá sem hleypur alla leiðina fái gull viðurkenningu. Viðurkenningarnar má útfæra á ýmsan hátt og skemmtilegast er ef það væri gert á forsendum heimamanna. Svona geta allir fengið verkefni við sitt hæfi, tekist á við aðeins meiri verkefni en þeir eru vanir og skemmt sér vel í leiðinni. Aðstaðan í Djúpadal er fín, sundlaug og heitur pottur. Þar er hægt að elda í herberginu, tjalda við laugina eða setja upp tjaldvagna. Þarna eru á ferðinni allar forsendur til að setja upp skemmtilega helgi.

Bryndís Svavardóttir er búin að skrá nafn sitt í hlaupasöguna hérlendis með því að verða fyrsti íslendingurinn til að hlaupa 100 maraþon. Það er flott hjá henni. Það er miklu erfiðara að ná þessu marki hér heldur en í nálægum löndum vegna þess hve fá maraþon eru haldin hér og það er dýrt að fara til annarra landa að hlaupa. Þetta hefst hins vegar með eljunni. Gaman að þessu.

Ég sá á blogginu hennar Evu að einhver umræða hafði farið af stað meðal einhverra um Laugaveginn og að "alvöru" hlauparar hefðu ekki komist að, þá líklega fyrir minni spámönnum. Nú er ákveðið fyrirkomnulag í gangi, opnað fyrir skráningu og síðan er "fyrstur kemur fyrstur fær". Það er ákveðin aðferðafræði og allt í lagi með það. Önnur aðferðafræði er að hafa lottó eins og í Western States. Það er líka í lagi. Hingað til hefur ekki verið takmarkaður aðgangur í hlaupið með kröfum um lágmarksárangur s.s. að hafa hlaupið maraþon. Það er í sjálfu sér ekki þörf á slíku nema ef það fer að verða vandamál að of stórt hlutfall hlauparanna komist ekki alla leið innan tilskilins tíma. Það kemur bara í ljós. Ég man ekki til þess í fyrra að það væri til vandræða. Ef sú fer að verða raunin þá má gera tvennt. Í fyrsta lagi að hafa sigti við Álftavatn. Þeir sem ekki komast þangað á lágmarkstíma eru stoppaðir og keyrðir til byggða. Annað sigti er svo við Emstrur. Það getur leitt til vandræða ef þarf að lóðsa of marga frá Emstrunum. Ef stærstur hluti hlauparanna nær á leiðarenda þá er það bara fínt. Maður sá það í London maraþoninu að það er þetta venjulega fólk sem ber uppi hlaupið og þarlendir báru mikla virðingu fyrir því. Að lokum er rétt að árétta að það á að láta Þórð, Eið og Pétur Vald. hlaupa í sérstökum heiðursvestum. Þau geta verið t.d. nr. 0, 00 og 000. Sá sem hefur hlaupið öll hlaupin á skemmstum tíma samanlagt fær nr 0 o.s.frv. Þeir eiga allan sóma skilið fyrir að hafa mætt í öll hlaupin og eru góðar fyrirmyndir um þrautseigju og úthald.

Engin ummæli: