fimmtudagur, janúar 08, 2009

Þau eru fín viðtölin sem hafa birst við Bibbu og Evu á síðustu dögum. Þær unnu báðar flott afrek á síðasta ári. Bibba tók 100 km hlaup og Ironman en Eva var eiginlega ósigrandi í flestum hlaupum hérlendis í kvennaflokki, hvort heldur það var 5 km hlaup eða Laugavegurinn. Nú væri þetta svo sem ágætt ef þær væru sjóaðar keppnismanneskjur til margra ára, harðnaðar af áralöngum æfingum. en svo er ekki. Báðar fóru fyrst að hreyfa sig sem eitthvað hét eftir aldamótin. Smám saman vatt þetta upp á sig og ný og ný markmið fóru að líta dagsins ljós. Það er ekki látið staðar numið fyrr en þær eru komnar í hóp afrekskvenna, fyrirmynd margra annarra. Það eru svona frásagnir sem eiga mikið erindi til annars fólks. Ég segi fyrir mína parta að ég þurfti að skoða myndirnar af Evu oftar en einu sinni þegar ég sá þær fyrst. Maður þekkir mörg fleiri dæmi þess að markviss hreyfing og hinn góði félagsskapur sem myndast í kringum hina fjölmörgu hlaupahópa hefur gjörbreytt lífi fólks til hins betra.
Þetta hefur smám saman undið upp á sig og götuhlaup eru nú orðin almenningseign en ekki áhugamál nokkurra sérvitringa. Nær 800 manns í gamlárshlaupi ÍR var stórkostlegt. Fjölmiðlamönnum og ekki síst íþróttafréttamönnum ber skylda til að vera vel vakandi yfir því sem er að gerast í þessum málum því þessar fréttir eiga erindi til svo margra sem eru að hugsa og spekúlera en hafa kannski ekki alveg kjark til að taka fyrsta skrefið. Hvað ætli fréttirnar af Evu og Bibbu hafi ekki mikið meiri áhrif inn í samfélagið heldur en endalausar tuggur um erlenda ofurlaunamenn? Nú hef ég alla ævi haft gaman af því að fylgjast með íþróttum en maður er farinn að horfa á hlutina í svolítið öðru ljósi síðustu árin.

Það er mikið skrifað um ástandið á Gaza svæðinu og árásir Ísrelsmanna á Palestínumenn. Haldnir eru mótmælafundir og utanríkisráðherra fordæmir ástandið. Það er hvatt til þess að stjórnmálasambandi við Ísrael sé slitið og vörur þaðan séu ekki lengur keyptar í verslunum. Fjölmiðlar birta fréttir af hörmungunum og viðtöl af miklum móð. Kvöld eftir kvöld er sýnt myndefni í kvöldfréttum sjónvarps sem fólki er ráðlagt að horfa ekki á. Þannig mætti áfram telja og er í raun allt gott aðs egja um að það sé vakin athygli á þvi sem er að gerast á Gaza svæðinu. Ekki skal ég heldur gera lítið úr þeim hörmungum sem ríkja meðal Palestínumanna á Gaza svæðinu. Fleiri hundruð eru látnir og þúsundir særðar.
En það er víðar sem hörmungarnar eru til staðar og í nokkuð stærri skala. Í Darfur héraðinu í Súdan hefur geysað grimmileg borgarastyrjöld árum saman. Þar hafa hundruðir þúsunda verið drepnir á undanförnum árum. Konum og stúlkubörnum er þar fyrir utan nauðgað skipulega og hægt er að tala um þjóðernishreinsanir í stórum skala. Maður verður hins vegar ekki var við marga útifundi vegna þessa ástands. Fréttir eru sagðar frá ástandinu í Darfur héraðinu af og til í svona svipuðum dúr eins og þegar er verið að segja frá berjasprettu á Norðurlandi. Það sem er að gerast í Darfur virðist svo sem ekki skipta miklu máli á okkar slóðum. Hvers vegna skal ég ekki um segja.
Það er svo varla að maður þori að minnast á það sem gerðist í Ruanda á síðasta áratug síðustu aldar. Þar voru um 800.000 manns drepnir. Ár stífluðust vegna hranna af líkum sem hafði verið hent í þær. Maður skyldi halda að það hefði allt logað í aðgerðum aðgerðasinna og mótmælenda um hinn vestræna heim vegna þjóðarmorðsins sem þar átti sér stað. Fréttastofur hafa líklega sent út aukafréttatíma oft á dag vegna þess sem gerðist þar. Kannski svo hafi verið. Ég man það ekki fyrir víst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ takk Gunnlaugur minn. Mér þykir lofið gott :)
Bibba

Nafnlaus sagði...

Það sem betra er, þú átt það skilið.