Við Ingólfur lögðum af stað vestur á föstudaginn í rignigu en það spáði vel yfir helgina. Við höfðum sammælst við Stefán í Búðardal. Meðan við biðum eftir Stefáni þá nutum við veitinga hjá sýslumanninum í stjórnsýsluhúsinu. Hún er góður kunningi Ingólfs og tók á móti okkur af höfðingsskap og var um margt spjallað á meðan á borðhaldinu stóð. Við keyrðum svo vestur í ausandi rigningu og leyst ekki meir en svo á blikuna. Ívar og Jóhanna voru komin vestur að Flókalundi og við kíktum við hjá þeim áður en við héldum út að Rauðsdal þar sem við gistum í bændagistingu. Um morguninn var stytt upp og leit vel út með veður. Við ókum inn að Flókalundi og selfluttum annan bílinn inn að Kjálkafjarðará en þangað eru rúmir 20 km. Jóhanna planaði að hlaupa þangað. Við Flókalund voru myndatökur áður en við lögðum af stað og húsráðendur báðu að heilsa í Klett en þangað ætluðum við að hlaupa. Það er þeirra heimabær. Við hófum síðan hlaup kl. 10.10 og héldum sem leið lá inn í Vatnsfjörð og út fyrir Hörgsnes og Hjarðarnes. Við Stefán og Ívar vorum heldur á undan en Jóhanna og Ingólfur héldu sjó saman. Veðrið var mjög gott, hlýtt, logn og birti þegar leið á daginn. Við vorum á þokkalega góðu tempói og skemmtum okkur vel á leiðinni. berjaspretta er gríðarleg þarna í fjörðunum og var um stund tvísýnt hvort við gætum slitið okkur frá berjunum. Ingólfur og Jóhanna náðu okkur á bílnum þegar við vorum komnir langt út með Kjálkafirði að austanverðu og þar tókum við nestisbita. Síðan sneru þau við og náðu í hinn bílinn en við héldum áfram í góðviðrinu. Það var haldið áfram fyrir nesið og inn Kerlingarfjörðinn. Stefán fór að finna til í vinstri fætinum eftir um 30 km og hann stoppaði við Vattarfjarðarána. Á eiðinu við Múlanesið er komið malbik sem nær alla leið út á Skálanes. Á Vattarnesinu var fólk í berjamó. Við fórum að spjalla við það og þar kom talinu að ein konan var eiginkona Þórbergs frænda míns. Við Ívar vorum komnir upp í hallann við Klettsháls þegar Jóhanna og Ingólfur náðu okkur. Þá vorum við komnir rúma 50 km. Þau höfðu sögu að segja. Staðarhaldarar í Flókalundi höfðu bent þeim á arnarhreiður sem þau horfðu á drykklanga stund og sáu bæði unga og fullorðnu fuglana. Mikilfengleg sjón sem þeim þótti mikið til um. Ívar og Jóhanna sneru nú við og héldu til Þingeyrar. Stefán gekk með mér upp Klettshálsinn til að liðka fótinn. Ingólfur beið uppi á vatnaskilum en ég skokkaði niður langa brekku niður í fjarðarbotn. Þær eru alveg fyrirtak til að æfa löng niðurhlaup. Ég hitti þá félaga við ána og þá var að draga yfir smá rigningarskúr, þá fyrstu á deginum. Við kíktum aðeins við á Kletti til að láta vita af okkur. Þeim þótti allnokkuð til um tiltækið og voru fegin að sjá að þetta hafði gegnið vel fyrri daginn. Við héldum síðan sem leið lá í Djúpaddal en þar gistum við í herbergi sem er áfast við sundlaugina. Þar er eldunaraðstaða og ágæt rúmstæði. Við sátum drykklanga stund í sundlauginni og heita pottinum og horfðum á sjóðheitan lækinn renna niður hlíðina hins vegar við ána. eftir sundlaugarferð tókum við hraustlega til matar okkar en maður var orðinn matlystugur eftir daginn. Fæturnir voru fínir og ekkert sem ábjátaði.
Við vöknuðum upp úr kl. 7.00, borðuðum og gerðum okkur klára. Vorum komnir inn að Kletti vel tímanlega og lögðum af stað á mínútunni 9.00. Við Ingólfur hlupum saman en Stefán gætti bílsins. Hann hringdi í aðalritarann til að frétta af Mont Blanc förum. Þar hafði oltið á ýmsu en mikill hiti var í hlaupinu. Veður var mjög gott þennan dag, sólskin, logn og hlýtt. Við rúlluðum út með Kollafirðinum og út að Skálanesi. það er allnokkur spölur eða um 18 km. Það var gaman að fara þessa leið, fuglar í fjörum og á sjónum, selur lá á steini, rjúpa í kjarrinu, álftir í flæðarmáli, gæsin gaggandi um að menn væru á ferð og berjamórinn fagurblár og svartur. Við Ingólfur vorum samferða inn að brú við Gufudal sem voru um 26 km. Þar skiptu þeir um hlutverk. Ingólfur tók bílinn en Stefán vildi láta reyna á fótinn. Við gengum upp Ódrjúgshálsinn og héldum síðan sem leið lá inn að Djúpadal. Þangað eru 36 km. Þá tekur Hjallaháls við og hann var ansi langur upp á kjöl. Þar borðuðum við og síðan var rúllað niður. Brekkan þar er ekki undir 2 km á lengd og fann maður svolítið fyrir henni. Þarna var farið að sjást í Bjarkalund og var ágætt að sjá að það væri farið að styttast. Við Stefán héldum sem leið lá inn Þorskafjörðinn. Í brekkurótum að austanverðu var nokkur hópur fólks að taka á móti okkur með sveitarstjórahjónin í Reykhólasveit í broddi fylkingar. Það var ánægjulegt að fá slíkar móttökur við leiðarlok. Við héldum svo upp á gamla veginn í fjarðarbotninum og lukum áfanganum í nokkurri hæð yfir þjóðveginum þar sem sást vel yfir fjörðinn. Þegar við vorum svo að segja komnir niður á veg sáum við mann í berjamó. Þegar nær dró kom í ljós að það var Haukur bróðir kominn að sjá hvernig við værum á okkur komnir við leiðarlok og fagna þessum áfanga. Hann kom með okkur heim í hlað á Bjarkarlundi en þar biðu sveitarstjórahjónin Óskar og Sólrún ásamt Ingólfi við hin formlegu hlaupalok. Þennan dag voru hlaupnir 60 km á sjö klukkutímum. Alls tók það fjórtán klukkutíma að hlaupa þessa 125 kílómetra. Leiðin er drjúg með töluverðum brekkum og þremur hálsum. Það var gaman að þessi litla hugdetta skyldi verða að veruleika í svona góðu veðri eins og raun bar vitni. Við Stefán skeltum í okkur einum bjór á hótelinu og síðan var haldið í sund niður á Reykhóla. Óskar sveitarstjóri og Sólrún kona hans buðu okkur í kaffi að afloknu sundi og þar sátum við drykklanga stund við spjall og spekulationir. Ívar og Jóhanna komu einnig við en þau voru á leiðinni suður. Við náðum loks að drífa okkur af stað því það var nokkur leið fyrir höndum. Stefán skildi við okkur í Búðardal en við Ingólfur héldum í bæinn eftir frábæra helgi. Allt hafði gengið upp eins og best var á kosið.
Setti nokkrar myndir inn á síðuna en fleiri myndir eru á myndasíðunni (sjá "Myndir" efst á myndahlekkjunum)
mánudagur, september 01, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til hamingju með þetta Gunnlaugur! Þetta er sko almennilegt viðfangsefni - og frábært að það hafi gengið svona vel. Ekki amalegt að vera í standi til að rúlla 125 km á tveimur dögum upp og niður hálsa, án þess að kenna sér nokkurs meins. Grikkland verður ekkert vandamál!
Skrifa ummæli