Kom að vestan í gærkvöldi eftir ágætan túr. Kláruðum að setja gólfið í húsið sem er stór áfangi því nú er hægt að vera í því vandræðalaust á meðan verið er að vinna við frekari endurbætur. Það verður nóg að gera þarna á næstu árum en þetta verður vafalaust skemmtilegt verkefni. Fórum aðeins á bæi að spjalla við fólk og rifja upp gamlar sögur og heyra nýjar. Veðrið var afar gott og hjálpaði mikið til. Gátum látið allt efni liggja úti og tekið það inn eftir hendinni. Þegar við vorum að leggja af stað í gær um hádegið var farið að draga upp skúrir í flóann þannig að þá hefði ekki verið til setunnar boðið. Nú er Esjan alhvít eftir mikið él sem gekk yfir rétt áðan þannig að það er farið að lykta af hausti. Á leiðinni suður hittum við nokkra Barðstrendinga sem voru að reka fé heim. Kallarnir voru brattir að snúast við féð. Maður áttar sig á því hvað tíminn líður þegar maður hittir menn sem manni finnst alltaf vera eins en nú eru þeir skyndilega að verða áttræðir, kvikir á fæti og léttir í lund.
Í vor þegar við Jón Sigmar fórum vestur sáu við tvö erni og þótti gott. Nú bættum við um betur því við sáum þrjá erni á leiðinni vestur á laugardaginn. Fyrst voru tveir ernir á Litlanesinu og síðan þegar við komum að Fossá þá sat einn delinn á húsþakinu á bænum. Hann hreyfði sig hvergi þótt við færum út og tækjum myndir af honum.
Þegar maður er að vinna svona við smíðar þá hlustar maður mikið á útvarp. Gamla útvarpið er hálf lélegt þannig að maður náði bara rás 1 á sunnudaginn. Þvílík ógn og skelfing sem dagskráin var leiðinleg. Þetta voru lítið nema prelódíur og fúgur fram að kvöldmat með kammertónleikum innan um og saman við. Ég veit ekki hver er tilgangurinn með því að útvarpa svona jaðartónlist út sem afþreyingu. Ég hugsa að stór hluti þeirra sem líkar við svona tónlist sé í vinnu uppi í útvarpi við dagskrárgerð.
Á leiðinni suður hlustar maður á fréttir eins og gengur og gerist. Á stöð tvö var frétt um að það væri betur borgað að vinna í "ræsinu" heldur en á leikskóla og var talað við pólskan mann í tilefni þess. Hann hafði uninð á leikskóla en fór í aðra betur launaða vinnu við viðhald húseigna og annað álíka sem fréttamaður Stöðvar tvö kallaði að vinna í ræsinu. Hann sagði að viðhaldsvinnan væri léttari en leikskólavinnan sem væri einnig skemmtilegri en launin væru betri í viðhaldinu. Nú er það staðreynd að það eu greidd misjöfn laun fyrir mismunandi vinnu. Ég ætla ekki að segja um hver sé eðlilegur launamunur milli starfa. En ef viðhaldsvinnan er bæði léttari og betur borguð, af hverju fer þá ekki fleira starfsfólk af leikskólunum að vinna í viðhaldsvinnu. Spyr sá sem ekki veit.
Einnig var á Stöð tvö talað um það með nokkurri vandlætingu að hjón sem vildu komast í gervifrjógvun þyrftu að borga aðgerðina að fullu ef þau vildu ráðast í hana strax en þyrftu að býða fram á næsta ár ef þau væru kyrr í röðinni og fengju þá fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera til verksins. Ég sé nú ekki pointið í þessari frétt. Ef einhver vill taka sig út úr röðinni og fara fram fyrir aðra þá verður hann veskú og spís að borga fyrir það. Annað væri óeðlilegt. Þarna hefur greinilega einhver kunningi fréttamannsins hringt í hann og verið fúll yfir því að allt kerfið snerist ekki eins og honum kæmi best. Fagmennska fréttamanna lætur ekki að sér hæða.
Mér fannst athyglisvert viðtalið sem ég heyrði við gamla Stoltenberg í útvarpinu í gærkvöldi. Hann fullyrti að aðildarumsókn Noregs að öryggisráðinu hefði komið til vegna þess að aðildarumsókn Noregs að Evrópusambandinu var felld. Æðstu embættismenn norska ríkisins voru fúlir yfir því að fá ekki að vera memm í hópi stóru strákanna og því var hafist handa um að koma þeim á fundi í öryggisráðinu. Árangur Noregs af setu sinni í öryggisráðinu varð enginn þegar upp var staðið sagði gamli Stoltenberg. Mér hefur fundist þetta mál allt saman lykta af því að hér hafi embættismenn utanríkisþjónustunnar ráðið ferðinni. Ég vildi sjá greinargerð um hvað við ætlum okkur með setu okkar í öryggisráðinu. Hana hef ég ekki séð. Það þýðir ekkert að segja að við verðum að vera með í alþjóðasamfélaginu af alvöru og annan álíka útíslátt. Á hinn bóginn er ljóst að aðildarumsóknin er búin að liggja fyrir árum saman og spurning hvort ekki sé komið of langt áleiðis. Kannski verðum við bara felld í kosningum? Búið er að taka upp stjórnmálasamband við yfir 60 ríki vegna þessa á síðustu árum. Meðal annars hefur verið tekið upp stjórnmálasamband við þjóðríkin alþekktu Djúbútí og Túvalú. Manni er spurn af hverju Djúbútí og Túvalú óska ekki eftir setu í öryggisráðinu. Við gætum lofað að styðja þau. Hvar ætli þau séu staðsett á jarðkringlunni nota bene?
Fram féll í 1. deild í knattspyrnu á laugardagin. Það er ekki oft sem maður er ánægður með að lið falli en svo var á laugardaginn. Í fyrra var Fram að berjast við að forðast fall og tapar síðasta leik 1 - 6. Í ár eru þeir í sömu stöðu og tapa 1-5. Svona karakterlaust lið á ekki skilið að spila með þeim bestu.
þriðjudagur, september 20, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli