föstudagur, september 05, 2008

Ég fór á fund í Svavanger í Noregi í ágúst. Fundurinn var búinn á föstudagseftirmiðdegi og fóru þá allir til síns heima nema ég. Ég hafði lesið um Predikunarstólinn í Lysefjorden sem var hinum megin fjarðar þar sem fundurinn var haldinn svo ég notaði tækifærið og var tvo daga til viðbótar. Tók ferjuna frá Stavanger yfir fjörðinn og svo strætó upp að Preikestolhyttan sem er fjallaskáli tæplega klukkutíma akstur frá þorpinu Tau þar sem ferjan leggst að landi. Ég notaði svo tímann til gönguferða um svæðið á föstudagseftirmiðdegi og laugardaginn allann. Mjög fín helgi. Predikunarstóllinn er sérstæður klettahjalli sem er eins og skorinn út úr oststykki. Fjöllin eru úr graníti það ég best þekki og eru hreinir klettar, ekki hjallar, skriður og grjót eins og við þekkjum. Á predikunarstólnum getur fólk sest á brúnina og dinglað löppunum fram af í ca 600 metra hæð. Þegar ég nálgaðist brúnina þá fór eitthvað öryggiskerfi af stað svo ég komst ekki nær henni en svona fimm metra. Það kom því aldrei tilálita að setjast á brúnina og dingla löppunum. Predikunarstóllinn er eitt helsta náttúruvætti Noregs. Þangað koma um 100.000 ferðamenn ár hvert. Þennan dag sem ég dvaldi þarna var stöðugur straumur fólks upp að stólnum enda veðrið gott. Mjög gaman er að sjá hvernig norðmenn hafa byggt upp ferðamennskuna í kringum þennan stað og gætum við lært margt af því. Þá er nærtækast að nefna Landmannalaugasvæðið.
Inni í botni Ljósafjarðar er annað náttúruvætti, Kjeragboltinn. Það er stór steinn sem hefur skorðast í klettasprungu um 1000 metra fyrir ofan sjávarmál. Vinsælt er að fara út á boltann, standa þar með báðar hendur útbreuddar og láta taka af sér mynd. Ofurhugar raða nokkrum stólum hverjum upp á annan og standa svo á höndum uppi á öllu saman. Frá Preikestolhyttan inn að Kjeragboltanum eru 52 km, 104 fram og til baka. Ég gekk frá stólnum inn að Bröttuhlíð sem ber nafn með rentu. Þar hanga forn bændabýli utan í hlíðinni sem er svo brött að það þurfti að tjóðra krakkana meðan þau voru ung svo þau yltu ekki niður túnið og fram af (segir sagan). Bændum búnaðist best ef þeir höfðu mislagna fætur.

Á þessum göngutúr fékk ég hugmynd. Það væri tilvalið ultrahlaup að fara frá Preikestolhyttan, út að Preikestolen og síðan inn í botn Ljósafjarðar og upp að Kjeragboltanum ... og svo til baka. 104 kílómetrar í erfiðu landi, upp og niður. Bara hækkunin upp að Kjeragboltanum er um 800 metrar. Ég skrifaði nýlega út í Preikestolhyttan og spurði hvort einhver hefði gert tekist á við þessa þraut, þ.e. að fara frá Preikestolhyttan að Kjeragboltanum og til baka í einni lotu. Sú sem svaraði mér saði að það hefði enginn gert. Það væri staðfest að einn einstaklingur farið frá Preikestolhyttan, inn í fjarðarbotn og út að staðnum Forsand sem er hinum megin fjarðar en það væri styttra en hitt verkefnið.

Það væri gaman að safna smá liði og vaða í þetta næsta vor um sólstöðurnar. Þá er bjart allan sólarhringinn og engin vandamál með myrkur. Sá hluti leiðarinnar sem ég fór er þannig að það er betra að vera á ferðinni í björtu. Ég geri ráð fyrir að það kallist gott að fara þessa 104 km á einum sólarhring. Þetta er alvöru ultrahlaup. Þó ætti mönnum sem hafa t.d. lagt þrjú lönd umhverfis Mt Blanc t.d. ekki að vaxa svona í augum. Ég hugsa uppleggið þannig að menn myndu fylgjast að inn að Kjeragboltanum til að öruggt væri að allir fengju myndir af sér á honum sem á annað borð þyrðu út á hann. Síðan gæti hver farið á sínum hraða til baka. Það er hægt að kaupa vistir á leiðinni og hugsanlega hæt að senda vistir með áætlunarbátum á nokkra staði í firðinum. Það sem gerir þetta sérstaklega spennandi er að þarna er um að ræða tvo af fjölsóttustu ferðamannastöðum Noregs. Kjeragboltinn er t.d. mjög sóttur af base jump mönnum. Það væri gaman að verða fyrstur til að takast á við svona verkefni í Noregi og sýna heimamönnum hvað hægt er að gera!!

Áhugasamir geta gogglað þessa staði "Preikestolhyttan" og "Kjeragbolten" og fengið smá hugmynd hvernig þetta lítur út. Það eru myndir á myndasíðunni minni frá Preikestolhyttan, Preikestolen og leiðinni inn að Bröttuhlíð. Þar fæst smá hugmynd um hvernig landið liggur á þessum slóðum. Yfirleitt er það upp á rönd. Mér fannst afar gaman að koma á þessar slóðir áf ýmsum ástæðum. Saga héraðsins og sérstaklega hvernig Preikestolhyttan byggðist upp er mjög fróðleg.

Engin ummæli: