sunnudagur, september 04, 2005

Betur og betur kemur í ljós hvílíkt hörmungárástand ríkir í New Orleans eftir fellibylinn. Sá í sænski blöðunum í morgun að Michael Moore sendir president Bush kaldar kveðjur í tilefni þess, enda er forsetinn ekki í miklu uppáhaldi hjá kvikmyndagerðarmanninum. Það er náttúrulega með ólíkindum að skipulögð áætlun og viðbrögð við svona hamförum skuli ekki vera til staðar hjá eins magnaðri þjóð og Bandaríkin eru.

Las í morgun ágætt viðtal í sunnudagsblaði Moggans við Guðmund Árna Stefánsson bráðum fyrrverandi þingmann og verðandi sendiherra. Hann rifjar þar upp ýmis atriði frá þingmannsferli sínum og kemur meðal annars inn á þá tíma þegar hann neyddist til að segja af sér ráðherradómi. Hann er greinilega ekki sáttur við ýmis atriði í vinnubrögðum forystu flokksins á þeim tíma. Ég hef heyrt hvernig vinnubrögðin voru á þeim tíma frá mönnum sem þekktu málin frá fyrstu hendi. Þar voru bakstungurnar notaðar eins og hægt var, blöðin mötuð á því sem kom Guðmundi Árna illa og kynt undir umræðuna að þeim sem hlífa skyldu þar til markmiðinu var náð. Grímur Thomsen lýsir þessu umhverfi vel í kvæðinu Goðmundur á Glæsivöllum.

Fór upp að Hvanneyri í gærkvöldi á þrjátíu ára reunion. Við vorum ellefu saman sem stóðum glaðbeittir á hlaðinu á Hvanneyri í júní byrjun 1975 sem nýútskrifaðir búfræðikandidatar eftir að hafa átt þar saman 4 - 5 góð ár saman. Á þessum árum var tími uppbyggingar og framfara í landbúnaði. Á Hvanneyrarárunum valt oft á ýmsu, ekki síst í glímu okkar við yfirvöld á staðnum þegar við vorum farnir að eldast og vildum hafa frjálsræði eins og okkur þótti hæfa rúmlega tvítugum mönnum. Einu sinni þegar eldarnir loguðu sem hæst þá útbjuggum við að miklu hugviti jólakort með nokkurskonar skólaspjaldsmynd af okkur félögunum í fangabúningi bak við lás og slá. Þetta kort sendum við ráðamönnum á staðnum með jólakveðju að sögn við litla hrifningu móttakenda. Það er gaman að hittast á nokkurra ára fresti og rifja upp góðar minningar fá þessum árum þegar allrir vegir voru færir og bjartsýnin ein réði ferðinni. Mestu máli skiptir að allir í hópnum hafa spilað ágætlega úr sínum spilum og ýmsir skipað sér í framvarðarsveit á sínu sviði. Félagi Guðmundur minnti á Borgarfjarðarhlaupið þann 24. september n.k. sem hefst kl. 14.00 við kirkjuna á Hvanneyri.

Styrkleikamunur kom glöggt í ljós þegar leið á landsleikinn í gær, enda kannski ekki að furða. Miklu máli skiptir þó að geta gengið stoltir af velli þrátt fyrir tap og hafa gert sitt besta. Króatía er nú einu sinni með eitt besta lið Evrópu um þessar mundir. Sá stóran hluta af leiknum U21 á föstudagunn. Þar kom hinsvegar í ljós mikill styrkleika og getumunur þrátt fyrir að tapið hafi bara verið 1-2. Íslendingar geta þakkað Ingvari Kale, markmanni Víkings, fyrir að tapið var ekki stærra. Hann og Sölvi Geir, einnig uppalinn Víkingur, voru bestu menn íslenska liðsins.

Horfði á hluta að landsleik íslendinga og dana í körfu í gær. Danir unnu örugglega þegar upp var staðið. Var eins og íslendingar hefðu ekki nægt úthald. Líklega hefur Kínaferðin setið í þeim. Skil reyndar ekki alveg taktikina að fara í ferðalag tíl Kína örfáum dögum fyrir svo mikilvægan leik.

Sá á blogginu hjá Evu að hálfmaraþonið í gær hefði verið 21,7 km. Það er ekki nógu gott að vegalengdir í hlaupum séu ekki rétt mældar, hvað þá þegar um íslandsmeistaramót er að ræða. Ég hef alltaf grun um að minn besti tími í 10 km, sem ég náði á Selfossi fyrir nokkrum árum síðan, hafi verið hlaupinn á braut sem var í styttra lagi. Einhvern veginn þá er ég ánægðari með tímann sem ég fékk í 10 km á RM í fyrra enda þótt hann sé nokkrum sekúndum lakari því ég veit að hann stenst, svo er Timex fyrir að þakka.

Fékk þennan símahrekk sendan nýlega. Hann er með þeim betri sem ég hef heyrt. http://www.fm957.is/uploads/FileGallery/Files/Zuuber/Hrekkir/Zuuber%20hrekkur%20-%20Oli%20forseti%20pantar.mp3

Engin ummæli: