Seinni dagur ráðstefnunar í dag. Enda þótt stærstur hluti hennar hafi verið á finnsku þá var engu að síður mjög gagnlegt og fróðlegt að sjá hvernig samtök finnsku sveitarfélaganna standa að viðburði eins og þessum. Það er margt sem hægt er að læra af nágrönnum okkar. Alltaf rekur maður sig á hve Finnar og Íslendingar harmónera vel saman. Það er eitthvað í sálinni sem tengir menn fljótt saman enda þótt menn hafi ekki þekkst lengi. Við höfum eignast góða vini hér í sveitarfélagageiranum og endurnýjað kynni við aðra sem vonandi verða þróuð betur áfram heima á Íslandi. Það heyrir maður mjög oft að það er draumur fólks hér á Norðurlöndum að komast til Íslands. Það þykir öðruvísi og spennandi um leið að vera dálítið fjarlægt. Það hafðí borist til Finnanna að ég hafði hlaupið 100 M í vor. Þeir sögðust telja sig nokkuð hrausta en nú væru greinilega komin ný viðmið.
Í kvöld fórum við Magnús Karel ferðafélagi minn á rússneskt veitingahús hér ekki langt frá Esplanaden. Það heitir Saslik. Ég mæli mjög með því. Það er greinilega rekið af aðdáendum rússnesku keisarafjölskyldunnar sem var drepin í byltingunni 1917 því það voru myndir upp um alla veggi af þeim en hvergi sáust Lenin, Stalin eða Trotsky. Við borðuðum saltar gúrkur og bjarnarkjöt, drukkum rússneskan bjór og rauðvín frá Úkraníu og síðan var gregorískt te í eftirrétt. Afar gott og vel framreitt. Góðir tónlistarmenn spiluðu undir matnum á fiðlu og gítara. Mæli með staðnum.
Finnst gott að heyra að stjórn FM ætli að hittast á mánudaginn að ræða fyrri ákvörðun varðandi tímasetningu haustmaraþons. Það er í eðli góðra manna að viðurkenna staðreyndir og breyta ákvörðunum ef svo ber undir. Maður vonar það besta. Búinn að taka góðar slaufur hér í Helsinki á morgnana. Fínt að skoða borgir svona í morgunsárið.
fimmtudagur, september 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli