Það hefur verið erfitt í Mont Blanc hlaupinu. Mikill hiti setur allt á hliðina fyrir þá sem eru óvanir slíkum aðstæðum. Vaselínið bara bráðnar og skafsárin fara að láta sjá sig. Maginn getur einnig farið á hvolf. Blöðrur koma fyrr en varir á fæturna því menn eru alltaf blautir af svita. Það er hraustlega gert hjá Berki og Ásgeiri að klára hlaupið enda þótt tímamörkin séu rúm. Það er enginn barnaleikur að vera á ferðinni við slíkar aðstæður í um og yfir 40 klst.
Ég keypti bók í gær sem heitir "Brain Training for Runners" eftir Matt Fitzerald. Mér finnst þetta efni áhugavert því ég veit að hausinn er a.m.k. helmingur af árangri í langhlaupum. Að hafa hausinn í lagi er forsenda þess að ná settu marki. Sársaukaþröskuldur er misjafn og það er hægt að þjálfa hann eins og margt annað. Þegar skrokkurinn fer að þreytast sendir heilinn út skilaboð um að nú geti verið hætta á ferðum. Það heitir sársauki. Tilgangur þess er að vernda líkamann. Menn eins og Kurosis hafa mjög háan sársaukaþröskuld eða hafa þann hæfileika öðrum frekar að geta útilokað sársaukann. Hann hefur sagt að oft sé ástandið í fótunum þannig að hann búist við að fara beint á sjúkrahús eftir að hlaupi sé lokið en einhvern vegin er það þannig að það hefur aldrei þurft á því að halda þegar til kastanna kemur. Hraði í hlaupi ræðst ekki einvörðungu af líkamlegu ástandi heldur einnig af því hvaða hraða heilinn hefur stillt sig inn á. Það er þekkt að þegar góðir hlauparar hafa náð að brjóta einhver tímamörk þá er miklu auðveldara að fara undir þau aftur. Það er afstaða heilans sem ræður þar miklu.
Í bókinni kemur einnig fram að það hafi haft mikil áhrif á að draga úr niðurbroti vöðva hjá hlaupurum sem stunda löng hlaup að neyta próteindrykkja fyrir hlaup, á meðan á löngum hlaupum stendur og strax eftir þau. Þetta er nákvæmlega sú reynsla sem ég hef fengið á síðasta ári. Ég get fullyrt eftir að hafa notað Herbalife próteindrykki kerfisbundið í tengslum við löng hlaup á síðustu 12 mánuðum að notkun þess hefur haft mikil áhrif í þá átt að maður þolir meira álag, líkaminn er fljótari að jafna sig og þar af leiðir að meiðsla hætta er miklu minni. Ég veit ekkert um hvort Herbalife er besta próteinið sem er til á markaðnum en ég get fullyrt að það virkar vel.
Mogginn fór heldur betur yfir strikið í gær þegar blaðið birti langloku upp á eina og hálfa síðu í samfelldri auglýsingu og dýrðaróði um vatnspípur sem sé nýi trendinn hjá hópi unglinga. Vitaskuld var gerð athugasemd við þetta vinnulag blaðsins en ritstjóragreyið reyndi að bera hönd fyrir höfuð sér og verja blaðið með því að segja að það hafi verið sagt að tóbak úr vatnspípum sé jafn hættulegt og venjulegt tóbak. Það sér hver maður hvað tvær setningar vega á móti einni og hálfri síðu. Ætli komi næst samskonar umfjöllun um reykjarpípur? Hvað sé gaman að sýsla við pípuna og diskutera málin við aðra pípureykingamenn, fjallað um mismunandi tegundir pípna og svo framvegis. Síðan sé minnst í forbifarten í einni setningu að tóbak sé hættulegt. Svo kemur munntóbakið næst, hvað sé gaman að fá sér munntóbak eftir að hafa spilað góðan fótboltaleik með félögunum o.s.frv. o.s.frv. Þetta er svo sem dæmigert fyrir þá stöðu sem íslensk blöð eru í að mörgu leyti að birta svona bull. Hvenær ætli Politiken og Dagens Nyheter hafi svona umfjöllun á útsíðu?
Ég verð nú að segja að mér finnst ekki skrítið að mennirnir sem voru sem ungir drengir vistaðir nauðungarvistun í Breiðuvík séu ósáttir við þær bótafjárhæðir sem ríkið hefur gert tillögur um. Að láta menn fá nokkra hundraðþúsundkalla upp í ca tvær milljónir er ekki mikið fyrir að hafa rænt þá ómetanlegum verðmætum svo sem möguleikanum að læra og byggja sig upp sem einstaklinga. Maður getur sjálfan sig séð ef maður fengi strákinn sinn úr svona vistum og hann kynni ekkert annað en að slást og hvorki vildi né gæti lært annað.
fimmtudagur, september 04, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Spurning hvort það er hægt að fá þessa bók lánaða hjá þér þegar þú ert búinn með hana ?
:)
Bibba
ég skal lána þér bókina en þú verður að vera þolinmóð. Það gengur ekkert að lesa upp í á kvöldin því ég sofna yfirleitt á þriðju blaðsíðu. Ef þér leiðist að bíða þá fæst bókin í Eymundsson.
Skrifa ummæli