miðvikudagur, janúar 07, 2009

Meðal indíána í Ameríku hér áður fyrr var ein refsing sem var öllum verri. Henni var einungis beitt við þá sem frömdu allra verstu glæpina innan ættbálksins. Dómurinn var á þá lund að viðkomandi voru ekki til. Það talaði enginn við þá eftir að dómurinn var fallinn. Það horfðu allir í gegnum þá. Jafnvel hundarnir migu ekki utan í þá. Þessir einstaklingar vesluðust yfirleitt upp og dóu innan mjög skamms tíma. Svona tilvera var ómöguleg.
Nú veit ég ekki hvort bankastjórinn fyrrverandi sem hefur farið að stunda skokk á seinni árum hefur fundið fyrir þeirri tilfinningu að hann væri ekki til í augum fjöldans þar sem hann stóð einn bak við súlu við Ráðhúsið á gamlársdag að afloknu hlaupi að sögn ritarans og átti sér viðhlægendur fáa. Alla vega hefur honum þó þótt ástæða til að gera tilraun til að verða gildur limur í samfélaginu á nýjan leik. Fyrst með aflátsbréfi í Fréttablaðinu rétt nýlega og síðan með aflátsgreiðslu sem skýrt var frá í sjónvarpinu. Sigmar stóð sig vel sem spyrill í Kastljósinu sem endranær og gaf hvergi eftir. Sama hvað sökudógurinn iðraðist beisklega. Sem betur fer hefur þetta pr trix ekki heppnast. Bréfið var aumt yfirklór og hin svokallaða endurgreiðsla var lítið meir en hluti af gengishagnaði af fengnum sem hefur skilað sér í hús á liðnum mánuðum vegna gengishruns krónunnar. Ofan í kaupið hefur komið í ljós að ríkissjóður greiðir um 1/3 af aflátsgreiðslunni. Það setur varla verri hroll að þjóðinni á þessum vikum en þegar útrásarvíkingar segjast tilbúnir til að hjálpa hnípinni þjóð í vanda. Ég held að það sé rétt að hafa það á hreinu að útrásarvíkingarnir svokölluðu eru ekki til í augum fjöldans. Ég efast um að hundar mígi utan í þá.

Í þessu sambandi þá er rétt að spyrja hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það frétt að Hreiðar Már og annar Bakkavararbróðirinn séu að fara til Suðurskautslandsins eitthvað að spássera og ferðin kosti 3.5 millj króna á haus. Hvaða fréttamat er þetta eiginlega? Er verið að nugga óhroðanum viljandi framan í þjóðina eða er fréttastjórnunin svona stjúpit? Eru þeir frægir landkönnuðir, náttúrufræðingar eða þekktir ljósmyndarar. Má vera en ég hef ekki heyrt af því. Eða eru þeir einfaldlega ríkisbubbar sem vita ekki aura sinna tal og eru að eyða prómilli af vöxtunum. Það er fínt að vita að Hi Lux jeppar sem breytt hefur verið af íslendingum skuli taka öðrum farartækjum fram á Suðurskautslandinu. En hvort þeir félagar séu að vappa um á Suðurskautslandinu eða á Kinamúrnum eða einhversstaðar annarsstaðar skiptir venjulegt fólk í þessu landi bara engu máli?

Á norska hlaupavefnum www.kondis.no/ultra er linkur á íþróttaþátt í sænska sjónvarpinu. Þar er viðtal við Mathias Bramstang og Andreas Falk. Markmið þeirra fyrir næsta sumar er að hlaupa frá syðsta odda Ítalíu til nyrta odda Svíþjóðar. Það er rúmlega 4300 km. Túrinn tekur svona tvo mánuði. Þeir hlaupa að jafnaði 70 km á dag. Með þeim félögum eru norðmennirnir Eiolf Eivindssen og Trond Sjovik ásamt fleirum. Ég kannast vel við Mathias. Hann var á Borgundarhólmi í hitteðdfyrra og síðan var hann í Grikklandi í haust. Svíarnir báðir eru öflugir hlauparar. Þeir hlupu báðir þvert yfir Frakkland í sumar ásamt Eiolf og Trond og fleirum. Þeir verða á launum hjá sænska hernum á meðan á hlaupinu stendur. Það er sá stuðningur sem heimalandið veitir þeim. Ætli Across USA verði ekki æst.

N.B. Viðtalið við Svíana birtist í íþróttaþætti sænska sjónvarpsins. Svíarnir eru komnir þetta lengra á þróunarbrautinni en íslenskir íþróttafréttamenn. Þeir hafa viðurkennt ultrahlaup sem íþrótt. Hérlendis er það sett á sama bás og heyskapur og vegagerð.

Engin ummæli: