fimmtudagur, september 11, 2008

Það er ágæt grein á Kondis, norska hlaupavefnum, um Spartathlon í dag. Fyrir áhugasaman er tilvalið að fríska aðeins upp norskuna og lesa það sem Norðmenn skrifa um þetta mikla hlaup. Linkurinn er hér:

http://www.kondis.no/Ultra/index.php?aid=76805&k=ultra%2Fultra&mid=

Tók 15° Ívar í dag niður í Laugum. Fór strax í 7 og síðan upp í 8. Það er það langhraðasta sem ég hef tekið þessa æfingu á en gekk bara fínt. Æfingin segir fljótt til sín. Þegar ég byrjaði á henni í fyrra fannst manni fullhart að klára hana á 6. Sána eftir æfingu. Það er ekki frá því að manni finnist áhrifin af henni einnig vera að breytast og verða minni. Ég geri ráð fyrir að stunda sánuna stíft þessa 10 daga sem eftir eru fram að brottför.

Eddi var niður í Laugum, nýkominn úr Kölnarjárnkarli. Hann var allbrattur en hafði orðið fyrir því óláni að fá einhvern fjandans bronkítis eða eitthvað slíkt skömmu fyrir keppnina þannig að hann varð að passa sig mjög stíft á því að mæðast ekki. Ef hann hélt sig undir ákveðnum mörkum þá rúllaði þetta þokkalega. Það er ljóst að þessi vel lukkaða hópferð til Kölnar hefur kveikt í ýmsum.

Þegar maður kom út var einhver móttaka á vegum KSÍ í Laugahúsinu vegna landsleiksins að klárast. Mér fannst hálf bjálfalegt að sjá menn streyma þaðan út með bjórflöskur í hendinni á leið yfir á leikvanginn. Glerflöskur og fótboltakappleikir eru ekki æskileg blanda. Afhverju er ekki hægt að servera bjór í plastglösum á svona samkundum. Glerbrot á íþróttasvæði eru óþverri. Hélt að það væri harðbannað að taka bjórflöskur inn á áhorfendasvæðin.

Ég ætla rétt að vona að dómsmálaráðherra taki til hendinni varðandi þá þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum og misserum og varðar vaxandi fjölda af árásum á lögregluna. Það er algerlega óásættanlegt að dómskerfið haldi ekki hlífiskildi yfir lögreglunni. Árás á lögregluna jafngildir árás á réttarríkið. Það er alveg á hreinu að maður sem ræst að lögreglunni myndi ekki losna úr fangelsi næstu misserin í nágrannalöndum okkar. Hér fá svona glæpamenn mánaðarfangelsi, liklega skilorðsbundð. Þetta er náttúrulega bara grín í augum glæpamannanna en mjög skýr skilaboð. Þú mátt lemja lögguna án þess að þér sé refsað. Ef hópur manna ræðst á lögregluna og dómarar segjast ekki geta sakfellt neinn árásarmannanna ef ekki er hægt að skilgreina á óvéfengjanlegan hátt hver greiddi hverjum hvaða högg þá er það bara spurning um að ráðast nógu margir að lögreglunni. Þá er öruggt að enginn verður sakfelldur. Með svona löguðum réttarreglum er bara verið að gera grín að venjulegu fólki.

Engin ummæli: