laugardagur, september 13, 2008

Það hellirigndi í morgun þegar við Jói, Stefán og Sigþór fórum að gera klárt fyrir Jónshlaupið í morgun. Manni leist ekki meira en svo á blikuna. Það kom sér vel að hafa aðgengi að Jóatjaldi og Jóagræjum öðrum sem þeir félagar komu með í fullri kerru. Allt var til og allt var klárt. Við skelltum upp tjaldinu og komum nauðsynlegum hlutum fyrir og gerðum klárt fyrir start sem var kl. 10.00 á sex tíma hlaupinu og kl. 13.00 á þriggja tíma hlaupinu. Aðeins bar á því að það vafðist fyrir mönnum að finna markið og skrifast það á undirritaðan að hafa ekki skýrt það nákvæmlega út fyrir áhugasömum. Verður bætt úr því næst. Það voru sex manns sem hófu hlaup kl. 10.00, fimm sex tíma hlauparar og Ingólfur sem þurfti að var annarsstaðar kl. 14.00 og fékk þvía ð hlaupa 3ja tíma hlaup fyrr en aðrir. Járnbræður komu í fögrum skyrtum hvar á stóð "Ironman Finisher 2008" og vöktu þær almenna aðdáun og fjarrænt blik kom í augu sumra viðstaddra. Umræður í tjaldinu snerust mikið um hjólatýpur, vindskurð, þrekæfingar og sundæfingar og ekki minnkaði það þegar meistarinn sá járnharði Steinn kom á svæðið. Venjulegt fólk átti erfitt með að haldast við inni í tjaldinu þegar stemmingin reis sem hæst og hjólaverðið komið upp í nær hálfa milljón. Markmiðið er sem sagt Barcelona í byrjun október á næsta ári svo menn geti farið að panta.
Trausti hætti hlaupum eftir maraþonvegalengd sem hann rann á um 3.30. Það er fínt afrek eftir að hafa klárað Ironman með miklum sóma fyrir viku.
Þriggja tíma hlaupararnir hófu hlaup kl. 13.00 og runnu skeiðið létt og af mikilli ánægju. Veðrið hafði heldur betur batnað og var það mestan part dagsins hlýtt, logn og úrkomulaust. Rétt undir lok hlaupsins fór að rigna aftur í stórum skúrum og þökkuðum við okkar sæla fyrir það hve lengi hafði hangið þurrt. Hlaupi lauk kl. 16.00 og var þá blásið í lúður og síðan mælt frá marki hvar hver var staddur. Við hlaupalok beið heitt kakó og vöfflur í Jóatjaldi. Það er eitt af því skemmtilega við tímahlaup eins og þetta að það safnast allir saman við hlaupalok. Þeir bestu eru ekki farnir heim þegar hinir seinfærari ljúka hlaupi eins og oftast gerist. Það er mjög gott að hlaupa í hólmanum. Leiðin er skemmtileg og malarstígur er auðveldari en malbik. Trén draga úr vindi og skýla að hluta til fyrir regni. Hægt er að miða hvort hlaupið er réttsælis eða rangsælis við hvernig vindátt er. Ég geri ráð fyrir að þarna sé framtíðarstaður Jónshlaupsins að óbreyttu. Við verðum að skoða tímasetningu hlaupsins með hliðsjón af því hvenær Tungnaréttir eru en nokkra Tungnamenn langaði til að koma og taka þátt í hlaupinu til að heiðra látinn sveitunga sinn. Það verður skoðað næsta haust.

Úrslitin urðu sem hér segir:

Þriggja tíma hlaup:

Konur:

Sif Jónsdóttir 33.732 m
Jónína Ólafsdóttir 28.277 m

Karlar:

Sigurjón Sigurbjörnsson 37.843 m
Ingólfur Arnarson 35.802 m
Magnús Guðmundsson 35.731 m
Geir 33.778 m
Gunnar Geirsson 30.512 m
Aðalsteinn Geirsson 25.952 m

Sex tíma hlaup:

Konur:

Guðbjörg Björnsdóttir (Agga) 58.166 m
Hólmfríður 56.060 m

Karlar:

Ívar Adolfsson 67.190 m
Eiður Aðalgeirsson 54.756 m
Trausti Valdimarsson 42.195 m

Í sex tíma hlaupinu náðist fínn árangur. Ívar sló hátt í íslandsmet Steins sem er 68.4 frá því í fyrra. Brautin er reyndar ekki sú sama né heldur veðrið. Agga náði þriðja besta íslenskrar konu en Elín Reed hefur hlaupið yfir 60 km í bæði skiptin sem hún hefur hlaupið sex tíma hlaup. Norðmenn birtu nýlega lista yfir sína bestu sex tíma hlaupara. Ívar er í 23 sæti á þessum lista af 45 sem hafa hlaupið yfir 60 km. Agga er í 9. sæti og Hólmfríður í 10. sæti á norska kvennalistanum en alls hafa 16 norskar konur hlaupið yfir 50 km í sex tíma hlaupi á árinu. Við eigum marga góða hlaupara en stundum vita þeir ekki hve þeir eru góðir í samanburði við aðra.

Takk fyrir daginn

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtilegt hlaup (mest allan tímann) og erfitt (allan tímann) Frábær hringur og umgjörðin til fyrirmyndar. Gaman að vera í 10. sæti í Noregi :) Ég vann eitt ár með Jóni í Lágafellskóla og var því gaman að hlaupa minningarhlaup um hann. Takk fyrir mig, Hólmfríður Vala

Nafnlaus sagði...

Takk sömuleiðis fyrir þátttökuna. Þú heitir altsvo Hólmfríður Vala. Ég hélt jafnvel að þú hétir Hólmfríður og værir kölluð Vala eins og stalla þín Guðbjörg sem er kölluð Agga!!!!!