laugardagur, janúar 24, 2009

Mikil umræða fer nú fram í samfélaginu um stjórnkerfið og skipan þess. Meðal annars er rætt um fyrirkomulag kosninga til Alþingis. Það er nýlunda því umræða um fyrikomulag lýðræðisins hefur verið afskaplega máttlítil á undanförnum áratugum. Stjórnmálaflokkarnir hafa staðið saman um að kæfa niður umræðu eða vangaveltur um kosningafyrirkomulagið. Þeir vita hvað þeir hafa og vilja ekki breyta því. Það er skiljanlegt því fyrirkomulagið er hagfellt þeim sem sitja á þingi. Á listana er raðað á tvennan hátt. Annars vegar með svokalaðri uppstillingu en hins vegar með prófkjöri. Prófkjör geta verið lokuð fyrir aðra en flokksmenn en síðan geta þau verið galopin. Fyrir mörgum er það hámark lýðræðisins. Í mínum huga er það versta öfugmæli. Uppstilling er sitjandi fulltrúum hagfellt. Það gerist varla að sitjandi þingmanni sé hafnað í uppstillingu. Ég man alla vega ekki eftir því. Sá sem efstur er á listanum er því öruggur á þing ef listinn fær á annað boð mann kjörinn. Prófkjör hafa verið iðkuð af miklum móð undanfarna áratugi. Þau voru fyrst tekin upp að einhverju marki fyrir kosningarnar 1978 þegar Alþýðuflokkurinn sálugi var að berjast fyrir lífi sínu í enn eitt skiptið. Þá var það talið hámark lýðræðisis að allir gætu komið að því að raða á listann. Herbragðið heppnaðist giska vel. Siðan hafa komið í ljós miklir vankantar á þessu fyrirlkomulagi. Fólk getur kosið í prófkjörum margra flokka og tekur því þátt í að raða á lista víða. Frægast er dæmið um þegar kosningabærir íbúar þorps úti á landi fjölmenntu í öll prófkjör í kjördæminu til að kjósa sína fulltrúa inn á lista flokkanna. Það gekk fyllilega upp. Flokksmenn eyða oft miklum fjárhæðum í keppni við samherja sína um að komast í örugg sæti á listum. Þetta fyrirkomulag skilur oft eftir sig mikil sárindi meðal samherja sem tekur oft langan tíma að gleyma. Þar fyrir utan hefur mismunandi aðgengi að peningum mikil áhrif á hverjar eru líkur á framgangi í prófkjöri. Er það lýðræði? Spyrja má hvað vilja þeir fá í staðinn sem leggja mikla fjármuni til að tryggja stöðu ákveðins einstaklings á lista til Alþingiskosninga. Fram hjá svona spurningum þýðir ekki að ganga. Alla vega ekki í þessu litla sæta en dálítið spillta Íslandi.

Það hefur ekki tekist að fá umræðu að neinu marki um núverandi kosningafyrirkomulag og hvernig valið er á lista til Alþingis. Það er eins og það sé allstaðar annarstaðar gert eins og hér og ekkert sé af öðrum þjóðum að læra. Dæmigerður íslenskur sjálfbirgingsháttur eða heimalingsháttur. Ég ætla að nefna tvö dæmi um annað fyrirkomulag á kosningum til Alþingis. Það rifjast síðan upp í þessu sambandi að ég varð aldrei var við einhverja prófkjörsbaráttu þegar leið að kosningum þegar ég bjó erlendis. Hvorki í Svíþjóð eða Danmörku.

Í Danmörku er fyrirkomulagið á þann hátt að á framboðslista til Alþingis er raðað ákveðnum fjölda fólks af uppstillingarnefndum flokkanna. Þeim er raðað á kjörseðilinn í stafrófsröð. Kjósandinn merkir við (krossar) annaðhvort við listabókstaf flokksins eða einhvern frambjóðenda. Að kvöldi kjördags þegar talningu er lokið þá er gefið út hve marga þingmenn hver flokkur ehfur fengið kosna til þings en það liggur fyrst fyrir eftir tvo til þrjá daga hvaða fulltrúar hafa verið kosnir af hverjum lista. Kjósendur velja því sjálfir á kjördag hvaða fulltrúar sitja á Alþngi fyrir flokkinn. Menn spyrja gjarna hvað gerist ef bara einn frambjóðandi fær kross. Svona lagaðar mótbárur er bara bull því það gerist aldrei. Það má alveg eins spyrja hérlendis hvað ef enginn flokkur fær neitt atkvæði. Það bara gerist ekki.

Finnar ganga enn lengra en markmiðið er það sama. Kjósendur hafa afgerandi áhrif á hvaða fulltrúar sitja á þingi fyrir hvern þann flokk sem býður fram fulltrúa til þingsins. Í Finnlandi eru frambjóðendur settir fram í stafrófsröð eða í tilviljunarröð (random) á kjörseðilinn. Hver frambjóðandi fær sitt númer. Kjósandinn skrifar númer þess frambjóðenda sem hann kýs í ákveðinn reit. Bara eitt númer. Sá er fyrst kjörinn fyrir hvern flokk sem fær flest atkvæði og svo koll af kolli. Kjósendur hafa þannig afgerandi áhrif á hvaða fulltrúar sitja á þingi fyrir flokkana. Þetta er alvöru lýðræði. Það setur pressu á sitjandi þingmenn. Kjósendum er ekki réttur tilbúinn matseðill eins og hér og svo er sagt; Værsaago og spis.

Það er kominn tími til að hér fari fram alvöru umræða um hvaða fyrirkomulag sé farsælast við kosningu á alþingismönnum. Það fyrirkomulag sem við höfum notað fram til þessa er hvorki lýðræðislegt né skilvirkt.

Engin ummæli: