Steinn járnkarl skoraði á mig í dag að koma með þeim járnbræðrum til Barþþþþelona í október byrjun á næsta ári tilað takast á við Járnkarlinn þar í borg. Vitaskuld tekur maður svona áskorun. Annað er ekki hægt. Það liggur því fyrir í vetur að læra að synda og fara að hjóla eins og maður. Annars ætla ég ekkert að hugsa um þetta fyrr en í næsta mánuði að gefnu tilefni. Nú er verið að stilla fókusinn. Ég sé að hitinn er heldur farinn að lækka í Grikklandi. Kominn undir 30° C. Meðaltalið segir að hann verði á bilinu 26 - 27°C á þessum árstíma. Ég kvíði því ekkert. Í fyrra var hitinn 26° C kl 5.00 um nóttina þegar einungis tunglið hitaði upp heiminn. Kl. 9.00 kom svo sólin upp í öllu sínu veldi og þá fór að sjóða á ýmsum.
Ég las í dag samantekt eftir svíann Rune Larsson (Löbarlarsson) þar sem hann gefur hlaupurum í Spartathlon góð ráð. Hann segir að ef maður geti ekki hlaupið 100 km undir 10 klst þá eigi maður í erfiðleikum í hlaupinu. Helst verði maður að hlaupa 100 km undir 9.00 klst til að hafa góða möguleika. Ég fór 100 km vel undir 10 klst á Borgundarhólmi í vor og átti þó 120 km eftir. Hvað það dregur langt kemur í ljós. Rune hefur tekið 10 sinnum þátt í Spartathlon hlaupinu, og sigrað í a.m.k. tveimur, þannig að hann talar af reynslu.
Ráð Rune eru þessi:
1. Hafa eins léttan mittispoka og mögulegt er.
2. Senda eins mikið og maður getur út á drykkjarstöðvarnar og skipuleggja það vel. Hann gefur ráð um hvar maður eigi að hafa aðalpokana. Ekki senda þá á stóru stöðvunum því þar getur örtröðin verið meiri, heldur t.d. á næstu stöð fyrir framan.
3. Borða eins mikið og mögulega er hægt á meðan á hlaupinu stendur. Maður er ekki svangur en maður þarf samt næringu. Borða oft en lítið. Passa sig á súpum sem eru ekki nógu vel soðnar.
4. Maður drekkur ca 25% af líkamsþyngd sinni í hlaupinu. Það eru 20 lítrar í mínu tilfelli. Við svo mikla útskolun þarf maður að hyggja vel að því að taka steinefni og sölt. Ef maður lendir í vandræðum með salt þá er ráð að finna MacDonalds stað og fá nokkur saltbréf. Ef þvagið er tært þá má maður fara að passa sig á að drekka minna og taka sölt.
5. Fara eins hratt og mögulegt er í gegnum drykkjarstöðvarnar. Þær eru 70 og ein mínúta á hverri er samtals 70 mínútur. Tvær mínútur á hverri er 140 mínútur. Þarna getur skilið á milli hvort maður klárar eða ekki.
6. Það koma allskonar vandamál upp í hlaupinu. Það er normalt að fá í magann. Maður á að vita af að það getur gerst og vinna sig í gegnum það. Það hellist einnig yfir mann yfirþyrmandi þreyta. Það er normalt. Maður verður að reyna að vinna sig í gegnum hana.
7. Venjulegir menn ganga upp brekkurnar en þeir bestu hlaupa þær. Það er yfirleitt gott að brjóta upp álagið á fæturna með því að ganga upp brekkur.
8. Ekki hlaupa með öðrum. Það truflar. Álag og þreyta getur komið á mismunandi tímum og þannig tefja menn hvor fyrir öðrum. Hlauptu þitt eigið hlaup.
9. Andlega hliðin er mikilvæg. Hafa fókusinn mjög skýran á styttu Leonídasar í Spörtu. Ekkert annað á að komast að.
10. Vera viðbúinn að allskonar erfiðleikar steðji að. Hiti, blöðrur, magavandræði og mögulega andleg uppgjöf. Ekki gera vandamál úr þessu. Þetta er eðlilegt. Ekkert á að koma þér á óvart og þú getur sigrast á þessu. Það sem skiptir máli er að halda áfram til Spörtu. Um að gera að njóta hlaupsins því leiðin er falleg og margt að sjá. Á leiðinni hittir maður marga kollega sem er hluti af upplifuninni.
11. Ekki gleyma því að þetta er mesta hlaup í heimi.
Miðað við reynsluna frá því í fyrra er klárt að ég get lært mikið af þessum ráðum.
mánudagur, september 15, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Held að vegalengdin verði ekki vandamál hjá þér en það er rétt það sem þú bendir á að öll stopp utan þess sem eðlilegt getur talist geta margfaldast á svona langri leið.
Eina planið mitt fyrir MB hlaupið var að stytta stoppin og eyða minni tíma í vesen. Það gekk ágætlega fyrri hlutann en um leið og allt fór á verri veg í seinnihlutanum fór maður að sjá klukkutímana tikka hratt í refsingu.
Þannig þarf að leggja mesta áherslu á allt gangi sem best fyrir sig og sem fæst vandamál komi upp á (fyrirbyggja). Reynsla þín frá fyrri hlaupum ætti að reynast vel.
Skrifa ummæli