laugardagur, september 20, 2008

Eiður hringdi í dag og sagði sínar farir ekki sléttar. Hann hafði fengið stóreflis bónvél á annan fótinn sem hafði lemstrað á honum aðra stórutána. Þar með eru öll hlaup fyrir bí í einhverjar vikur. Hann lagði því öll áform um Grikklandsferð á hilluna. Synd því það hefði verið gott að hafa hann með þar syðra og eiður hefði haft gott af því að kynnast aðstæðum upp á seinni tíma landvinninga. Svona er þetta. Það er ekki lengi að gerast. Í fyrra lá við að ég bryti á mér báðar lappirnar þegar stigi rann undan mér á stéttina hér úti. Neglurnar á báðum stórutánum mörðust en það slapp allt til.

Það spáir heldur þokkalega hlaupadagana í Grikklandi. Hitinn verður svona 27° C. Annann daginn gæti rignt svolítið og hinn daginn verður "partly cloudy". Sólin verður því ekki svo brennandi heit eins og í fyrra þegar hitinn lá í 34 - 35°C. Það er mikill munur.

Spartathlon hlaupið byggir á sögu eins og svo mörg þessi stóru hlaup. Í grískri sögu er getið um sendiboðann Pheidippides sem sendur var til Spörtu eftir liðsauka einhevru sinni þegar Aþeningar börðust við Persa. Sagan sagði að hann hefði náð Spörtu á öðrum sólarhring. Árið 1982 voru breskir námsmenn að lesa gríska sögu og rákust á þessa frásögn. þeir fóru að diskútera hvort þetta væri yfir höfuð mögulegt að hlaupa frá Aþenu til Spörtu á einum og hálfum sólarhring eins go sagan sagði. Þeir stikuðu út líklegustu leiðina sem Pheidippides myndi hafa hlaupið og síðan lögðu þeir af stað þann 8. október 1982. Þeir náðu síðan til Spörtu 35 - 40 klst síðar. Staðfest var að sagan stóðst. Árið eftir átti fyrsta formlega Spartathlon hlaupið sér stað og hafa verið hlaupin 25 hlaup síðan. Það 26. í röðinni verður háð eftir viku. Alls hafa 38 norðurlandabúar lokið Spartathlonhlaupinu innan ssettra tímamarka og nokkrir oftar en einu sinni. Finninn Seppo Leionen hefur lokið hlaupinu oftast allra í heiminum eða 15 sinnum en hann hefur tekið þátt í 22 hlaupum. Í fyrra náði hann ekki að ljúka sökum hitans. Mary Larsson, bandarísk kona sem er nú sænskur ríkisborgari hefur lokið hlaupinu 12 sinnum. Ari Mustala hefur lokið því sex sinnum, félagi Eiolf Eivindssen frá Noregi hefur lokið því fimm sinnum og Kim Rasmussen þrisvar. Rune Larsson hefur unnið hlaupið þrisvar og einu sinni orðið annar. Kjell Ove Skoglund hefur lokið því nokkrum sinnum en ég hef ekki tölu á hans hlaupum. Í ár taka 42 norrænir hlauparar þátt í þessu mikla hlaupi og er það langmesti fjöldi frá Norðurlöndum til þessa.

Hlaupið hefst við Acropolis kl. 7.00 á föstudagsmorgun að staðartíma. Það tekur um tvo tíma að hlaupa úr út Aþenu og er það ekkert sérstaklega skemmtilegt í mengaðri morguntraffíkinni þegar óþolimóðir bílstjórar liggja flautunum. Að því loknu er komið niður á strönd og síðan hlaupið um 60 km leið með ströndinni til Korintos. Þá liggur leiðin inn í landið og er hlaupið um vínberjaekrur og gegnum smáþorp þar til fer að dimma. Þá fer leiðin að nálgast hæðir og fjalllendi. Við borgina Lyrkos sem er um 150 km inni í hlaupinu er farið að pjakka upp fjallið. Toppi þess er náð á um 160 km. Leiðin liggur síðan niður á við eftir km 170 og segja margir að það sé enn erfiðara að paufast niður en pjakka upp. Um þetta leyti fer að birta fyrir alla venjulega hlaupara. Að þessu loknu liggur leiðin niður á við í áttina að Spörtu og ef allt gengur upp verður styttu Leonídasar náð fyrir kl. 19.00 á laugardagskvöld. Um helmingur þeirra sem ná innan tilsettra tímamarka koma í mark á síðasta klukkutímanum. Þeir sem reynt hafa segja að það sé stærsta stund hvers hlaupara að ná fram til styttunnar og snerta fót Leonídasar. Maður þvær sér ekki um hendurnar næsta sólarhringinn eftir slíka snertingu!!

Engin ummæli: