sunnudagur, september 14, 2008

Ég held að það hafi verið ágæt hugmynd hjá félögum í UMFR36 að skíra hlaup félagsins Jónshlaup í höfðuð á Jóni heitnum Sigurðssyni. Margir hlauparar muna eftir manninum í hjólastólnum sem kom alltaf í Reykjavíkurmaraþonið og keppti í 10 km eða hálfmaraþoni. Færri þekktu hann og sögu hans og þau miklu afrek sem hann vann fyrr og síðar. Jói var svo hugulsamur að koma með mynd af Jóni í gær sem hann hafði úitbúið. Henni var stillt upp í tjaldinu við hliðina á verðlaunagripunum áður en verðlaunaafhendingin fór fram og síðan síðan var farið nokkrum orðum um hvers vegna við nefndum hlaupið í höfðið á Jóni. Þótt í litlu sé þá er nafni hans haldið á lofti í þessu sambandi meðan að þetta hlaup er haldið.

Ég hef nokkrum sinnum minnst á hvernig mér finnst fjölmiðlar og þaá fyrst og fremst ljósvakamiðlarnir gera lítið úr störfum lögreglunnar og jafnvel æsa til andúðar almennings á störfum hennar. Sérstaklega var þetta áberandi í sambandi við vitleysisganginn í Saving Iceland liðinu en á tímabili virtist sem þau hefðu óheftan aðgang í fjölmiða og ekki síst ríkisfjölðlina þar sem lögreglan var markvisst og síendurtekið sökuð um harðræði. Aldrei kom neitt í ljós sem renndi stoðum undir þessar ásakanir en sama var að þær héldu sífellt áfram. Ef lögreglan þarf að handtaka einhvern bjálfann þá hópast í kringum hana sægur fólks sem myndsíma til að taka myndir af því sem hugsanlega og mögulega er hægt að túlka sem óþarfa ofbeldi. Svo er æpt "lögregluofbeldi", "fasismi" og ég veit ekki hvað. Í ágætri grein í Mogganum í morgun er farið yfir það vinnuumhverfi sem lögreglan vinnur við. Ofbeldismenn sem ráðast á lögregluna og skaða lögreglumenn fá smásektir og að mestu leyti skilorðsbundna dóma. Dómskerfið virðist lifa í einhverjum Hálsaskógi þar sem öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Lögreglumenn búa við það að fjölskyldum þeirra er miskunnarlaust hótað. Sumir sofa með vopn innan seilingar vegna síendurtekinna hótana. Þetta er þekkt í kennslubókum fasistahópa að beina hótunum sínum að fjölskyldum lögreglu og dómara þar sem þeir eru veikastir fyrir. Stefnuleysi og tvískinningur í málflutningi Moggans í þessu efni kemur hins vegar fram á ömurlegan hátt í þessu sama blaði. Í forystugrein blaðsins í dag er nefnilega hnýtt í lögregluna fyrir það að gera húsleit í húsnæði hælisleitenda í Njarðvík. Í forystugreininni er verið að gera lítið úr þessum störfum lögreglunnar og látið að því liggja að hún hafi farið yfir strikið í störfum sínum. Vitnað er í einhvern hælisleitenda sem segir lögregluna hafa komið fram með valdi og virðingarleysi. Fyrir þessum fullyrðingum eru ekki færð nein rök. Í fyrsta lagi er hægt að fullyrða það að íslenska lögreglan er eins og sunnudagaskólakrakkar í sambandi við lögregluna í þeim löndum sem svonefndir hælisleitendur koma frá. Í öðru lagi liggur það ljóst fyrir að ef þarf að gera húsrannsókn þá er hún framkvæmd fyrirvaralaust og af ákveðni. Menn senda ekki boð á undan sér í slíkum erindagjörðum og og spyrja hvort þeir megi kíkja inn. Ef lögreglan hefur síðan fundið sannanir fyrir því að 10 manns hafi verið að villa á sér heimildir og ljúga til um stöðu sína þá er þessi húsrannsókn fyllilega réttlætanleg og ætti að vera framkvæmd svo oft sem þörf er á. Fullyrðingar Moggamanna um að ef röksemdir lögreglunnar um ástæður húsrannsóknarinnar í Njarðvík væru færðar yfir á þjóðfélagið í heild sinni mætti venjulegt fólk búast við löggunni inn á gafl hjá sér hvenær sem verkast vildi eru svo fáránlegar að það tekur ekki nokkru tali og eru þeim til skammar.

Það var nokkur umræða um verðbólguna í síðustu viku í sambandi við ákvörðun Seðlabakans um að halda stýrivöxtum óbreyttum. Mikið var talað um nauðsyn þess að ná verðbólgunni niður. Seðlabankastjóri og forsætisráðherra voru í þeim hópi. Það vakti athygli mína í þessu sambandi að það var ekki minnst á þá gríðarlegu verðrýrnum krónunnar sem hefur átt sér stað á liðnum mánuðum og hélt áfram í síðustu viku. Krónan virðist vera í frjálsu falli. Án þess að ég hafi nákvæmlegar tölur um það þá giska ég á að um 70% af öllum almennum neysluvörum séu flutt til landsins, beint eða óbeint. Þegar verðgildi krónunnar hefur rýrnað um ca 50% á síðustu 12 mánuðum þá getur ekkert annað gerst en að verðlag hækki og verðgildi krónunnar rýrni. Það þarf fleiri krónur til að borga fyrir hverja einingu af innfluttri vöru og það getur ekkert annað farið en beint út í verðlagið. Vöruverð hækkar án þess að kaupgjald hækki. Þetta ástand er kallað verðbólga og afleiðingin fyrir venjulegt fólk er kaupmáttarrýrnun. Menn fá minna fyrir launin sín. Að mínu mati ætti því að vera eitt af forgangsatriðum stjórnvalda að styrkja stöðu krónunnar og freista þess með tiltækum ráðum að draga úr því gríðarlega gengisfalli sem á sér stað. Ef það er ekki hægt þá verða stjórnvöld að vinna út frá þeirri stöðu og leita allra tiltækra ráða að taka upp annan gjaldmiðil ef krónan sé ónýt.

Það hefur komið fyrir hjá stærri þjóðum en Íslandi að gjaldmiðillinn hefur orðið verðlaus. Ég kom fyrst til Sovétríkjanna gömlu árið 1991. Þá kostaði dollarinn um 30 rúblur. Ég kom aftur til Rússlands árið 1992. Þá kostaði dollarinn 300 rúblur. Ég flutti svo til Rússlands árið 1995 og vann þar í tæpt ár. Þá kostaði dollarinn 5.500 rúblur. Árið 1998 varð síðan hrun í rússnesku efnahagslífi. Gjaldmiðillinn var ónýtur. Ég er ekki að segja að þetta gerist hér en ég held að það sé tímabært að fara að átta sig á því hvað krónan megi falla mikið þar til skapist hættuástand. Haldi gengi krónunnar áfram að falla og falla þá mun ekki draga úr verðrýnrun krónunnar, sama hvað Seðlabankinn skrúfar stýrivextina upp. Svo vil ég benda fólki á að lesa fróðlega grein eftir Ragnar Önundarson í sunnudagsblaði Moggans. Hann dregur þar saman á skilmerkilegan hátt yfirlit um þau hagstjórnarmistök sem hafa átt sér stað á liðnum árum.

Tók Ívar í morgun. 15° og hraði upp í 7 - 8. Hélt jafnvel að mælirinn á brettinu hafi verið vitlaus um daginn en þetta stenst allt. Þegar ég byrjaði á Ívari á síðasta vetri fannst mér fullhart að halda hraða um 6 en nú byrja ég á 7 og slæ upp í 8. Svitaprógrammið er einnig strax farið að gera sig.

Engin ummæli: