Olíuverðið hækkaði enn einn ganginn til í gær og fyrradag. Líterinn af bensíni og hráolíu kostar hátt í 120 kall. Þrátt fyrir mótmæli hátt í tuttugu þúsund manna hefur fjárfmálaráðuneytið ekki ljáð máls á því að endurskoða skattlagningu á eldsneyti. Það er nefnilega ekkert smámál ef þessi grípðarlega hækkun á eldsneyti sem er staðreynd fer að spóla upp verðbólgu með tilheyrandi afleiðingum. Skatttekjur ríkisins hafa aukist verulega umfram það sem ætlað var á liðnum misserum þannig að það er örugglega borð fyrir báru. Vitaskuld getur maður reynt að draga úr notkun bílsins ef manni þykir dropinn dýr. Maður má ekki alveg gleyma sér í kröfugerð á aðra en stundum er erfitt að ráða við hlutina.
Það kom hópur norðmanna í heimsókn í sambandið í gær eins og nokkuð algengt er að erlendir hópar komi til okkar og fái að heyra um skipan sveitarfélaga á Íslandi. Við fórum síðan tveir með þeim út að borða í Perluna í gærkvöldi og var það ágæt kvöldstund. Perlan er náttúrulega stórkostlegur staður, ekki síst þegar farið er að rökkva á kvöldin og borgarljósin njóta sín vel í snúningnun. Ég man þá tíð að manni þótti bygging Perlunnar vera hin mesta fásinna og flottræfilsháttur. Í dag lít ég svo á að bygging hennar hafi verið dæmi um framsýna og stórhuga ákvarðanatöku sem hefur heldur betur sannað sig. Það er nefnilega ekki sérstaklega gott eða uppbyggilegt handverk að mála skrattann á vegginn hvar sem tækifæri gefst. Ekki vildi ég vera í sporum þeirra stjórnmálamanna sem hafa þann starfa að meginviðfangsefni.
Ég hef verið í góðum tengslum við fólk af ýmsum toga frá Norðurlöndum í um aldarfjórðung. Ég hef stundum hugsað um það hve mér finnst viðhorf nágranna okkar gagnvart íslandi hafa breyst á liðnum áratug eða svo. Hér áður var Ísland í nokkurskonar yngstabróður hlutverki, forvitnilegur, öðruvísi og svolítið skrítinn. Hér geysaði óðaverðbólga sem enginn skildi hvernig gat gengið (enda gekk hún alls ekki). Hér var ekki sjónvarp á fimmtudögum og við töluðum mál sem enginn annar skildi. Í kjölfar aukinna umsvifa íslenskra stórfyrirtækja á norrænum vettvangi og margháttaðra annarra breytinga finnst mér þetta viðhorf hafa breyst verulega. Nú líta norðurlandabúar á Ísland sem land þar sem eru að gerast margir mjög áhugaverðir hlutir, bæði í atvinnulífinu, velferðarkerfinu og listum og menningu. Þeir eru forvitnir en um leið með dálitla aðdáun í röddinni. Velferð hérlendis vekur athygli nágranna okkar. Þeim finnst til dæmis mjög athyglisvert að hámenntað fólk sem hefur dvalist langtímum erlendis við nám og starf sækir heim til Íslands aftur þegar tækifæri skapast til þess. Eitt af því sem er styrk stoð undir þeirri öru þróun þjóðfélagsins er að það er frekar regla en undantekning að fólk sæki einhvern hluta af námi sínu á erlenda grund. Þegar sú reynsla, þekking og menningaráhrif sem þetta fólk hefur með sér í farteskinu heim aftur þá verður útkoman sjóðandi pottur sem virðist skila ótrúlegum krafti inn í samfélagið. Ég ætla mér hvorki að vera væminn eða patríotískur en þetta er tilfinning mín þegar maður horfir um öxl. Það er nefnilega með ólíkindum að það eru minna en ein öld síðan að Ísland var fátækast allra landa í okkar hluta heimsins, einangruð afskekkt eyja í samfélagi þróaðra iðnaðarsamfélaga.
laugardagur, september 03, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli